Veitingastaðurinn var þétt setinn og andrúmsloftið skemmtilegt.
Veitingastaðurinn var þétt setinn og andrúmsloftið skemmtilegt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Klukkan er að ganga níu að morgni sunnudags þegar Guðbjörg R. Guðmundsdóttir kemur inn á veitingastaðinn Perkins og uppgötvar að hann er troðfullur af uppábúnu fólki, fjölskyldum með börn og rosknum einstaklingum.

Hvernig stendur á því að snemma á sunnudagsmorgni er þröng á þingi á Perkins veitingahúsinu í Roseville í Minnesota? Vinir mínir stungu upp á því að við færum saman í morgunverð og ég hélt satt að segja að það yrði fámennt, í mesta lagi vaktafólk á leiðinni heim eða fólk sem ekki var enn farið heim eftir ævintýri næturinnar.

En það var nú aldeildis öðru nær. Þarna voru hjón með börnin sín, ömmur og afar og hópar sem voru að hittast til að borða saman og það voru eiginlega allir í sínu fínasta pússi.

Þegar ég fór að spyrjast fyrir um hvort þetta væri einhver sérstök uppákoma kom í ljós að margir ef ekki flestir voru að koma úr kirkju. Messurnar byrja oft á tíðum snemma, jafnvel klukkan sex, sjö eða átta á morgnana og sumar auðvitað síðar. Þegar messugjörð lýkur fara fjölskyldur oft saman út að borða morgunverð ef ekki er boðið upp á árbít í félagsheimili kirkjunnar.

Pönnukökur og vöfflur

Stemmningin á Perkins var létt, mikið skrafað og börnin að hlaupa um og leika sér. Og hvað var fólk að borða svona snemma dags? Á borðunum í kringum mig og á mínu borði voru það aðallega vöfflur með rjóma og sultu, pönnukökur með sírópi eða öðru áleggi,ýmiskonar ommelettur, beikon og steikt eggjabrauð sem fólk var að panta. Allskyns safar og kaffi fylgdu með. Vinkona mín pantaði fyrir okkur trönuberjasafa, sagði að þetta væri talinn hollustudrykkur og konur væru farnar að þamba hann í tíma og ótíma. Hún sannfærði mig líka um að kartöflupönnukökurnar væru frábærar og belgísku vöfflurnar ekki síðri. Ég valdi vöfflurnar en það verður nú bara að segjast eins og er að vöfflurnar hennar mömmu eru langtum betri. Hrekkjavökuhátíðin var ekki langt undan þennan sunnudagsmorgun og á Perkins var búið að skreyta með graskerjum og allskyns dóti í hrekkjavökulitunum, appelsínugulu og svörtu.

Fyrsti Perkins veitingastaðurinn var opnaður fyrir rúmlega fjörutíu árum í Ohio í Cincinatti og þá voru það pönnukökurnar sem slógu í gegn. Í dag eru Perkins veitingahúsin um fimm hundruð talsins í 35 ríkjum Bandaríkjanna og Kanada.

Flestir eru staðirnir þó í Minnesota, Wisconsin, Flórída, Ohio og Pennsylvaniu.

Enn er boðið upp á ýmsar tegundir af pönnukökum en ýmsu hefur verið bætt við og sérstaklega eru veitingastaðirnir þekktir fyrir góðar kökur.

Fyrir 55 ára og eldri

Þeim viðskiptavinum sem orðnir eru 55 ára og eldri stendur til boða að kaupa minni skammta og borga lægra verð en ella. Sérstakur barnamatseðill er einnig á boðstólum og þá fylgja lítil leikföng, kaka og drykkur með í pakkanum.

Á flestum Perkins stöðum er einnig bakarí þar sem hægt er að kaupa kökur til að fara með út.

Við vorum ekkert að flýta okkur þennan sunnudagsmorgun, sátum og spjölluðum fram eftir morgni og þannig var það á flestum borðum. Þetta var afar notaleg stund og alveg væri ég til í að taka þennan sið upp hér heima, fara af og til með fjölskyldunni út að borða morgunverð þ.e. ef einhverjir veitingahúsaeigendur tækju upp á því að bjóða árbít á skikkanlegu verði.

*Perkins 2194 Snelling Ave N Roseville, Minnesota 55113 Vefslóð: www.perkinsrestaurants.com