EveAlice er frumburður Daysleeper.
EveAlice er frumburður Daysleeper.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EveAlice er frumburður Daysleeper. Sveitina skipa Sverrir Bergmann (söngur), V (gítar og bakraddir), Buster (gítar), Bronze (bassi), Stefanovich (trommur), Young (hljómborð og forritun). Þeim til aðstoðar var Siggi Vídó (mandólín). Lög og textar eftir meðlimi, einnig koma Auðunn Blöndal, Jónsi og Stebbi við sögu. Tvö þau síðastnefndu kunna að vera nöfn á meðlimum. Hrannar Ingimarsson sá um upptöku og hljóðblöndun. Stjórn upptöku var í höndum Hrannars og Young.

DAYSLEEPER er ung sveit, var stofnuð í fyrrahaust, og hefur verið nokkuð áberandi undanfarið í hinum og þessum miðlum. T.a.m. hafa lögin "Kumbh Mela" og "Again" hljómað talsvert í útvarpi, svo og í sjónvarpi.

Sveitin leggur fyrir sig melódískt léttgrugg; hljóma á stundum eins og órafmagnaðir Alice in Chains eða Pearl Jam en einnig koma nöfn eins og Staind og Blind Melon upp í hugann.

Sem fyrsta plata sveitar er EveAlice furðu fullmótaður gripur; hljómur skýr, flutningur laga lýtalaus og heildaráhrifin þægilega þétt og traust. Undir þessu fágaða yfirborði er þó því miður lítið sem hægt er að slægjast eftir. Þegar fyrsta laginu sleppir, hinu ágæta "Kind of Jesus" er ekki eitt - nei, ekki eitt lag - sem skilur eitthvað áþreifanlegt eftir sig. Sem verður að teljast hið versta mál þegar um ellefu laga plötu er að ræða.

Frá og með "Travel this trip" tekur við tilþrifalítið ferðalag þar sem rólegar gruggballöður ráða ríkjum - með hreint undarlega bitlausum krókum. Söngvari sveitarinnar, Sverrir Bergmann, syngur lögin af mikilli einlægni og manni dylst ekki að sveitin gerir þetta allt saman af miklum metnaði. Það má hún líka eiga - og það skuldlaust. En mér er nauðugur einn kostur að leggja ískalt mat á það sem allt snýst um hér. Sjálfa tónlistina. Og hún er, svo farið sé í klisjubankann, í raun hvorki fugl né fiskur.

Aftur að Sverri. Manni er skapi næst að sleppa þessari málsgrein, svo mikið leggur hann sig nú fram.

Röddina hefur hann og víst getur hann verið lagviss. En söngsprettirnir hjá pilti nálgast á stundum hreina smekkleysu. Tilfinningasnauðar falsettuæfingar að hætti Jeff Buckley gera þessari plötu síst greiða (ekki mátti hún við miklu) og svo langt er farið með þetta Buckley-nudd að einstaka Piaf-titringar, að hætti fyrirmyndarinnar, eru látnir fljóta með. Óskiljanlegt að þessar þreifingar hans hafi verið látnar óáreittar.

Allt í allt vantar tilfinnanlega á þessa plötu lagasmíðar sem hreyfa við manni og snerta. Auk þess leikur ára tilgerðarinnar í kringum allt hér, hvort sem það er umslag, lög eða ljósmyndir í bæklingi. Væmið og stíliserað úr hófi þar sem dramatíkin er hol, tilfinningarnar eru gervi og það hringlar í heildarpakkanum.

Það eina sem hægt er að segja þessari plötu til hrós er að hún lætur þægilega í eyrum - en þá í mesta lagi sem léttgárandi bakgrunnstónlist. Og ég trúi því seint að það hafi verið það sem sóst var eftir.

Setningin "I sense inactivity" ("Ég finn fyrir aðgerðarleysi") í laginu "Face it all" liggur óþægilega nálægt Evu Lísu. Því þannig er henni líklega best lýst, þar sem hún flýtur sofandi framhjá manni í átakalausum, ómerkilegum dagdraumi.

Arnar Eggert Thoroddsen