[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tveir margmiðlunardiskar um matargerð eru nýkomnir út og eru þetta fyrstu diskarnir af þessu tagi, sem sjá dagsins ljós á Íslandi. Báðir eiga það sameiginlegt að þeir gefa einfaldar og skýrar ráðleggingar sem auðvelt er að fara eftir.

Tveir margmiðlunardiskar um matargerð eru nýkomnir út og eru þetta fyrstu diskarnir af þessu tagi, sem sjá dagsins ljós á Íslandi. Báðir eiga það sameiginlegt að þeir gefa einfaldar og skýrar ráðleggingar sem auðvelt er að fara eftir.

Annars vegar er um að ræða diskinn Leikur að elda og hins vegar Matreiðslukennarinn.

Á diskinum Leikur að elda gefur matreiðslumaðurinn Benedikt Jónsson góð ráð um ýmislegt sem viðkemur íslensk-danskri viðhafnarmatargerð.

Leikur að elda

Það kannast allir Íslendingar við hamborgarhrygg, pörusteik, brúnaðar kartöflur og koníaksbætta humarsúpu. Hins vegar getur það vafist fyrir mörgum að töfra fram þessa rétti, ekki síst ungu fólki sem er vant því að mamma og amma eldi steikina.

Með því að fylgja leiðbeiningunum á Leikur að elda má segja að það verði leikur einn að framreiða pörusteik og annað góðgæti. Leiðbeiningarnar eru einfaldar og skýrar og ýmis góð ráð gefin varðandi ýmsa hluti, t.d. hvernig eigi að gera sósu eða pilla humar. Allar uppskriftir og aðferðir fylgja einnig með á sérstökum handhægum spjöldum.

Benedikt Jónsson segir að hugmyndin hafi kviknað fyrir um tveimur árum hjá honum og Agli Vignissyni kunningja hans, sem er framkvæmdastjóri Beisik, er gefur diskinn út. "Við vorum oft með matarboð saman og hann var oft að spyrja mig út í hluti sem okkur kokkum þykja sjálfsagðir. Hvernig er best að skera lauk? Hvaða vín notarðu í sósuna o.s.frv. Honum datt í hug að gera annað hvort sjónvarpsþátt eða margmiðlunardisk og við hófumst handa við að gera diskinn fyrir ári. Það er töluverð vinna við myndskeiðin og líka hönnun og að láta allt kerfið vinna 100% í öllum vélum."

Diskurinn er seldur í Hagkaup og Bónus og að auki fáanlegur á Netinu á hagkaup.is. Hann kostar einungis 999 kr. og segir Benedikt að það sé ekki síst vegna þess að þeir séu í samkeppni við Netið.

Matreiðslukennarinn

Ragnar Ómarsson yfirkokkur á Hótel Holti er matreiðslukennarinn á samnefndum diski, sem gefinn er út af Fjarkennslu, þar sem hann gefur góð ráð um hvernig megi geri marga góða rétti á einfaldan hátt.

Ragnar fer um víðan völl enda markmið hans að breikka hugmyndaflug fólks og fá það til að þora að prófa nýja hluti í eldhúsinu. Meðal uppskrifta sem hann leiðbeinir við að gera eru steiktur skötuselur, laxatartar, lambahryggvöðvi og Creme Brulée. Alls eru rúmlega þrjátíu uppskriftir á diskinum.

Hann hyggur sömuleiðis á frekari útgáfu af þessu tagi.