[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúmlega 2.000 farseðlar á 19.900 krónur Hvað eru mörg sæti í boði í hverri vél Flugleiða til Kaupmannahafnar og Lundúna á 19.900 krónur og er uppselt á þessum kjörum fram yfir áramót?

Rúmlega 2.000 farseðlar á 19.900 krónur

Hvað eru mörg sæti í boði í hverri vél Flugleiða til Kaupmannahafnar og Lundúna á 19.900 krónur og er uppselt á þessum kjörum fram yfir áramót?

"Yfir tvö þúsund farþegar hafa nýtt sér lægsta Netsmellinn, sem er á 19.800 krónur, til Kaupmannahafnar og London núna fyrir jól," segir Áslaug Thelma Einarsdóttir hjá upplýsingadeild Flugleiða. "Þar sem þessi fargjöld þarf að panta með þriggja vikna fyrirvara er búið að selja þau sæti sem voru til fyrir jólin. Það eru ennþá til sæti á næstlægsta Netsmellinum til allra áfangastaða félagsins en það er til dæmis hægt að panta far til Amsterdam, Glasgow, Kaupmannahafnar og London á góðu verði eða rúmlega 28 þúsund krónur og til Boston á rúmlega 51 þúsund krónur. Netsmellir eru ekki tímabundið tilboð heldur ný fargjöld sem komin eru til að vera. Þessi verðlækkun er hluti af umfangsmiklum breytingum á fargjöldum félagsins sem kynnt voru fyrir skömmu. Fargjöld eru einfölduð, þeim fækkar og ýmsir skilmálar eru felldir niður. Netfargjöldin fást aðeins á Netinu og verður framboðið á þeim takmarkað og þau eru lægri eftir því sem bókað er með lengri fyrirvara.

Lægstu fargjöldin bjóðast ef bókað er með meira en 21 dags fyrirvara."

Áfram flogið til Frankfurt

Munu Flugleiðir ekki halda áfram beinu flugi til Berlínar næsta sumar?

Áslaug Thelma Einarsdóttir hjá upplýsingadeild Flugleiða segir að reglulegu áætlunarflugi verði haldið áfram til Frankfurt allan ársins hring en segir jafnframt að ekki sé áætlað að fljúga til Berlínar á næsta ári, eftirspurnin hafi einfaldlega ekki verið næg.

Vikulegt flug til Verona

Hvernig verður flugi til Ítalíu háttað hjá Heimsferðum næsta sumar?

Andri Már Ingólfsson forstjóri Heimsferða segir að bæði verði flogið vikulega til Verona og Rimini og verða fyrstu ferðirnar farnar í maí.
*Lesendur sem vilja koma fyrirspurnum um ferðamál áleiðis geta sent tölvupóst á netfangið gudbjorg@mbl.is.