Banni við bjór var aflétt í mars árið 1989 og tóku margir til óspilltra málanna. Hér er skálað á Gauk á Stöng.
Banni við bjór var aflétt í mars árið 1989 og tóku margir til óspilltra málanna. Hér er skálað á Gauk á Stöng.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BÓKARKAFLI Íslenskt þjóðfélag tók stakkaskiptum á 20. öldinni og var þróunin gríðarlega hröð alla öldina. Á níunda áratugnum var sem losnaði um ýmis boð og höft. Helgi Skúli Kjartansson segir frá því hvernig sérkennin hurfu eitt af öðru milli 1980 og 1990.

FRAM um 1980 hafði Ísland þrjú sérkenni sem haldið var á loft í samanburði við önnur lönd og gerð að tákni fyrir það hvernig Íslendingar færu sínar eigin leiðir: Enginn áfengur bjór; engir hundar í höfuðborginni; ekkert sjónvarp á fimmtudögum.

***

Hundar og kettir höfðu verið sjálfsögð heimilisdýr í sveitum, en hundinum fylgdi sá annmarki að hann var smitberi sullaveikinnar, sem bæði lagðist á sauðfé og mannfólk og var allt fram á 20. öld meðal skæðustu mannameina á Íslandi. Baráttan gegn sullaveikinni fólst m.a. í reglubundnum hundahreinsunum til að drepa sullaveikibandorma sem finnast kynnu í hundunum. Í þéttbýli gekk erfiðlega að ná heimilishundum til hreinsunar, og því áttu læknar í Reykjavík frumkvæði að því að lög voru sett 1924 sem heimiluðu kaupstöðum að banna hundahald. Heimildin var nýtt í Reykjavík og víðar. Lítið var um undanþágur - þær voru í fyrstu veittar fyrir hunda á sveitabýlum innan bæjarmarka, síðar fyrir blindrahunda, hasshunda, leitarhunda o.þ.h. - en misjafnt hve fast banninu var framfylgt.

Sullaveikin var, þegar frá leið, mjög á undanhaldi og ekki auðséð hætta á því að heimilishundar í bæjum yrðu smitberar hennar; til þess þyrftu þeir að komast í hráan sláturúrgang og éta sulli úr sýktum kindum. Hins vegar höfðu bæjarbúar, sérstaklega í Reykjavík, vanist banninu og voru margir hlynntir því. Íslenskar hefðir um hundahald og umgengni við hunda voru allar mótaðar í sveitum, og virtist mörgum að hundurinn nyti sín ekki nema við frjálsræði sveitalífsins. Hundahald í þéttbýli þekktu menn sem erlendan sið og ekki endilega til eftirbreytni. Dekur við kjölturakka var litið á sem hverja aðra ónáttúru allsnægtafólks, og vitnað var til ónæðis og sóðaskapar sem hundahald hefði í för með sér í erlendum borgum. Það væri kannski hægt að fá Norðmenn til að hreinsa upp eftir hundana sína, en væri ekki líklegra að óöguðum Íslendingum færi í því efni líkt og Dönum eða Bretum? Eða því gætu hundavinir ekki látið sér nægja ketti eins og venjulegt fólk?

Um 1980 var vaxandi tíska í Reykjavík að hafa heimilishund; var þá á hinn bóginn þrýst á yfirvöld að framfylgja betur banninu. Nokkrir hundaeigendur voru kærðir og sektaðir, og vakti athygli að þeirra á meðal var fjármálaráðherra landsins og til skamms tíma forseti borgarstjórnar í Reykjavík, Albert Guðmundsson. Hafði hann við orð að flytjast úr landi fyrr en hann léti frá sér tíkina sína gömlu sem enginn maður hefði haft ónæði af. Vorið 1984, meðan mál Alberts stóð sem hæst, sneri borgarstjórn við blaðinu og heimilaði hundahald, með allströngum skilyrðum þó, og fylgdu aðrir bæir fordæminu. Tilslökunin var umdeild, en þó sýnt að stuðningur við hið algera bann fór þverrandi. Það var að verða erfiður málstaður að Íslendingar ættu ekki að njóta frjálsræðis á þessu sviði nokkurn veginn til jafns við nágrannaþjóðir. Viðmiðana um eðlilegt hundalíf á Íslandi var ekki lengur leitað í sveitinni og fortíðinni, heldur í erlendum veruleika samtímans.

