Þetta skrifaði Dóri þegar hann var strákur inn í stafrófskver sem pabbi hans gaf honum.
Þetta skrifaði Dóri þegar hann var strákur inn í stafrófskver sem pabbi hans gaf honum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókarkafli Auður Jónsdóttir hefur sent frá sér bókina Skrýtnastur er maður sjálfur - Hver var Halldór Laxness? Þar segir hún sögu Halldórs, afa síns, frá fæðingu til efri ára og tvinnar saman við hana minningum sínum um hann sem roskinn mann.

Bókarkafli Auður Jónsdóttir hefur sent frá sér bókina Skrýtnastur er maður sjálfur - Hver var Halldór Laxness? Þar segir hún sögu Halldórs, afa síns, frá fæðingu til efri ára og tvinnar saman við hana minningum sínum um hann sem roskinn mann. Bókin höfðar til ungra lesenda, en fullorðnir aðdáendur skáldsins munu ekki síður hafa gaman af henni og tilvalið er að börn og fullorðnir njóti hennar saman. Gripið er niður í sögu þar sem Dóri hefur lokið við fyrstu skáldsögu sína, Barn náttúrunnar, og fer í sína fyrstu siglingu.

Fyrsta bók í prentun

Það lá á að klára Barn náttúrunnar því sjö ára gamall hafði Dóri fengið vitrun sem hann lýsti síðar í endurminningum sínum: "Ég stend bakatil við húsið, á hlaðhellum forna Laxnessbæarins, í þessum blæ af upprisu, ögn kaldranalegum, og horfi í austur; og þar sem ég stend þar þá er hvíslað að mér utanúr alheimi þessum orðum: þegar þú verður sautján ára muntu deya.

Fyrst varð ég dálítið hræddur. Síðan fór ég að hugsa.

Sem betur fer voru tíu ár til stefnu. Og reyndar átti ég einhverntíma að hrökkva uppaf hvorteð var. Þegar frá leið óttaðist ég mest að vitrunin mundi ekki rætast. Mér bauð í grun að ef ég yrði eldri en sautján mundi ég líklega verða eins og vitskerta konan sem hélt fyrirlestur á dögunum á hverjum bæ í sveitinni og aldrei hlustaði neinn á hana nema hundarnir; aðrir höfðu þarfara að gera."

Hvort sem það var vitruninni eða ritáráttunni að þakka lauk Dóri við skáldsöguna á sautjánda ári, harðákveðinn í að koma henni fyrir almenningssjónir. En þegar hún var tilbúin tóku málin að vandast. Eitt var að skrifa, annað að gera útpáruð blöð að bók til að selja í búðum. Til þess varð hann að fá hjálp.

Dóri hafði heppnina með sér í heimsókn til prentsmiðjustjóra sem leit hissa á hann og spurði: Hafið þér skrifað allt þetta sjálfur?

Já, sagði Dóri. Allt þrisvar. Sumt fjórum sinnum.

Prentsmiðjustjórinn fletti handritinu. Hann kannaðist við föður Dóra og féllst á að reyna að útbúa bók úr handritinu í frítíma sínum.

Dóri var ekki viss um að prentsmiðjustjórinn myndi hafa nokkurn tíma aflögu til að sinna skáldsögu eftir ungan strák úr Mosfellsdal. En hann átti þó eftir að standa við orð sín...

Á meðan Barn náttúrunnar var hjá prentaranum fann Dóri til tómleika og hófst handa við að skrifa nýja bók sem átti að fjalla um vondan prest. Hann hugsaði mikið um vonda prestinn - og handskrifaði marga kafla í stílabækur.

Loks þótti honum þörf á að prufukeyra söguna á fólki. Unglingspilturinn gerði sér þá lítið fyrir og fór á fund lögreglustjórans að fá leyfi fyrir því að halda skemmtun í samkomuhúsinu Bárubúð.

Hann fékk leyfi til þess eftir að hafa fullvissað yfirvöld um að hann ætlaði að halda saklausan upplestur en ekki fyllerísball. Að því loknu auglýsti hann skemmtunina í tveimur dagblöðum.

Hópur fólks mætti í Bárubúð, líklega vegna þess að skemmtanir voru ekki algengar í Reykjavík í þá daga. Á meðan það þyrptist inn í salinn beið Dóri taugaóstyrkur í hliðarkompu. Hann byrjaði að sjá allt í móðu og var hálfleiður yfir því að hafa ekki dáið á páskunum eins og vitrunin hafði boðað honum.

Dóra tókst þó að ramba upp að ræðupúltinu og byrja að fletta blöðunum. En honum gekk illa að finna textann sem hann hafði ásett sér að byrja að lesa. Í þokkabót skildi hann varla sitt eigið hrafnaspark og honum til mikillar hrellingar sátu tveir alvarlegir öldungar á fremsta bekk - annar þeirra púaði og fussaði yfir sögunni.

