HÆSTIRÉTTUR féllst í gær á kröfu bandaríska fyrirtækisins United Parcels Service að auglýsingaþjónustunni Úps! ehf. yrði óheimilt að nota í atvinnustarfsemi lénið ups.is og netfangið ups@ups.is.

HÆSTIRÉTTUR féllst í gær á kröfu bandaríska fyrirtækisins United Parcels Service að auglýsingaþjónustunni Úps! ehf. yrði óheimilt að nota í atvinnustarfsemi lénið ups.is og netfangið ups@ups.is. Er fyrirtækinu gert að láta afskrá framangreint lén og netfang hjá Interneti á Íslandi innan 15 daga að viðlögðum dagsektum. Héraðsdómur hafði áður sýknað Úps! af kröfunni.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að United Parcels Service, sem rekur hraðsendingarþjónustu víða um heim, hafi mörg skráð vörumerki hér á landi þar sem skammstöfunin UPS kemur fyrir. Í bréfi Einkaleyfastofunnar til lögmanns UPS kemur fram, að samkvæmt þessari skráningu njóti orðmerki áfrýjanda, UPS, verndar fyrir allar vörur og þjónustu í nokkrum vöruflokkum, þar á meðal auglýsingastarfsemi, allt þar til að endurnýjun kemur árið 2007. Úps! hefur rekið auglýsingaþjónustu og skiltagerð undir firmanafninu Úps! ehf. frá árinu 1997. Fyrir héraðsdómi benti lögmaður Úps! m.a. á að vörumerkið ups væri ekki notað í starfsemi fyrirtækisins svo nokkru næmi auk þess sem fyrirtækið stundaði allt önnur viðskipti en UPS. Á þetta féllst Hæstiréttur ekki og verður Úps! því að finna sér annað lén og netfang.

Hæstarréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein kváðu upp dóminn. Magnús H. Magnússon hrl. sótti málið f.h. UPS en Erla S. Árnadóttir hrl. var til varnar fyrir Úps!