Höfnin Marina Grande sem er austarlega á eyjunni.
Höfnin Marina Grande sem er austarlega á eyjunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við strendur Ítalíu eru fjölmargar eyjar, stórar og smáar, rómaðar fyrir náttúrufegurð. Ein sker sig úr, í huga margra sem þangað hafa komið, en það er Capri. Sigurður Þór Salvarsson upplifði töfra eyjarinnar.

"Komið allir Caprisveinar, komið sláið um mig hring. Meðan ég mitt kveðjukvæði um Catarinu litlu syng..."

"Komið allir Caprisveinar,

komið sláið um mig hring.

Meðan ég mitt kveðjukvæði

um Catarinu litlu syng..."

Þetta eru upphafslínurnar í ljóði þjóðskáldsins Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi um stúlkuna Catarinu á klettaeyjunni Capri suður við Ítalíustrendur. Eyjan hefur verið aðdráttarafl fyrir háa sem lága um árþúsunda skeið; Ágústus Rómarkeisari kom þangað 29 fyrir Krist og kollegi hans Tiberius eyddi hér ævikvöldinu og má enn sjá rústir húsa hans í eyjunni.

Góðar samgöngur

Fjölmargar ferjur ganga milli Capri og meginlandsins daglega, flestar frá Napólí en styst er að taka flugbát frá bænum Sorrento, en ferðin tekur um 20 mínútur.

Ef menn ætla ekki að gista á Capri er skynsamlegast að taka ferju snemma morguns því ferðamannafjöldinn vex stöðugt eftir því sem líður á daginn. Margir láta sér duga einn dag á Capri því gisting í eyjunni er dýr. Smæð eyjarinnar gerir það líka að verkum að auðvelt er að skoða það markverðasta á einum degi, þó svo að töfra Capri verði best notið á nokkrum dögum.

Á Capri eru tveir þéttbýliskjarnar, annars vegar bærinn Capri og höfnin Marina Grande austantil á eyjunni og hinsvegar þorpið Anacapri ofar og vestar.

Blái hellirinn

Fyrsti áfangastaður ferðamanna á Capri er Marina Grande, meginlífæð eyjarskeggja. Þar er ys og þys frá morgni til kvölds, ferjur og bátar koma og fara án afláts. Þaðan fara meðal annars bátar með ferðamenn til að skoða eitt af undrum Capri, Bláa hellinn, en fjölmargir sjávarhellar eru kringum eyjuna.

Blái hellirinn er norðvestantil á eyjunni en inn í hann er eingöngu hægt að komast af sjó og verður sjólag að vera gott. Nafn sitt fær hellirinn af hinum einstaka safírbláa lit sem sjórinn inní hellinum tekur á sig vegna birtu sem berst inn neðanfrá, og bregður þessari töfrabirtu á sjóinn.

Líkt og með ferðir til Capri er skynsamlegast að fara og skoða Bláa hellinn snemma morguns, bæði vegna minni umferðar og svo er birtan í hellinum fegurst á morgnana.

Frá Marina Grande er hægt að taka hvort heldur sem er strætó upp til Capri eða þá togbrautarvagn. Bærinn Capri er að mörgu leyti dæmigerður bær á þessum slóðum; þyrping lágreistra hvítkalkaðra húsa og litlar þröngar götur og sund á milli. Verslanir og matsölustaðir eru á hverju strái og rétt er að geta þess að verðlag á Capri er töluvert hærra en gengur og gerist á Ítalíu, vegna hins mikla ferðamannastraums.

Fallegar gönguleiðir

Þeir sem hafa minni áhuga á að stunda búðarráp á Capri geta farið í ferðir um eyjuna, ýmist með bíl eða þá gangandi, en margar merktar slóðir er um að velja. Ein sú fallegasta liggur frá Capri suður að klettadröngunum tignarlegu, Faraglioni, og þaðan austur eftir eyjunni og til Capri aftur. Þessi ganga tekur 2-3 klukkutíma á þægilegum hraða og býður uppá stórfenglegt útsýni.

Margt annað er hægt að skoða á Capri, fallegan gróður og dýralíf að maður tali nú ekki um mannlífið.

Þeir sem einu sinni koma til Capri gleyma því ekki.

*Vefslóð með upplýsingum um Capri: www.capri.net eða www.caprionline.com Hægt er að hafa samband við Upplýsingaskrifstofu ferðamála á Capri í síma (0039)081-837-0634 og 081-837-5308 Upplýsingar um ferðir til og frá Capri til Napólí fást hjá Upplýsingaskrifstofu ferðamála á aðallestarstöðinni í Napóli. Sími (0039)081-268-779, fax 081-206-666 Vefslóð: www.ept.napoli.it