Lucio Gutierrez, verðandi forseti Ekvadors, veifar af svölum forsetahallarinnar í Quito eftir að úrslit úr forsetakosningunum voru kunn. Gutierrez, sem nýtur stuðnings róttækra vinstriafla, er fyrrverandi hershöfðingi sem stýrði valdaráni á árinu 2000.
Lucio Gutierrez, verðandi forseti Ekvadors, veifar af svölum forsetahallarinnar í Quito eftir að úrslit úr forsetakosningunum voru kunn. Gutierrez, sem nýtur stuðnings róttækra vinstriafla, er fyrrverandi hershöfðingi sem stýrði valdaráni á árinu 2000.
Í hverju Suður-Ameríkulandinu á fætur öðru, skrifar Auðunn Arnórsson, hafa kjósendur komið pólitískum utangarðsmönnum til valda í þeirri von að þeir standi sig betur en trausti rúnar rótgrónar "elítur" í að bæta lífskjör almennings.

UM SUÐUR-Ameríku þvera og endilanga eru um þessar mundir að verða mikil umskipti. Í hverju landinu á fætur öðru eru kjósendur að hafna stjórnmálaflokkum og voldugum flokksleiðtogum sem lengi hafa haft tögl og hagldir við stjórn efnahags- og þjóðmála og kjósa í þeirra stað pólitíska utangarðsmenn.

Þetta er þróun sem á rætur sínar að rekja til þrár eftir breytingum frekar en fylgissveiflna við hina eða þessa hugmyndafræðina. Kjósendum virðist flestum standa á sama hvort frambjóðendurnir teljast til hægri eða vinstri, svo fremi sem þeir lofa góðu um að vera færir um að koma breytingum til leiðar sem bæta lífskjör almennings. Nýir leiðtogar álfunnar eru af öllum mögulegum "pólitískum lit", allt frá hörðum hægrimanni til róttæks fyrrverandi verkalýðsforkólfs og - eftir forsetakosningar í Ekvador um síðustu helgi - til fyrrverandi hershöfðingja sem fór eitt sinn fyrir stjórnarbyltingu hersins í landinu.

Þeir menn sem um þessar mundir eru að taka við stjórn álfunnar eru svo ólíkir að svo kann að virðast að hún stefni í margar ólíkar áttir samtímis; það virðist vera af sem áður var, þegar hægt var að greina tvískiptingu í stjórnarfari Suður-Ameríkulanda milli annað hvort hægrisinnaðra einræðisstjórna eða (vinstrisinnaðra) lýðskrumara. En það er eitt einkenni sameiginlegt öllum kosningaúrslitum þessa árs þar suður frá; það er þráin eftir leiðtogum sem eru færir um að koma til hjálpar þeim yfir 140 milljónum Suður-Ameríkubúum sem lifa í fátækt.

Gegn bandarískum forskriftum

Sumir hinna nýkjörnu þjóðarleiðtoga hafa líka tekið þann pól í hæðina að hafna þeirri óbeizluðu markaðshyggju og hnattvæðingarstefnu sem bandarísk stjórnvöld hafa haldið stíft að grannþjóðunum í suðri á síðustu árum án þess að hún hafi skilað hinum fátæku neinum áþreifanlegum framförum. Hún hefur aftur á móti hert marga í þeirri afstöðu að sú stefna geri aðeins hina ríku ríkari. Þessi stemmning meðal kjósenda hefur þannig komið mönnum eins og Luiz Inacio Lula da Silva til valda í Brasilíu, en hann á að baki áratuga feril utan við meginstraum stjórnmálanna sem róttækur verkalýðsforystumaður. Og um síðustu helgi kusu Ekvadorbúar Lucio Gutierrez, fyrrverandi hershöfðingja, til forseta, en hann naut stuðnings marxísks stjórnmálaflokks, verkalýðsfélaga á vinstri kantinum og róttækra indíána. Kosningasigur hans hefur vakið nýjar vonir hjá þeim 60% landsmanna sem lifa í fátækt. Hann er sjötti forsetinn í Ekvador á jafnmörgum árum.

Á sama tíma hafa menn eins og Alvaro Uribe hlotið góða kosningu í Kólumbíu, en hann er harðlínuhægrimaður sem hét því í sinni kosningabaráttu að uppræta vinstrisinnaða skæruliða og spillingu, og Vicente Fox í Mexíkó, en hann er hófsamur hægrimaður sem tókst að rjúfa áratuga einokunartök Byltingarflokksins, IRP, á stjórnartaumum landsins.

Í Bólivíu var auðjöfurinn Gonzalo Sanchez de Lozada kjörinn forseti 6. ágúst síðastliðinn, og strax að loknum kosningunum hét hann nýjum umfangsmiklum atvinnusköpunarverkefnum á vegum ríkisins með það að markmiði að forða þessu fátækasta landi Rómönsku Ameríku frá að festast í vítahring efnahagskreppu. "Við ætlum að lýsa yfir vopnahléi og nýjum þjóðfélagssáttmála til að koma Bólivíu út úr þessari hræðilegu efnahagskreppu, sem gæti versnað enn og endað í algeru hruni," hefur Associated Press eftir nýja forsetanum, og vísaði hann með þessum orðum sínum augljóslega til efnahagshrunsins sem varð í Argentínu í fyrra.

