[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
AÐFERÐIR fólks við makaleit eru margar og ólíkar.

AÐFERÐIR fólks við makaleit eru margar og ólíkar. Og þó að frumlegheit og sköpunargleði fái oft á tíðum notið sín í þeim efnum, er óhætt að halda því fram að þeir kostir sem fólk stendur frammi fyrir þegar makaleit er annars vegar séu ekki síst menningarbundnir.

Í Bandaríkjunum er stefnumótaleiðin alls ráðandi. Þar fylgir for-tilhugalíf mögulegra elskenda háþróuðu kerfi þar sem hinar óskrifuðu reglur eru svo niðurnjörvaðar að fólki frá öðrum menningarsvæðum reynist oft mjög erfitt að ná árangri innan þess. Danskur vinur minn, sem hefur verið við nám í Bandaríkjunum undanfarin ár, kvartar einmitt mikið yfir því hversu erfitt honum reynist að lenda á séns þar í landi. ,,Ég skil ekki þetta stefnumótakjaftæði," segir hann raunamæddur, ,,ég veit ekki hvaða táknrænu merkingu kaffibolli hefur, hvað þá að ég skilji hvenær þau tímamót hafa orðið að það sé við hæfi að stinga upp á vínglasi, hvað þá kvöldverði." Þessi vinur minn, sem nota bene nýtur mikillar kvenhylli í heimalandi sínu, virðist gjalda þess að hafa ekki alist upp við þær leikreglur sem gilda í hinum bandaríska darraðardansi kynjanna. Þá er auðvelt að ímynda sér að dæmigerður bandarískur stefnumótadrengur gæti átt erfitt uppdráttar á skandinavískum bar þar sem kurteislegt boð um að ,,drekka kannski saman kaffibolla einhverntímann í næstu viku", myndi sennilega drukkna í heldur beinskeyttari aðferðum innfæddra kynbræðra hans.

Ástæður þessa menningarbundna mismunar eru reyndar góðar, gildar og ekki síst praktískar. Í stóru samfélagi þarf að gefa sér góðan tíma til að kynnast nýrri manneskju og ekki er hægt að stytta sér leið nema að maður hafi ráð á einkaspæjara. Í litlu samfélagi eins og okkar er það hins vegar svo að þó að fólk þekkist ekki fyrir, þá þekkir það yfirleitt einhvern sameiginlegan og nær alltaf einhvern sem þekkir einhvern sem þekkir einhvern sem þekkir viðkomandi. Þannig reynist tiltölulega auðvelt að fá upplýsingar um fólk á mjög skömmum tíma sé þess þörf. Og í hinum íslenska darraðardansi kynjanna þjóta margbreytilegar, ítarlegar upplýsingar um fólk fram og til baka með ógnarhraða; vinkona stelpu sem vill upplýsingar um mann sem hún er spennt fyrir, hefur samband við kunningjakonu sína sem þekkir frænku fyrrum vinnufélaga viðkomandi sem svo hefur samband við stelpu sem var einu sinni með besta vini hans. Yfirleitt komast upplýsingarnar sæmilega óbrenglaðar til baka; hann er fínn strákur. Oftast eru tengslin ekki svona langsótt, en sjaldnast eru þau þó flóknari. Þannig er óhætt að segja að upplýsingar um fólk, sem maður kynni að hafa rómantískan áhuga á, eru tiltölulega auðsóttar - þær eru að minnsta kosti alltaf fáanlegar með einhverju móti. Þarna kemur líka til sögunnar gæðastimpill annarra sem hefur jú ákveðið gildi svona við fyrstu kynni þegar fólk getur presenterað sig á hvaða hátt sem það kýs.

Og enda þótt slíkur rómantískur gagnagrunnur með innbyggðu upplýsingakerfi (sem er til staðar í smærri samfélögum) myndist ekki með sama hætti í bandarískum stórborgum, þá hafa Bandaríkjamenn hannað tæknilega útfærslu á sama kerfi. Þar kemur til sögunnar glæný vefsíða sem heitir greatboyfriends.com (frábærir kærastar) og byggist á þeirri hugmynd að konur geti fengið skjótar og haldgóðar upplýsingar frá þriðja aðila um hugsanlegan tilvonandi kærasta. Frábærir kærastar bætist í hóp mörg hundruð rafrænna einkamáladálka sem lifa góðu lífi á Netinu, en sker sig úr sambærilegum vefsíðum að því leyti að þeim einhleypu körlum sem þar má finna fylgir gæðastimpill frá annarri konu. Já, karlarnir á frábærum kærustum eru kynntir til sögunnar af vinkonum sínum sem oftast eru sjálfar fyrrverandi kærustur (!) þeirra og er notendum síðunnar boðið að hafa fyrst samband við vinkonuna/fyrrverandi kærustuna og spyrja hana út í öll minnstu smáatriði sem varða vininn/fyrrverandi kærastann.

Bandarískar konur taka nýju vefsíðunni mjög vel, enda hefur einn helsti galli rafrænna einkamáladálka verið talinn sá að auðvelt sé að blekkja, svíkja og pretta. Slíkt á að vera úr sögunni með nýja kerfinu því þar er hægt að komast að öllu mögulegu áður en herra frábærum er svo mikið sem heilsað.

Stofnandi frábærra kærasta Jean Carroll, dálkahöfundur til tíu ára hjá tímaritinu Elle, var að eigin sögn orðin langþreytt á langalgengustu spurningu lesenda sinna; ,,hvernig finnur maður sér mann?" og ákvað að gera eitthvað til að hjálpa þeim. Pælingin er sú að konur séu líklegri til að finnast karlmaður aðlaðandi, finnist öðrum konum það - jafnvel þó að þær konur séu bláókunnugar.

Meðal þess sem felst í þeirri stöðluðu kynningu sem fyrrverandi kærastan fyllir út á vefsíðunni, eru upplýsingar um hæð og þyngd fyrrverandi kærastans, menntun hans og störf, fjárhagsstöðu, hversu stórt egó hann hefur, hversu veglegan trúlofunarhring hann væri vís með að kaupa og svo framvegis. Einnig lýsir hún mikilvægum þáttum í fari hans, svo sem sambandi hans við móður sína, hvernig konum hann fellur venjulega fyrir, hvað sé fullkominn dagur í hans huga og síðast en ekki síst færir hún rök fyrir því hvers vegna hann yrði alveg meiriháttar frábær kærasti.

Þá blasir kannski við sú spurning hvers vegna í ósköpunum hún hafi hætt með honum, en þegar munu hafa komið upp vandamál sem tengjast afbrýðisemi þegar hjónabandsmiðlunin gengur of vel, og fyrrverandi kærusturnar finna sig ekki lengur við stjórnvölinn. En þar strandar þessi sniðuga hugmynd kannski einna helst. Á þeirri staðreynd að vinátta karla og kvenna er flóknari en gatnakerfið í Kópavogi. Og þó að fólk sé ,,ennþá vinir" að loknu ástarsambandi þá þvælast leifarnar, eða ímyndaðar leifar, oft á tíðum fyrir þeim. Og fæstir vilja elda úr leifum þegar eitthvað verulega gott á að vera í matinn.

bab@mbl.is