Andrés Sigurðsson, Karl Eiríksson og Skúli Karlsson.
Andrés Sigurðsson, Karl Eiríksson og Skúli Karlsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bræðurnir Ormsson er talsvert umsvifamikið fyrirtæki í íslensku viðskiptalífi. Það hefur starfað í 80 ár um þessar mundir. Guðrún Guðlaugsdóttir ræddi við þá Karl Eiríksson, Skúla Karlsson og Andrés Sigurðsson um starfsemi fyrirtækisins og sögu þess.

Þeir eru ófáir sem litið hafa ástúðlega til AEG-þvottavélanna sinna þegar þeir hafa tekið út úr þeim hreinþveginn þvott sinn. Ábyggilega eru þeir líka ófáir sem hafa klappað sér ánægjulega á magann eftir að hafa innbyrt ágætan mat eldaðan á AEG-eldavél. Nokkru síðar hafa svo kannski þessir sömu aðilar horft hugsandi á skilti frá Bræðrunum Ormsson í lyftunum sem flutt hafa þá á ýmsa áfangastaði. - Mikið rétt, þetta og fjölmargt fleira hefur þetta fyrirtæki haft milligöngu um að koma á framfæri við landsmenn. Meira að segja heita vatnið sem Suðurnesjamenn baða sig úr þegar þeir koma í land frá sinni rómuðu sjósókn er að hluta til þeirra komið eftir að hafa framleitt rafmagn í gegnum gufuhverfla frá umboðsfyrirtækjum Bræðranna Ormsson. Rafmagn frá Blönduvirkjun er einnig að hluta framleitt með tækjum frá þessu ágæta fyrirtæki. Lýsingu í sveitum var víða komið á fyrir tilstilli Bræðranna Ormsson og þannig mætti lengi telja.

Þetta fyrirtæki grípur sem sagt á margan hátt inn í íslenskt þjóðlíf - það hefur enda starfað í 80 ár og er að sögn forsvarsmanna í stöðugri endurnýjun og aðlögun að breyttum lífsháttum. Árið 1988 fékk það m.a. umboð fyrir hinn þekkta Beck's-bjór.

"Forstjóri sem við höfðum lengi verið í samstarfi við hjá AEG-fyrirtækinu, hætti hjá því fyrirtæki en tók fram að hann vildi gjarnan starfa með okkur á öðrum vettvangi ef tækifæri gæfist. Þegar bjórinn var leyfður hér sóttu fjölmargir á Íslandi um umboð fyrir Beck's-bjór og fyrir tilstilli fyrrnefnds forstjóra fengum við umboðið," segir Karl Eiríksson, eigandi þessa aldna fjölskyldufyrirtækis.

"Beck's-bjórinn er nú skemmtileg aukabúgrein - heimilistækin, einkum þvottavélarnar eru lífæð fyrirtækisins," bætir Skúli sonur hans við. Það er sannarlega af mörgu að taka hvað umsvif fyrirtækisins Bræðranna Ormsson snertir. En að sögn þeirra feðga hefur fyrirtækið frá upphafi lagt sig sérstaklega fram um að viðhafa vönduð vinnubrögð í hvívetna og bjóða ekki síður vandaðar vörur.

Það fer ekki hjá því að fyrirtæki sem orðið er 80 ára hafi á stundum bæði unnið eftirminnilega sigra og jafnframt kennt til í stormum sinnar tíðar. Um þetta og fleira ræðir blaðamaður Morgunblaðsins við eigendurna Karl og Skúla og Andrés B. Sigurðsson, framkvæmdastjóra fyrirtækisins Bræðranna Ormsson.

Ágrip af sögu hins 80 ára fyrirtækis

Forsögu að stofnun þessa fyrirtækis er að leita allt til ársins 1910. Þá höfðu bræðurnir Jón og Eiríkur Ormssynir lokið sveinsprófi í skósmíði og trésmíði en um sama leyti var raflýsing Víkurkauptúns að hefjast. Tíu árum áður hafði Halldór Guðmundsson, ungur Vestur-Skaftfellingur, farið til Danmerkur og Þýskalands að læra vélfræði og rafmagnsfræði. Þeir bræður gerðust aðstoðarmenn Halldórs við að raflýsa Víkurkauptún og ári síðar Vestmannaeyjakauptún. Næstu ár unnu þeir bræður hjá Halldóri uns þeir reistu saman hús á Baldursgötu 13 og Óðinsgötu 25 árið 1920 og höfðu verkstæðiskrók Óðinsgötumegin í húsinu. Þeir unnu við að breyta gaslömpum í rafmagnsljóstæki og jókst þessi vinna mjög þegar rafstöðin við Elliðaár tók til starfa 1921. Upp úr þessum jarðvegi er fyrirtækið Bræðurnir Ormsson sprottið.