Íslensk hundamenning tók nú skjótum stakkaskiptum. Heimilishundum fjölgaði, mörgum þeirra af völdum kynjum; þeir voru sendir í hlýðniskóla, gátu gert garðinn frægan á opinberum hundasýningum, gistu kannski á hundahóteli þegar hinn mennski hluti fjölskyldunnar var að heiman. Jafnframt var rýmkað um innflutning hunda - hann hafði verið bannaður til þess að hundaæði bærist ekki til landsins en nokkuð hafði kveðið að hundasmygli - að vísu með ströngum skilyrðum um að einangra nýkomna hunda í sóttkví. Fjölskyldur, sem fluttust til landsins, gátu nú tekið með sér heimilishundinn, en bann við því hafði áður komið sumum hundaeigendum illilega á óvart, einkum útlendingum. Einnig varð heimilt að flytja inn kynbótahunda til undaneldis.

***

Sjónvarp á fimmtudögum hafði aldrei verið bannað. En meðan Ríkisútvarpið var eitt um hituna, og hafði hvort sem var ekki bolmagn til að halda úti mjög langri dagskrá, var því lokað vegna sumarleyfa allan júlímánuð og auk þess ákveðið að halda einu kvöldi vikunnar sjónvarpslausu, og þótti gott að þá mætti halda samkomur og fundi án þess að sjónvarpið freistaði fólks til að sitja heima. Þetta kom sér að mörgu leyti vel, og þótt einhverjum þætti dauflegt að vera án sjónvarpsins á fimmtudagskvöldum var þeim varla vandara um en blaðalesendum sem aldrei höfðu fengið blaðið sitt nema sex daga vikunnar.

Það var tilkoma Stöðvar 2 frá 1986 sem setti strik í þennan reikning. Hún keppti við sjónvarp Ríkisútvarpsins m.a. með lengri dagskrá, og notaði þá að sjálfsögðu fimmtudagskvöldin. Leið þá ekki á löngu uns keppinauturinn svaraði í sömu mynt, og sjónvarpslausa kvöldið var úr sögunni. Margir söknuðu þess að vísu, a.m.k. fyrst í stað. En hér giltu lögmál samkeppninnar: góðan útsendingartíma var ekki lengur hægt að láta ónotaðan nema það væri beinlínis bannað. Á sama hátt fór Stöð 2 að sjónvarpa barnaefni á helgarmorgnum. Af kirkjunnar hálfu var kvartað undan áhrifunum sem þetta hefði á aðsókn að barnasamkomum safnaðanna. Á einokunartíma Ríkisútvarpsins hefði það væntanlega verið viðkvæmt fyrir slíkri gagnrýni. En nú voru breyttir tímar, og RÚV fann sig til knúið að fylgja fordæmi keppinautarins.

***

Bjórbannið var það sem eftir lifði af gömlu bannlögunum. Þau höfðu aldrei verið afnumin til fulls heldur slakað á þeim smátt og smátt: létt vín leyfð þegar ekki var annað hægt vegna viðskiptanna við Spán; brennd vín leyfð þegar sýnt var að brugg og smygl gerði bann við þeim óviðráðanlegt. Þess háttar nauðsyn hafði ekki rekið til að afnema bjórbannið, og lengi vel virtust flestir taka því sem nokkuð sjálfsögðum hlut. Bjórdrykkja væri ein af þeim útlendu venjum sem horfa myndu til spillingar ef innleidd væri á Íslandi, enda sýndi erlend reynsla að menn hneigðust til að nota bjór hversdagslega og jafnvel við vinnu sína. Íslendingar höfðu þó flestir vanist því, hvað sem annars mátti segja um drykkjuvenjur þeirra, að halda áfengisneyslu á skýrt afmörkuðum bás tilverunnar. Jafnvel menn, sem höfðu vanist bjórdrykkju erlendis og þótti gaman að komast í bjór á ferðalögum, gátu vel fellt sig við að hann væri bannaður heima.