Í miðjum lestri var Dóri orðinn sveittur með þurran munn en þorði ekki að fá sér vatnssopa af ótta við að hlustendurnir sættu færis og hlypu á dyr meðan hann væri að drekka. Eftir skemmtunina þakkaði enginn honum fyrir lesturinn og stuttu síðar eyðilagði hann söguna um vonda prestinn.

Um þetta leyti var Dóri dálítið utanveltu í heiminum. Fólkið hans bjó allt í Laxnesi, hann var hættur í skóla og þótt kunningjarnir væru nokkrir í Reykjavík var hann að vissu leyti einn með sínum skriftum. Að auki hafði hann flutt frá kaupmanninum í Fróni og bjó hjá hjónunum á Vegamótastíg 9 - en þar var enginn Siggi til að kjafta við fram á nætur.

Í júní kom pabbi hans í heimsókn á Vegamótastíg og fékk kaffi hjá húsfreyjunni á heimilinu. Dóri hafði kviðið heimsókn föður síns, viss um að honum mislíkaði að sonur sinn væri hlaupinn úr skóla og farinn að halda skemmtanir.

En Guðjón var þreyttur og gerði engar athugasemdir við það. Þó var honum mikið í mun að Dóri kæmi í heimsókn upp að Laxnesi, hristi af sér bæjarslenið og hlustaði á fuglana.

Skömmu síðar fór Dóri upp í Laxnes að heimsækja fjölskyldu sína. Með honum í för var Guðmundur Hagalín, vinur hans, sem fór á handahlaupum um túnið svo systurnar Sigga og Helga horfðu heillaðar á. Guðmundur sneri brátt til baka en Dóri dvaldist um sinn í Laxnesi.

Innan tíðar átti hann fallega stund með pabba sínum í kirkjunni á Lágafelli. Þeir hlustuðu á guðsþjónustu, á innsta bekknum þar sem Dóri hafði setið á hné pabba síns þegar hann var lítill. Að því loknu kvöddust þeir í kirkjudyrunum. Guðjón þurfti að hitta nokkra menn þarna en bað Dóra að fara ferða sinna og óskaði honum góðs gengis.

Á leiðinni heim frá Lágafelli staldraði Guðjón lengi við að lagfæra galla í brú sem verið var að byggja á hans verkstjórnarsvæði og ofkældist. Hann fékk lungnabólgu og brátt barst Dóra þetta bréf til Reykjavíkur:

Laxnesi, 19. júní 1919.

Halldór minn, faðir þinn andaðist í morgun. Mig lángar að þú komir heim. Mamma þín.

Heimurinn stóri

Það er ekki auðvelt fyrir ungan dreng að missa pabba sinn. Ef til vill gerði þessi mikli missir Dóra dálítið eirðarlausan, enda urðu mikil stakkaskipti í lífi hans stuttu eftir andlát Guðjóns.

Síðar um sumarið kvaddi hann móður sína, ömmu og systur og sigldi í fyrsta skipti af stað út í hinn stóra, fræga heim. Hann var á leið til Danmerkur þar sem hann dvaldi yfir veturinn ásamt því að litast eilítið um í Svíþjóð. Mamma hans vonaði að hann myndi mennta sig í Danmörku - en Dóri hélt áfram að sækja sína menntun í skóla lífsins, lesa bækur og skrifa.

Í fyrstu siglingunni var allt svo framandi og forvitnilegt. Um borð í skipinu fékk Dóri súpu sem var svo fín að hún hét Marie-Louise og hann varð uppnuminn af að smakka hana. Hann var að byrja nýtt líf og fannst hann vera allt annar maður en sá sem hafði byrjað að skrifa Barn náttúrunnar ári fyrr.

Honum varð starsýnt á hina farþegana í gegnum rúðugleraugu sem hann brúkaði upp á skraut. Þykkt, ólgandi hár bylgjaðist á höfði hans og hann var klæddur í nýjan sjakket, gráteinóttar buxur og gula skó. Í ofanálag var hann með blátt silkislifsi út á axlir. Engan skal furða þó að fullorðna fólkinu hafi einnig orðið starsýnt á þennan skrautlega pilt.

Fáir tóku Dóra tali á skipinu nema sérvitrir karlar - og þegar hann steig í fyrsta skipti á danska grundu rann upp fyrir honum að hann var einn og húsnæðislaus í ókunnugu landi.