Í framhaldi af því að hér á landi skorti kunnáttumenn í viðgerðum rafvéla fór Eiríkur utan til náms í Danmörku 1922 og vann hjá A/S Elektromaskin og fleiri fyrirtækjum m.a. við vindingar á jafnstraums- og riðstraumsvélum, vélprófun, mælaviðgerðir og stillingar.

Þegar heim kom lánaði Sighvatur Bjarnason, bankastjóri Íslandsbanka, Eiríki 6.000 krónur til að endurgreiða námslán og stofna eigið verkstæði: Rafvéla- og mælaviðgerðir - Eiríkur Ormsson.

Árið 1923 fékk fyrirtækið nafnið Bræðurnir Ormsson

Fyrsta vélin sem kom til viðgerðar með brunnið anker var úr marconi-loftskeytastöð í togaranum Agli Skallagrímssyni, sem var fyrsta fiskiskipið hér sem sigldi með loftskeytastöð. Verkefnin komu svo eitt af öðru. Árið 1923 varð Jón Ormsson meðeigandi í fyrirtækinu og nefndist það þá Bræðurnir Ormsson. Jón varð löggiltur rafvirkjameistari hinn 1. ágúst 1923 og fyrsta húsið sem hann lagði rafmagn í eftir það var Dómkirkjan í Reykjavík.

Fyrirtækið tók að sér að reisa rafstöðvar fyrir sveitaheimili sem fengu hagstæð ræktunarsjóðslán til þessara framkvæmda en oft gekk seint að innheimta greiðslur fyrir þessi verk sem voru þó tryggðar með víxlum. Þýska markið hækkaði árið 1931 um 40% og upp í 50% árið eftir, móti íslenskri krónu. Það ár hóf Jón sjálfstæðan rekstur en Eiríkur hélt rekstri fyrirtækisins áfram en dró jafnframt heldur saman seglin.

Ríkisstjórnin skipaði nefnd til að athuga hag bænda, hún gaf út skýrslur sem urðu undirstöður laganna um Kreppulánasjóð. Eignakönnun var hafin og öllum bændum bannað að greiða reikninga eða standa við aðrar skuldbindingar á meðan. Í framhaldi af þessu fóru fram skuldaskil á árunum 1933 til 1936 þannig að kreppulánabændur greiddu frá 50% og niður í 2% skulda sinna. Árið 1936 var stofnaður Kreppulánasjóður bæjar- og sveitarfélaga svo enn kom til nýrra skuldaskila, einnig frá hendi Skuldaskilasjóðs vélbátaeigenda. Þessar ráðstafnir komu hart niður á fyrirtækinu Bræðrunum Ormsson og leiddi það til þess m.a. að leitað var eftir heppilegra húsnæði. Í framhaldi af því var keypt húsnæði á Vesturgötu 3.

Eftirspurn eftir efni og vinnu jókst árið 1937 um 60% frá fyrra ári og farið var að smíða litlar ljósavélar fyrir landsbyggðina.

Um það leyti sem heimsstyrjöldin síðari hófst var fyrirtækið komið á nokkuð traustan grundvöll og innflutningur orðinn drjúgur hluti af rekstrinum. En þá lokuðust öll sambönd en þau höfðu að mestu verið bundin við Þýskaland. Fór fyrirtækið þá m.a. að smíða stærri vatnstúrbínur en áður, allt upp í 30 hestöfl.

Umsvifin hafa aukist ár frá ári frá styrjaldarlokum

Að styrjöld lokinni voru öll þýsk umboð fyrirtækisins lýst ógild af vesturveldunum og hófst í kjölfarið hörð barátta um þau hér á landi. Henni lauk með því að Bræðurnir Ormsson fengu öll sín eftirsóttustu umboð aftur og hafa haldið þeim síðan.

Þróunin varð sú að fyrirtæki fóru að reisa glæsileg verslunarhús og ýtti BOSCH, hið þýska fyrirtæki sem Bræðurnir Ormsson höfðu umboð fyrir, undir þá þróun.

Frá árinu 1950 færðist mikill vöxtur í öll viðskipti fyrirtækisins. Kom Karl Eiríksson, áður flugmaður, að framkvæmdastjórn fyrirtækisins 1959. Um sama leyti hófust ráðagerðir um byggingaframkvæmdir á vegum fyrirtækisins á hornlóð Háaleitisbrautar og Lágmúla. Þá voru í uppsiglingu stórframkvæmdir í virkjunarmálum. Árið 1966 var flutt í hin nýju húsakynni í Lágmúla 9 þar sem fyrirtækið starfar enn. Verslun var sett á stofn með alls kyns heimilistæki frá AEG og BOSCH jafnframt viðgerðarþjónustu. Í upphafi árs var boðin út rafvirkjun fyrir álbræðsluna í Straumsvík og tóku Bræðurnir Ormsson þátt í því útboði í samvinnu við danska fyrirtækið E. Rasmussen og tókust samningar þar um. Einnig bauðst fyrirtækinu að taka að sér hálfunnið rafmangsverk við Búrfellsvirkjun sem einnig gekk vel.

