GEIR H. Haarde fjármálaráðherra segir að hækkun áfengis- og tóbaksgjalds sé eðlileg tekjuöflun við núverandi aðstæður í ríkisfjármálum. Afla þurfi tekna til að standa undir nýjum útgjöldum. Ríkisstjórnin beri ábyrgð á þessari ákvörðun.

GEIR H. Haarde fjármálaráðherra segir að hækkun áfengis- og tóbaksgjalds sé eðlileg tekjuöflun við núverandi aðstæður í ríkisfjármálum. Afla þurfi tekna til að standa undir nýjum útgjöldum. Ríkisstjórnin beri ábyrgð á þessari ákvörðun. Verkalýðsforystan geti ekki gert kröfu til þess að fá að vera allaf með í ráðum.

Hann bendir á að tóbaksgjald hafi ekki breyst í mörg ár, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur og óskir þar að lútandi frá ýmsum aðilum í heilbrigðisgeiranum. Áfengisgjald á sterkum vínum hækki en sé óbreytt af léttvíni og bjór. Gjaldið af bjórnum hafi verið óbreytt frá 1995 og hafi lækkað af léttvíni með breytingum sem Geir segist hafa beitt sér fyrir árið 1998.

"Það er ekki með nokkrum hætti hægt að finna að hækkun sem þessari. Ef eitthvað er ætti hún að styrkja veitingastaðina sem selja léttvín og bjór. Gagnrýni þeirra er því mjög furðuleg," segir Geir.

Um áhrif hækkana á vísitöluna bendir ráðherra á að þau séu innan við 0,3% en muni fjara út í þróun verðbólgunnar í heild. "Vísitala neysluverðs mun á árinu 2002 hækka um á bilinu 1,7 til 1,9%, miðað við spár helstu sérfræðinga. Þess vegna hefur þessi breyting lítil sem engin áhrif og við erum vel innan við okkar verðbólgumarkmið. Fólk sem heldur því fram að ekki megi hækka þessa hluti, verður aðeins að athuga sinn gang. Hvar vilja menn afla teknanna?"