RJÚPNASKYTTUR á Norðausturlandi hafa ákveðið að heita á hjúkrunar- og dvalarheimilið Naust á Þórshöfn og láta tíunda hvern fugl sem þeir fella renna til heimilisins, í þeirri von að veiðin fari að glæðast. Frá þessu er greint á vefnum local.

RJÚPNASKYTTUR á Norðausturlandi hafa ákveðið að heita á hjúkrunar- og dvalarheimilið Naust á Þórshöfn og láta tíunda hvern fugl sem þeir fella renna til heimilisins, í þeirri von að veiðin fari að glæðast. Frá þessu er greint á vefnum local.is og vitnað þar til dreifibréfs Þórshafnarhrepps.

"Þetta er fallega gert af drengjunum," sagði Sigmar B. Hauksson, formaður Skotveiðifélags Íslands, við Morgunblaðið um áheit norðanmanna. Hann sagðist ekki hafa heyrt dæmi af svona áheitum skotveiðimanna áður, en hafði fullan skilning á því að ákveðin örvænting hefði gripið um sig meðal sumra þeirra. Rjúpnaveiðin hefði verið dræm til þessa sökum hlýinda, svo mikilla að elstu menn myndu vart annað eins.

"Tíðin er því mjög góð fyrir rjúpuna en að sama skapi erfið fyrir veiðimenn. Ég hugsa að tómstundaveiðimenn séu búnir að fá skammtinn fyrir sig og sína en þeir sem örvænta eru hinar svonefndu magnskyttur eða atvinnuveiðimenn sem ætluðu sér að græða drjúgan pening og hafa verið að bjóða rjúpuna á tvö þúsund kall stykkið."