Árið 1984 keyptu Karl Eiríksson og fjölskylda hans systur Karls út úr fyrirtækinu. Karl varð forstjóri og Eiríkur sonur hans framkvæmdastjóri. Hann hætti 1993.

Árið 1996 keyptu Bræðurnir Ormsson rekstur Hljómbæjar með Pioneer, Sharp og Jamo, einnig var stofnuð ný deild með skrifstofutæki frá Sharp. Árið 1998 var Hljómco keypt og fylgdu þeim kaupum umboð fyrir Olympus, Nintendo og Nikon. Árið 1999 var Clark-lyftaraumboðið keypt, ári síðar Polaris-umboðið og hófst þá sala á Bridgestone og Firestone.

Árið 2001 var BOSCH-umboðið selt Bílanausti.

Árið 1994 var velta fyrirtækisins Bræðranna Ormsson 400 milljónir króna, 800 milljónir króna var veltan 1996, tæpar 1.100 milljónir kr. 1998 og árið 2001 var hún orðin 1.867 milljónir króna. Hagnaður var að sögn Karls Eiríkssonar öll rekstrarárin til ársins 2000, sem var erfitt ár og einnig árið 2001. Rekstur hefur gengið vel á þessu ári þrátt fyrir samdrátt í nokkrum vöruflokkum.

Já, við skrifum allt hjá Guðmundi!

"Þegar ég rifja upp söguna á þessum tímamótum þá held ég að skuldaskilatímabilið hafi verið einna alvarlegasta áfallið í sögu fyrirtækisins," segir Karl.

"Ég minnist þess að eitt sinn eftir að ég var kominn hér til starfa kom maður sem Guðmundur hét, útvegsbóndi frá Rafnkelsstöðum í Garði og bað mig um að setja nýja rafala í báta sem hann átti og skrifa það hjá sér. Ég leitaði álits föður míns á þessari bón mannsins.

"Já, við skrifum allt hjá Guðmundi, hann einn borgaði að fullu skuld sína við fyrirtækið þegar skuldaskilin voru liðin hjá, þá sagði hann við mig: "Ég læt ekki opinbera aðila ráða því hvort ég stend við skuldbindingar mínar eða ekki og afhenti nýjan víxil fyrir skuldinni sem eftir stóð," sagði faðir minn.

Pabbi var jafnan árrisull maður en kvöldsvæfur.

Móðir mín sagði mér að hún hefði aðeins einu sinni vitað föður minn andvaka, það var þegar skuldaskilalögin voru samþykkt og hann vissi þar með að fyrirtækið fengi aðeins brot af því sem bændur og fleiri skulduðu því," sagði Karl ennfremur.

Mikilsverðir atburðir og hitamál

Við sitjum saman þrjú í fundarsal fyrirtækisins í hinum glæsilegu húsakynnum þess í Lágmúla 8. Á einum veggnum er stór mynd af hestum í miðri Þverá árið 1928 að flytja rafstöð til að raflýsa Múlakot í Fljótshlíð.

"Enn eru hér í kjallaranum "arkív" yfir vatnaflsstöðvar og vindrafstöðvar sem Bræðurnir Ormsson smíðuðu og seldu til hundraða bæja víða um land," segir Karl.

"Þegar Ríkisútvarpið tók til starfa 1930 gerði það samning við Bræðurna Ormsson um að segja upp litlar vindrafstöðvar víða um land gegn því að bændurnir sem fengju þær sæju um að hlaða rafgeyma fyrir útvörpin á bæjunum í kring."

Árið 1973 var erfitt ár í sögu fyrirtækisins Bræðranna Ormsson.

"Þá voru gerðir hinir frægu vorsamningar. Öll laun voru hækkuð eftir langt verkfall. Lúðvík Jósepsson var þá viðskiptaráðherra.

Hann kom inn til okkar, samninganefndarinnar við rafvirkja, og sagði að allir væru búnir að semja og við yrðum að gera það líka.

"Ef við skrifum undir þetta erum við að borga sextán krónur fyrir hverja klukkustund til þeirra rafvirkja sem hjá okkur vinna fram yfir það sem sem við fáum," segi ég.

Lúðvík tók gleraugun á sinn máta fram á nefið og sagði:

"Auðvitað verið þið að fá að selja þetta út á eðlilegu verði."