Fátækt í forgrunni

Meira en nokkuð annað er það hin viðvarandi fátækt fólks í þessum löndum sem skýrir ris óvenjulegra pólitískra utangarðsmanna til valda. Samkvæmt mati Sameinuðu þjóðanna lifa full 41% hinna 345 milljóna Suður-Ameríkubúa undir fátæktarmörkum og í sumum löndum álfunnar er hlutfall fátækra farið að vaxa, einkum í Argentínu, sem rambar á barmi gjaldþrots.

"Það sem við sjáum eru afleiðingar skipbrots allra [efnahagsstjórnunar-]líkana sem reynd hafa verið fram að þessu. Engu þeirra - hvort sem þau flokkast sem vinstri eða hægri, popúlísk eða í anda nýfrjálshyggju - hefur tekizt að skila tilætluðum árangri," hefur The Los Angeles Times eftir Anibal Romero, stjórnmálaskýranda í Caracas í Venesúela. "Fólk í Rómönsku Ameríku er að leita eftir einhverju til að binda framtíðarvonir sínar við; það vill frelsi, velmegun, betra líf. Geti vinstrimenn fengið því áorkað, gott og vel. Geti hægrimenn það, er það alveg eins gott," segir hann. Fyrri tilraunir í löndum álfunnar til að brúa bilið milli ríkra og fátækra með róttækum aðferðum hafa allar endað illa. Hin marxíska stjórn Salvadors Allende forseta í Chíle endaði í blóðugu valdaráni hersins 1973. Alan Garcia, vinstrisinnaður forseti Perú, stóð fyrir því að hætt var að greiða af erlendum lánum er hann komst til valda árið 1985, en efnahagur landsins var rjúkandi rúst er kjörtímabili hans lauk fimm árum síðar.

Hugmyndafræði aukaatriði

Enginn hinna nýju valdhafa virðist þó mjög hallur undir hugmyndafræði. Vinstrisinnaðasti þjóðarleiðtogi álfunnar, Hugo Chavez sem komst til valda í Venesúela árið 1998, hefur passað sig á að viðhalda nánum efnahagstengslum við Bandaríkin, stærsta útflutningsmarkað landsins. Og Lula hefur heitið því að Brasilía muni undir sinni stjórn standa við gerða afborgunarsamninga á erlendum lánum, sem gerðir voru af fyrri stjórn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Alþjóðabankinn tilkynnti í síðustu viku að hann væri reiðubúinn að lána Brasilíu allt að 10 milljarða Bandaríkjadala til að styðja við baráttu Lula gegn hungri og fátækt í þessu fjölmennasta landi Rómönsku Ameríku. Slíkt fyrirgreiðslutilboð hefði aldrei borizt, hefði Lula lýst því yfir að hann ætlaði sér að hrinda í framkvæmd þeim róttæku sósíalísku hugmyndum sem hann aðhylltist áður fyrr.

Í Venesúela hafa sósíalísk áherzluatriði í stjórnarstefnu Chavez, svo sem um aukin umsvif ríkisins í olíuiðnaðinum á kostnað einkavæðingar, aðeins orðið til að dýpka stéttaklofning í landinu. Þar ríkir nú gríðarleg spenna milli stuðningsmanna og andstæðinga forsetans. Þau 80% landsmanna sem lifa í fátækt hafa enn ekki séð neitt meira af olíuauðnum koma í sinn hlut en fyrir valdatöku Chavez. Óánægjan með Chavez hefur leitt til þess að nú hefur verið boðað til fjórða allsherjarverkfallsins í landinu á einu ári.

Æðsta kosningaráð Venesúela samþykkti í vikunni að fara skyldi fram þjóðaratkvæðagreiðsla 2. febrúar nk. um það hvort Chavez forseti ætti að segja af sér, en hæstiréttur landsins ómerkti síðan þá ákvörðun. Yfir tvær milljónir Venesúelamanna höfðu undirritað áskorun stjórnarandstæðinga um að efnt yrði til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnarandstaðan hefur boðað allsherjarverkfall nú á mánudag til að leggja áherslu á afsagnarkröfuna.

Efasemdir

Efasemdir um að þessi nýjasta leiðtogakynslóð Suður-Ameríku muni í raun skila hinum fátæku betri tíð eru reyndar útbreiddar meðal kjósenda þar, enda hafa þeir heyrt loforð um slíkt áður.

Þannig hefur AP eftir Mariu Alban, götusala í Quito, höfuðborg Ekvadors, að hún hafi kosið Gutierrez vegna þess að hún trúi því að hann muni hjálpa hinum nauðstöddu.

"Ég bara vona að hann sé ekki eins og hinir stjórnmálamennirnir, sem heita öllu fögru en standa ekki við nein loforð," segir hún.

auar@mbl.is