Í þessum barnaskóla í Lusaka mæta nemendur í skólann og sinna lærdómnum án þess að kennari sé hjá þeim.
Í þessum barnaskóla í Lusaka mæta nemendur í skólann og sinna lærdómnum án þess að kennari sé hjá þeim.
NÆSTUM hver einasti nemandi í sólbakaðri skólastofunni í Kaplunga-stúlknaframhaldsskólanum réttir upp hönd þegar bekkurinn er spurður hverjir hafi misst kennara vegna alnæmis. Ein stúlkan missti trúfræðikennarann sinn.

NÆSTUM hver einasti nemandi í sólbakaðri skólastofunni í Kaplunga-stúlknaframhaldsskólanum réttir upp hönd þegar bekkurinn er spurður hverjir hafi misst kennara vegna alnæmis. Ein stúlkan missti trúfræðikennarann sinn. Önnur nefnir landafræðikennara sem var mjög almennilegur. Aðrir sakna lífsleiknikennarans sem dó rétt áður en prófin byrjuðu.

Útbreiðsla alnæmis í Afríku hefur haft hörmulegar afleiðingar á öllum sviðum samfélagsins. Það rústar efnahagslífið, gerir milljónir barna að munaðarleysingjum og varpar skugga á framtíð álfunnar með því að leggja kennara hennar að velli. Yfir ein milljón barna í Afríku missti kennara af völdum alnæmis í fyrra, samkvæmt upplýsingum UNAIDS, þeirrar stofununar Sameinuðu þjóðanna sem komið var á laggirnar til að berjast gegn útbreiðslu sjúkdómsins.

Sumum skólum í afskekktum byggðum, þar sem aðeins var einn kennari, hefur orðið að loka. Í öðrum hefur fjölgað gífurlega í bekkjum og óundirbúnir íhlaupakennarar gera sitt besta til að sjá til þess að tryggja að nemendurnir fái einhverja menntun.

Í löndum eins og Zambíu, þar sem talið er að fimmti hver fullorðinn sé sýktur af HIV, veirunni sem veldur alnæmi, fellir sjúkdómurinn kennarana svo hratt, að yfirvöld segjast ekki hafa við að fylla í skörðin.

Kenneth Ofusu-Barko, ráðgjafi UNAIDS í Zambíu, segir að brotthvarfs kennaranna verði vart víðar en í skólastofunum. Kennarar "eru oft leiðtogar í samfélögunum og þess vegna er skarð fyrir skildi þegar þeir hverfa á braut...það kemur brestur í samfélögin og þá finnur fólk fyrir vonleysi", sagði Ofusu-Barko.

Í höfuðborginni, Lusaka, stofnaði tónfræðikennarinn Remmy Mukonka samtök kennara gegn alnæmi eftir að hann hafði mátt horfa upp á marga samstarfsmenn sína deyja úr sjúkdómnum. Mukonka er 31 árs. Ásamt félögum sínum veitir hann upplýsingar um ráðgjöf, rannsóknir og alnæmislyf sem kennarar eiga kost á. En mestum kröftum verja þeir þó í að berjast gegn þeirri skömm sem fylgir alnæminu og gerir erfitt um vik að tala um sjúkdóminn, hvað þá berjast gegn honum.

Kennaralaun eru lág og kennarar hafa engar sjúkratryggingar. Þeir sjá því sína sæng upp reidda. Ef þeir láta af störfum af heilsufarsástæðum fá þeir ekki eftirlaunagreiðslur fyrr en að fjórum árum liðnum, og þá er eins líklegt að þeir séu látnir, segja þeir.

Lusaka. AP.