Hugmyndir um þjóðaratkvæði í bjórmálinu skutu þó upp kollinum, og um 1980 var það komið í röð hinna umdeildustu mála. Nokkuð var líka slakað til í framkvæmdinni. Það hafði verið gert áður gagnvart áhöfnum skipa og flugvéla, sem höfðu ákveðna heimild til að flytja með sér tollfrjálst áfengi og virtist þá ekki koma að sök þótt bjór væri tekinn í stað víns. Nú þótti ekki stætt á öðru en láta sama gilda um tollfrjálst áfengi farþega frá útlöndum, og hóf Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli að selja komufarþegum áfengt öl. Verslanir seldu efni og útbúnað til öl- og víngerðar í heimahúsum, og var ekki talið unnt að banna það þótt ljóst væri að kaupendur myndu jafnan hafa í hyggju að láta drykkinn gerjast umfram lögleyfðan áfengisstyrk. Þá fór framboð vaxandi á smygluðum bjór (við smygl í gámum skipti ekki öllu máli hvort góssið var meira eða minna fyrirferðar), og á vínveitingastöðum varð mikil tíska að selja bjórlíki, þ.e. löglegt léttöl blandað með sterku áfengi.

Þannig var Ísland níunda áratugarins alls ekki eins bjórlaust og lög gerðu ráð fyrir, en það dró síður en svo úr kröfunum um frekari breytingar. Deilur urðu harðar um væntanleg áhrif þess, til ills og góðs, að leyfa bjór til jafns við annað áfengi. Fylgjendur bjórsins báru þó einkum fyrir sig almennari sjónarmið: frelsi og jafnrétti. Ríkið ætti sem minnst að hafa vit fyrir þegnunum með boðum og bönnum, og fólk ætti að hafa sama rétt til bjórkaupa hvort sem það stæði í utanlandsferðum eða ekki. Þungvægust var þó kannski sú skoðun að mannlíf á Íslandi ætti ekki að vera háð öðrum og þrengri takmörkunum en í nágrannalöndunum, Íslendingar þyrftu ekki að vera frábrugðnir öðrum þjóðum umfram það sem leiddi af vilja og vali hvers og eins, og það væri úrelt hugmynd að ætla að varðveita á Íslandi annars konar og "saklausara" líf en í umheiminum.

Málstaður bjórsins átti greinilegustu fylgi að fagna á höfuðborgarsvæðingu, hjá yngra fólki og meðal þeirra sem töldust til hægri í pólitík. Þingmeirihluti snerist á þá sveifina, og í mars 1989 var farið að selja áfengt öl í vínbúðum landsins.

Reyndar var tilkoma bjórsins aðeins skýrasti og táknrænasti áfanginn í víðtækum breytingum á sviði áfengismála. Þar hafði flest verið í föstum skorðum frá því áfengisskömmtun stríðsáranna lauk, og var meginstefnan sú að halda aftur af misnotkun áfengis með því að halda því í háu verði og láta sem allra minnst á því bera. Dreifing var í höndum ríkiseinkasölu - ÁTVR (Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins) eftir að einkasölurnar tvær voru sameinaðar - sem hélt sölustarfsemi í lágmarki, hafði fáar útsölur og íburðarlausar, gætti ráðdeildar í tegundafjölda og forðaðist allt sem minnti á sölumennsku. Utan Reykjavíkur voru útsölur aðeins í stærstu bæjum og tillögum um að opna á nýjum stöðum iðulega hafnað í almennri atkvæðagreiðslu. Vínveitingaleyfi átti að binda sem mest við vandaða veitingastaði, en voru torfengin fyrir skemmtistaði og tilfallandi samkomuhald. Mikið var um skemmtanahald, m.a. svonefnd sveitaböll, þar sem vín var ekki til sölu en almennt notað í laumi eða utan dyra. Auk þess voru vínveitingar lengi óheimilar á miðvikudögum; var hugmyndin að þá gætu veitingahúsin miðað þjónustu sína við bindindisfólk, og varnarliðsmenn sótt skemmtistaði án þess að komast í kast við ölvaða Íslendinga. ÁTVR, "Ríkið", blandaði nokkrar ódýrar tegundir sterkra drykkja, en annars var áfengisframleiðsla bönnuð - nema bruggun bjórs, sem frá því í stríðinu var heimiluð til sölu "úr landi", svo sem til skipa og síðar í Fríhöfninni.

