ÍSLENSKIR sjúklingar með beinþynningu munu taka þátt í klínískri rannsókn sem nú er í undirbúningi og gerð verður á um 800 sjúklingum í ellefu Evrópulöndum.

ÍSLENSKIR sjúklingar með beinþynningu munu taka þátt í klínískri rannsókn sem nú er í undirbúningi og gerð verður á um 800 sjúklingum í ellefu Evrópulöndum. Rannsóknin beinist að áhrifum nýrrar tegundar lyfjameðferðar á beinþynningu, en rannsóknir í Bandaríkjunum hafa sýnt að lyfið stuðli að beinauppbyggingu, minnki líkur á beinbrotum og auki beinþéttni. Vonast er til að meðferðin standi almenningi í Evrópu til boða snemma á næsta ári, en bandaríska lyfjaeftirlitið gaf leyfi fyrir skráningu lyfsins fyrr í þessari viku.

Lyfjameðferðin sem um ræðir nefnist teriparatíds og byggist á nýjustu þróun í líftækni. Segir í fréttatilkynningu frá lyfjafyrirtækinu Lilly að lyfið stuðli að framleiðslu nýrra beinvefja með því að auka fjölda og virkni beinmyndandi frumna í beinunum. Teriparatíd sé fyrsta meðferð sinnar tegundar, þar sem þau beinþynningarlyf sem nú séu á markaðnum miði einungis að því að hægja á eða stöðva beinþynningu.

Rannsóknir sem gerðar voru í Bandaríkjunum hafa gefið góða raun, að því er fram kemur í tilkynningunni. Líkur á beinbrotum í hryggjarliðum hafi minnkað um 65% hjá þeim sem notuðu teriparatíd, miðað við þá sem tóku lyfleysu. Líkur á öðrum beinbrotum, t.d. í úlnlið, rifbeinum, mjöðmum, ökklum og fótum, hafi minnkað um 53% samanborið við lyfleysu. Kom fram í sérstakri rannsókn sem gerð var á karlmönnum með alvarlega beinþynningu að beinþéttni jókst um 5% eða meira hjá 53% þeirra sem tóku teriparatíd en hjá um 10% þeirra sem tóku lyfleysu.

Beinþynning herjar bæði á konur og karla, en stærsti áhættuhópurinn er konur eftir tíðahvörf. Talið er að beinþynning hrjái eina af hverjum þremur íslenskum konum yfir fimmtugu. Segjast forsvarsmenn Lilly vonast til þes að með teriparatídi verði hægt að bæta líf fjölda fólks um allan heim sem þjáist af alvarlegri beinþynningu og áframhaldandi rannsóknir geti leitt til frekari uppgötvana í baráttunni við þennan sjúkdóm.

Rannsóknin hér á landi verður gerð undir stjórn læknanna Gunnars Sigurðssonar prófessors og Björns Guðbjörnssonar, læknis og formanns Beinverndar. Björn segir að alls muni 15 íslenskir sjúklingar taka þátt í rannsókninni hér á landi. Á Íslandi séu 1.000-1.200 beinbrot á ári tengd beinþynningu, þar af um 200 mjaðmabrot sem eru hvað dýrust og sársaukafyllst.

Legukostnaður 180-210 milljónir króna á ári

Kostnaður samfélagsins vegna beinþynningarbrota sé mjög mikill. Samkvæmt könnun sem Beinvernd gerði nýlega liggi á hverjum degi 12-14 sjúklingar á stóru sjúkrahúsunum vegna beinþynningarbrota. Legukostnaður sé um 180-210 milljónir á ári en við það bætist kostnaður vegna endurhæfingar, heimilishjálpar og umönnunar einstaklinganna.