[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það þekkja hann allir sem Ning enda eru ekki margir einstaklingar hér á landi sem geta státað af því að veitingastaðir heita í höfuðið á þeim. Þegar hann flutti til Íslands frá Filipseyjum árið 1974 voru einungis fimm Asíubúar búsettir á Íslandi.

Það þekkja hann allir sem Ning enda eru ekki margir einstaklingar hér á landi sem geta státað af því að veitingastaðir heita í höfuðið á þeim. Þegar hann flutti til Íslands frá Filipseyjum árið 1974 voru einungis fimm Asíubúar búsettir á Íslandi. Nú telur asíska samfélagið þúsundir einstaklinga frá Filippseyjum, Taílandi, Víetnam, Japan, Kína og fleiri ríkjum. "Þetta var mjög sérstakt. Það kom fyrir þegar ég gekk niður Laugaveginn að fólk vildi fá að koma við hárið á mér, það hafði aldrei séð svona svart hár áður," segir Ning. Þekking á asískri matargerð var í samræmi við þetta og segir Ning að þegar hann hafi spurt íslenska vini sína hvort þeir hefðu einhvern tímann bragðað asískan mat hefðu þeir jánkað því og sagt að þeir hefðu smakkað karrí. Það er hins vegar greinilegt á brosi Nings að hann telur hina íslensku karríútgáfu ekki eiga margt sameiginlegt með asískum karríréttum. Árið 1979 hóf hann innflutning á asískum kryddum og fleiri matvælum og var varningurinn seldur í Manila á Suðurlandsbraut. "Þetta var hins vegar ekki rétti tíminn. Íslendingar voru varla byrjaðir að kaupa sojasósu," segir Ning. Árið 1984 stofnaði hann veitingastaðinn Mandarín á Nýbýlavegi sem síðar fluttist á Tryggvagötu og árið 1991 var veitingastaðurinn Nings stofnaður.

Það hefur mikið breyst frá því að Ning flutti hingað til lands. Nings, sem er í eigu Bjarna Óskarssonar, er nú orðið að asísku stórveldi á veitingamarkaðnum og fyrir nokkrum árum var Sælkerabúðin opnuð við hlið veitingastaðarins á Suðurlandsbraut, raunar í sama húsnæði og Ning hóf rekstur Manila í á sínum tíma.

Þegar gengið er inn í búðina er maður kominn til Asíu, þarna má fá allt milli himins og jarðar sem tengist asískri matargerð, ekki síst ferskt og framandi grænmeti og ávexti sem kemur með flugi á hverjum þriðjudegi en einnig frosin fisk og annað góðmeti. Ning er verslunarstjóri búðarinnar og segir viðskiptavinina fyrst og fremst vera Asíubúa þótt Íslendingar séu einnig sífellt að verða duglegri að reyna fyrir sér í asískri matargerð. "Þetta er mikill kostur fyrir fólkið frá Asíu að geta nálgast þessa vöru. Nú getur það eldað sinn mat og fær síður heimþrá," segir Ning.

Hann gaf sælkerum nokkrar uppskriftir að réttum þar sem hið asíska hráefni er nýtt til hins ýtrasta.