Wolfgang Blass fæddist í Þýskalandi og lærði þar víngerðarfræði. Hann flutti hins vegar ungur til Ástralíu og haslaði sér þar völl í víngerð. Smám saman varð Blass ekki bara litskrúðugasti heldur einnig einn fremsti vínframleiðandi Ástralíu. Fyrirtæki hans varð með árunum hluti af Mildara-Blass sem nú er hluti af Beringer-Blass-samsteypunni, einu stærsta vínfyrirtæki veraldar. Wolf heldur hins vegar áfram um taumana í fyrirtæki sínu, sem er rekið sem sjálfstæð eining innan samsteypunnar. Hann ferðast um heiminn til að kynna vín sín og kom m.a. hingað til lands fyrir nokkrum árum. Mörg af bestu vínum Wolfgangs Blass eru fáanleg í Ríkinu eða hægt er að sérpanta þau.
Wolf Blass Shiraz-Cabernet "Red Label" 2001
Dökkur ávöxtur, þurrkaðar fíkjur, viður, mjög mjúkt og þægilegt með sætu súkkulaði í munni í bland við sultukenndan ávöxt. Kostar 1.340 kr.
South Australia Chardonnay 2001
Hið hvíta Wolf Blass South Australia Chardonnay 2001 hefur mjúkan og ristaðan ilm, þar má greina rjóma, vanillu og sætan ávöxt. Í munni eru eikaráhrifin áberandi, vínið þykkt, með skörpum titrandi ávexti. Ávöxturinn sætur, mikill og allt að því yfirþyrmandi.
President's Selection Chardonnay 2001
Forsetalínan frá frá Blass endurspeglar margt af því besta í ástralskri víngerð og er þetta hvítvín þar engin undantekning. Ofurþroskaður suður-ástralskur ávöxtur og mikil ný eik. Vínið er nokkuð lokað í fyrstu, brennd eik og þurr ávöxtur, þétt og flott í munni þar sem eikin rennur saman við þungan ávöxtinn. Þrumuvín. Kostar 2.090 krónur.
South Australia Shiraz 2000
Þetta er "græni miðinn" frá Blass. Dökkt, þungt, leður og reykur, í munni bjart, sulta og sýra sem spennir vínið upp og opnar. Gott eintak, nammigott vín. Kostar 1.760 kr.
Shiraz President's Selection 2000
Hindberjasulta, vanilla, eik, mjúkt, mjúkur viðurinn tekur völdin í munni, langt og þægilegt vín. Millistórt og mjúkt. Kostar 2.090 kr.
Wolf Blass Yellow Label Cabernet Sauvignon 2001
Cabernet-vínið með gula miðanum (1.320 kr.)er eitt af grunnvínum Blass. Dökkur ávöxtur, lakkrís, bláber og kókoshneta í nefi. Bragðið kryddað, reykt og nokkuð sýrumikið.
President's Selection Cabernet 2000
Töluvert meira og flóknara vín en guli miðinn. Mynta og krydd í nefinu ásamt dökkum ávexti. Vínið er heitt og sætt, kryddjurtir áberandi í munni, vínið langt, mjúkt og tannískt í lokin. Kostar 1.840 kr.