Margir af nafntoguðustu tónlistarmönnum Íslands hafa komið við 16 ára sögu Smekkleysu s/m h/f.
Margir af nafntoguðustu tónlistarmönnum Íslands hafa komið við 16 ára sögu Smekkleysu s/m h/f.
SMEKKLEYSA s/m h/f á sextán ára afmæli á þessu ári og gefur út tvöfaldan safndisk til að minnast þeirra tímamóta.

SMEKKLEYSA s/m h/f á sextán ára afmæli á þessu ári og gefur út tvöfaldan safndisk til að minnast þeirra tímamóta. Á öðrum diskinum er þannig að finna gömul lög með meðal annars Sykurmolunum, Ham, Curver, Bubbleflies, Bootlegs, Risaeðlunni, Sogblettum, Bless, Unun og Ólympíu, og á hinum nýja tónlist með meðal annars Maus, Mínus, Einari Erni, Ske, Björk, Desidia, Atingere, Sigtryggi Baldurssyni, Agli Sæbjörnssyni, Stilluppsteypu, Sigur Rós og Dr. Gunna. Umsjón með útgáfunni hafði Þór Eldon, fyrrverandi meðlimur Sykurmolanna og Ununar.

Þörf fyrir safnplötur

Þór Eldon segir að það hafi ekki verið ýkja erfitt að velja á diskana tvo. "Á diskinn með gamla efninu má segja að sjálfvalið hafi verið með flestum þeim sem störfuðu í og með Smekkleysu í byrjun, en annars reyndum við að tína til blandað efni en gæta þó að því að það væri í rokkdeildinni, geymdum klassíkina alveg. Það er erfiðara að velja á nýja diskinn. Við höfðum að leiðarljósi að velja nútímalega rokktónlist og létum þau boð útganga að við værum að leita að lögum. Það barst mjög mikið af efni á ýmsum stigum hvað vinnsluna varðaði. Mestu skipti auðvitað að við kynnum að meta það sem boðið var upp á en þeir gengu svo fyrir sem voru búnir að klára sitt efni, ekki síst til að halda kostnaði niðri. Aðalforgang höfðu þó þær hljómsveitir sem eru að gefa út undir merkjum Smekkleysu núna. Mestar skorður setti okkur að ekki kemst nema ákveðið mikið af tónlist fyrir á einum diski og þannig lentum við í því á lokasprettinum að þurfa að sleppa lögum vegna þess að þau voru of löng, komust ekki fyrir á diskinum," segir Þór og bætir við að reynslan af útgáfunni bendi eindregið til þess að mikil þörf sé fyrir að gefa út safndiska mun örar en gert er. "Það er til mýgrútur af fólki sem er að semja alls konar tónlist og taka upp. Þannig væri hægt að fylla einn disk með rappi, annan með "instrumental" tónlist, enn annan með nýaldargítarpoppi og svo má telja. Það er af nógu að taka. Safnplötur eru fínn vettvangur fyrir hljómsveitir sem eru að kynna sig, það er svolítið mikið og "heví" dæmi að gefa út langan geisladisk sem algjörlega óþekkt band."

Endurútgáfu þörf

Þór segir að ýmsar hljómsveitir hafi leitað eftir því að fá að vera með þótt þær væru ekki á mála hjá Smekkleysu og nokkrar sem eru samningsbundnar öðrum útgáfum. "Það virtist enginn setja það fyrir sig að Smekkleysa væri að gefa diskinn út," segir Þór og kímir.

"Það má vitanlega gagnrýna þennan disk eins og önnur verk en aðalhugsun mín á bak við útgáfuna var að ef á diskinum með gömlu lögunum væru fjögur eða fimm sem fólki þætti skemmtileg og vildi eiga og þrjú af nýju lögunum finnst mér útgáfan réttlætanleg. Það er aldrei hægt að gera öllum til hæfis."

Þór segir að þegar hann tók að fara yfir það sem Smekkleysa hefur gefið út á árunum sextán hafi það fyrst og fremst komið sér á óvart hvað það var mikið að vöxtum. "Í framhaldi af þessu finnst mér þurfa að endurútgefa meira og minna allt þetta efni sem margt er ekki til nema á vínyl, sumt sem gefið var út á smá- og stuttskífum sem eru ekki til í dag. Ég sé það fyrir mér að eftir tvö til þrjú ár förum við að gefa út þessa gömlu tónlist í mörgum bindum og gæfum þá betri mynd af starfsemi Smekkleysu en hægt er með þessari útgáfu."

Sumt enn of ungt

Að sögn Þórs er allur gangur á því hversu vel tónlistin hefur elst og sumt sé að auki enn of ungt til að menn átti sig á því, það þyki kannski hallærislegt í dag en reynslan hafi sýnt mönnum að það geti breyst óforvarandis.

Smekkleysa hélt skemmtikvöld á Airwaves og Þór segir að upphaflega hafi staðið til að diskurinn yrði kominn þá, en fyrir ýmsar sakir hafi það ekki gengið upp. "Safnplata eins og þessi á skilið eigið kvöld og ætli við reynum ekki að koma einhverju slíku á í byrjun desember."

Tvöfalda safnplatan Alltaf sama svínið er komin í verslanir.