Eftir langan bíltúr með leigubílstjóra, sem vissi ekkert hvert hann ætti að fara með piltinn, mundi Dóri að í vasabókinni hans var heimilisfang manns sem hét Scheuermann. Hann hafði verið beðinn um að skila kveðju til hans frá kaupmanninum í Fróni. Því gerði Dóri sér lítið fyrir og fór til hans.

Scheuermann reyndist vera góðlegur karl með snúið yfirvaraskegg, þvílíkur gæðamaður reyndar að Dóri fékk að búa hjá honum og fjölskyldu hans. Þar að auki gaf Scheuermann sér mikinn tíma til að sýna honum markverða staði. Til að mynda dýragarð sem hafði að geyma virðulegt ljón og tívolíið í Kaupmannahöfn sem Dóra þótti einhver sá dásamlega fegursti staður sem hann hafði nokkru sinni augum litið.

Á heimili Scheuermann kynntist Dóri nýjum matarvenjum, eins og að drekka vín með mat og borða kryddað nautakjöt, en á Íslandi hafði hann aðeins vanist á að borða lambakjöt. Við fyrstu máltíðina í þessu húsi hljóp hann frá borðinu og gubbaði öllum matnum, frú Scheuermann til slíkrar skelfingar að hún brast í grát.

Í bréfi til mömmu sinnar hrósaði Dóri þó danska matnum! Lýsti honum fjálglega fyrir henni, kannski til að hún hefði ekki óþarfa áhyggjur af því að hann liði skort.

Löngu síðar skrifaði hann endurminningabókina Úngur eg var og sagði þar: "Harmleikurinn útaf matnum fyrsta daginn var ekki endurtekinn. Ég lærði átið í Danmörku. Í heilt ár sá ég ekki sauðakjöt á borðum og þegar ég kom heim eftir árið var ég orðinn afvanur því."

Vissulega aðlagaðist Dóri nýjum matarsiðum og danskri menningu. Svo vel að í þessari fyrstu utanferð tókst honum að selja virtu blaði, Berlingske Tidende, smásögur á dönsku. Blaði sem milljónir manna lásu. Það er ekki lítið afrek hjá íslenskum sveitadreng.

Í sumarbyrjun árið 1920 hélt Dóri aftur heim - en rúmlega ári síðar sigldi hann á nýjan leik og þá var ferðinni heitið til Þýskalands...

Næstu árin átti hann eftir að ferðast víða, einn um fjarlæg lönd, og hefur ábyggilega hugsað oft til pabba síns sem hann virti og elskaði svo mikið.

Á langri ævi ferðaðist Dóri um heimsálfurnar Evrópu, Asíu, Suður-Ameríku, Norður-Ameríku, Afríku - og skoðaði lönd eins og Rússland, Kína, Egyptaland og Indland, svo fáein séu nefnd. Hann bjó líka tímabundið í hinum ýmsu löndum og fór meira að segja í sex mánaða langa heimsreisu. Strax á barnsaldri var hann orðinn svo leitandi og forvitinn um löndin, bækurnar og mannlífið. Allt var spennandi og framandi.

Vafalaust lýsa orð Dóra hugarfari hans best: "Bótin er að ef manni þætti ekki alt skrýtið í heiminum, á hverri stundu sem lifir, þá væri maður víst búinn að vera. Skrýtnastur er maður sjálfur - og þó ekki leinguren maður heldur áfram að spyrja: hvað næst?"

Dóri skildi handritið eftir hjá prentsmiðjustjóranum síðvetrar árið 1919 og í byrjun sumars voru prófarkir að bókinni tilbúnar. Loks kom hún út um haustið en þá var hann í Danmörku og orðinn leiður á henni!

Þegar Dóri sneri heim aftur gekk hann hliðargötur í bænum og taldi sér trú um að fólk myndi hía á höfund svona bókar. Hann vildi bara gleyma henni en það lenti á mömmu hans að borga inn á skuldina fyrir prentunina á þessari bók sem hún hafði ekki einu sinni lesið. Dóri sagði síðar að gamla konan hefði sjálfsagt leyst út eina eða tvær kýr úr fjósinu í Laxnesi til að borga eitthvað upp í þetta.

Nokkrum mánuðum eftir að Guðjón dó skrifaði Dóri mömmu sinni bréf og sagði þetta um pabba sinn:

Ég hugsa svo fjarskalega oft um pabba heitinn, og mér finnst ég finna það nú best, þegar hann er fallinn frá, hvað hann var mikill og góður maður og hvað ég á honum mikið að þakka. Því altaf var það hann sem hvatti mig áfram og vakti altaf hjá mér fallegar og göfugar hugsanir.

Skrýtnastur er maður sjálfur - Hver var Halldór Laxness? eftir Auði Jónsdóttur. Það er Mál og menning sem gefur bókina út. Hún er 96 bls. að lengd.