Á níunda og þó einkum tíunda áratugnum urðu hér miklar breytingar á: "Ríkið" fór að innrétta þokkalegar verslanir og koma til móts við kaupendur með tegundafjölda og jafnvel afgreiðslutíma. Rýmkað var um heimildir til að framleiða áfengi; sérstaklega gáfust innlendum brugghúsum ný tækifæri með tilkomu bjórsins, enda nutu þau í fyrstu tollverndar gagnvart erlendum keppinautum. Heildsöludreifing áfengis og framleiðsla var færð frá Ríkinu til einkafyrirtækja. Vínveitingaleyfum fjölgaði óðum, kaffihús og einfaldir veitingastaðir, sem blómguðust mjög á þessum árum, gátu nú haft áfengi á boðstólum, og ölstofur eða krár komust skyndilega í tísku - sú þróun hófst þegar í tíð bjórlíkisins.

Allt þetta gerðist án þess að opinskátt væri horfið frá þeirri áfengisstefnu að halda neyslunni í skefjum með háu verði og takmörkuðu aðgengi ásamt algeru auglýsingabanni. En framkvæmdin breyttist í takt við tíðaranda sem gerði erfitt að banna Íslendingum heima fyrir það sem þeir áttu að venjast erlendis. Einnig urðu menn viðkvæmari fyrir því hvað erlendum gestum myndi falla vel eða illa, og undir aldarlokin var því haldið fram að hátt verð á áfengi, sérstaklega bjór, spillti fyrir Íslandi sem ferðamannalandi. Jafnframt var farið að umbera bjórauglýsingar, lítt eða ekki dulbúnar. Á það reyndi eftirminnilega þegar Íslendingar héldu heimsmeistarakeppnina í handknattleik 1995 og í ljós kom, þegar mótið átti að hefjast, að helsti auglýsandi á leikvangi var erlendur bjórframleiðandi - sem var fyrst og fremst að kaupa sér aðgang að sjónvarpsútsendingum til annarra landa, en óneitanlega í litlu samræmi við íslensk áfengislög. Mikið var í húfi fyrir aðstandendur keppninnar, og létu yfirvöld sér nægja málamyndabreytingu á auglýsingunum.

***

Þessi nýmæli þrjú: hundahald í þéttbýli, einkarekstur útvarps og sjónvarps og áfengur bjór - þau eru dæmigerð fyrir ákveðin þáttaskil í lífi landsmanna. Þeir voru tilbúnari en áður að snúa við blaðinu og innleiða nýja hætti - jafnan að erlendum fyrirmyndum. Segja má að Íslendingar hafi öðlast aukið sjálfstraust til að ráða við sams konar tilveru og grannþjóðirnar, en hins vegar treyst sér verr en áður að skera sig úr og fara eigin leiðir.

Breytingar af þessu tagi voru margar og gerðust á mislöngum tíma. Allt fram á sjötta áratuginn voru Íslendingar ótrauðir að stinga í stúf við hætti umheimsins, bönnuðu t.d. hnefaleika með lögum 1956 til þess að láta ekki heilsuspillandi íþróttaiðkun festa rætur að erlendri fyrirmynd, og hélst það bann öldina út þótt umdeilt væri orðið. Frá sjöunda áratugnum lá straumurinn fremur í samræmingaráttina.

Svo var hundahald í Reykjavík leyft 1984, einkarekið útvarp hófst 1986, og bjórinn var seldur í Ríkinu frá 1989. Það er ekki tilviljun að allar þessar ákvarðanir voru teknar á fyrstu árum þess tímabils sem hér er látið hefjast við kosningar og stjórnarskipti á verðbólguárinu 1983. Þá voru umskiptin hvað skörpust í hugsunarhætti Íslendinga um sérstöðu sína og aðlögun að erlendum háttum.

Bókin Ísland á 20. öld er eftir Helga Skúla Kjartansson sagnfræðing. Hún kemur út hjá Sögufélaginu og er 584 síður.