Kærkomnum gesti er tekið með virktum í flestum ef ekki öllum samfélögum. Aðventan er tími sem kristnir menn eiga að nota til þess að undirbúa líf sitt og heimili fyrir komu Jesú Krists. Um það ritar Sigurður Ægisson í dag, í upphafi nýs kirkjuárs.

Hvarmar votir, hjörtu brostin, heitt við þörfnumst raustar Guðs. Þér var lofað, þín var beðið, þráða, helga barn; þráða, helga barn. Afsakaðu auma jötu, enginn vissi þessa stund. En langt að komni ljúfi gestur líði þér samt vel; já, líði þér samt vel. Gefðu frið þinn grátnum heimi, gleð og metta hverja sál. Vinur góði, vor frá himnum, velkominn á jörð; velkominn á jörð. Lítill fingur, lækning mannkyns, líf sem verður þyrnum kysst, fögur lind og frelsisboði fæddur veröld er; fæddur veröld er. Æ, komdu inn í kjörin bágu, kaunin græddu' og meinin öll. Veittu svo að verkin okkar verði' af ljósi gjörð. Velkominn á jörð.

FÆÐINGARHÁTÍÐ meistara okkar nálgast, aðventan er byrjuð. Um þessa helgi fara margir að undirbúa komu jólanna, baka, skreyta og huga að gjöfum og reyna jafnframt að njóta þessara daga við kertaljós og ljúfa tóna, ef færi gefast.

Það kemur svo hljóðlega, kirkjuárið, ekki með látum eins og hið borgaralega, almanaksárið. En samt, og kannski beinlínis vegna þessa, eru hinir fyrstu dagar þess góður tími kyrrlátrar íhugunar. Hvað er búið? Hvert stefnir? Er líf framundan, eða dauði? Gleði eða sorg?

Enginn veit, nema Guð.

En mitt í allri óvissunni stendur eitt þó óhagganlegt: Drottinn kemur, Jesús Kristur. Því aðventa merkir jú tilkoma. Við hugsum um atburði jólanna fyrstu, þegar hann við englasöng fæddist í gripahúsi. Og þrátt fyrir skömmina vegna hinna óvistlegu salarkynna, tekur hjarta okkar kipp af gleði. Annað er ómögulegt, því okkur var þar svo mikið gefið.

Og áfram reikar hugurinn. Við sjáum barnið vaxa og dafna, og allt í einu er það orðið fullvaxta maður, læknandi og fyrirgefandi öllum þeim, sem til hans leita í neyð. Og svo kemur pálmasunnudagur, skírdagur, föstudagurinn langi, páskadagur. Og hvítasunna.

En í upphafi aðventu er okkur boðað fyrst og síðast, að konungur alheimsins sé á leiðinni. Hann stýrir í andans ríki og með þess kyns vopnum lagði hann það undir sig. Fyrir mannkynið. Þegar hann kom inn í þessa veröld okkar og dreifði hér sáðkornum fagnaðarerindisins, ruddi hann því braut, og með dauða sínum á krossinum lagði hann grunninn að því sem nú er. Og enn býður hann það sama og áður fyrr, vill nema land í köldu brjósti og gjörast eitt með hinum snauða um tíma og um eilífð.

Í dag er hugsun okkar tengd við drenginn litla, sem fæddist í Betlehem og kemur til okkar ár hvert þaðan í minningunni. Og sjaldan, ef þá nokkurn tíma, hefur þörfin fyrir nærveru hans og áhrif verið meiri en einmitt nú, í byrjun 21. aldar, með skelfingu og ógn á nánast hverju strái.

Tilkomi hans ríki.

Hvarmar votir,

hjörtu brostin,

heitt við þörfnumst raustar Guðs.

Þér var lofað,

þín var beðið,

þráða, helga barn;

þráða, helga barn.

Afsakaðu

auma jötu,

enginn vissi þessa stund.

En langt að komni

ljúfi gestur

líði þér samt vel;

já, líði þér samt vel.

Gefðu frið þinn

grátnum heimi,

gleð og metta hverja sál.

Vinur góði,

vor frá himnum,

velkominn á jörð;

velkominn á jörð.

Lítill fingur,

lækning mannkyns,

líf sem verður þyrnum kysst,

fögur lind

og frelsisboði

fæddur veröld er;

fæddur veröld er.

Æ, komdu inn í

kjörin bágu,

kaunin græddu' og meinin öll.

Veittu svo

að verkin okkar

verði' af ljósi gjörð.

Velkominn á jörð.

sigurdur.aegisson@kirkjan.is