Það stóð vægast sagt í miklu stappi að fá því framgengt. Verðlagsstofnun sagðist ítrekað hafa mælt með þessu en ekki hefði fengist neitt svar frá ráðherra. Hluti af samninganefndinni bað um viðtal við Lúðvík en æði margir voru teknir fram fyrir okkur, þar sem við biðum á biðstofunni - þar til okkur var loks vísað inn. Lúðvík kvaðst þá margsinnis hafa haft samband við Verðlagsstofnun og allt ætti því að vera í lagi. Sú varð ekki raunin. Þetta mál varð til þess að breyta "strúktúr" fyrirtækisins verulega - við urðum loks að segja upp nær öllum rafvirkjum okkar og þeir stofnuðu fjölmörg bílskúrsverkstæði sem gátu tekið að sér verkefni sem okkur var ekki unnt við þessar aðstæður. Svona gátu hlutirnir stundum gengið fyrir sig á þessum árum."

Það kemur fram í máli Karls að fyrirtækið hafði löngum átt umfangsmikil viðskipti við Landsbankann.

"Pétur Benediktsson var sá bankastjóri sem mestan og faglegan áhuga hafði á starfsemi okkar og reyndist okkur mjög vel, og einnig Svanbjörn Frímannsson og Jón Marísson. Það sama er ekki hægt að segja um alla hina bankastjóra Landsbankans," segir Karl og nefnir stuttlega nokkur hitamál, svo sem þegar ekki fékkst greitt umsamið verð fyrir uppsetningu lyftu í Alþýðuhúsið og ekki fékkst verkábyrgð frá Landsbankanum vegna raflagnar í seinni hluta byggingar Álverksmiðjunnar sem Bræðurnir Ormsson önnuðust að 60% hluta.

"Það endaði með því að ég fékk danska fyrirtækið Rasmussen til að opna verkábyrgð fyrir okkur líka, síðan hefur ekki verið um viðskipti við Landsbankann að ræða," segir Karl.

Heimilistækin eru burðarás fyrirtækisins

Við færum umræðurnar nær nútímanum.

Andrés B. Sigurðsson kom til starfa hjá Bræðrunum Ormsson fyrir níu árum og er nú framkvæmdastjóri.

"Það var þá orðið gjörbreytt fyrirtæki frá því sem áður var, er það var verktakafyrirtæki að stórum hluta," segir Andrés.

"Það hefur þróast eftir 1970 til 1980 yfir í verslunarfyrirtæki og heildverslun að stærri hluta.

Eftir stríð fóru að koma á markaðinn hér heimilistæki en þau urðu ekki almenningseign fyrr en eftir 1960.

Þá rak þetta fyrirtæki verktakarekstur jafnhliða sölu á heimilistækjunum og hafði tugi og jafnvel hundruð rafvirkja í vinnu oft á tíðum við virkjanir og raflagnir í stærri og smærri verkefnum.

"Þegar við gerðum samning við Ísal um allar raflagnir í Álverksmiðjuna var það stærsta verkefni sem íslenskt fyrirtæki hafði tekið að sér, innifalið í því voru allir kaplar, ljós og rafmagnsmótorar," segir Karl.

"Lengst af hefur fyrirtækið verið þekkt fyrir innflutning á AEG-heimilistækjum, þ.e. frá 1932 og einnig fyrir innflutning á tækjum frá Robert Bosch.

Frá 1994 hefur verið bætt við fjölbreyttum vöruflokkum, svo sem hljómtækjum, sjónvörpum, leikjatölvum, skrifstofutækjum, tölvum og jafnvel bjór.

Það hefur á undanförnum árum orðið samþjöppun á markaðinum og keðjumyndun á sviði byggingarvara og heimilistækja," segir Andrés.

"Þetta eru aðilar sem nýta sér kjölsogið og nýta sér grunnvinnuna sem búið er að vinna," segir Skúli.

"Það er skemmtilegt að geta þess að á sama tíma og við höldum upp á 80 ára afmælið heldur AEG upp á þau tímamót að 104 ár eru nú liðin síðan þeir framleiddu fyrstu rafmagnsborvélina.

Straujárn voru fyrst og fremst flutt inn frá AEG til Íslands í fyrstu og nokkrar eldavélar, m.a. í verkamannaíbúðirnar við Hringbraut, við eigum enn eitt eintak af þeim vélum. Upp úr stríði fór þessi innflutningur að aukast," segir Karl.

"Ég er ekki viss um að það hafi verið kæliskápar nema í svona tíu húsum í Reykjavík fyrir stríð," bætir hann við.

Þess má geta að ryksugur voru fyrstu heimilistækin sem flutt voru til Íslands, það var um 1934.

En eftir hvaða heimilistækjum hjá Bræðrunum Ormsson skyldi vera mest eftirspurn núna?

"Þvottavélarnar frá AEG eru mjög eftirsóttar, við erum með nálægt 20% markaðshlutdeild á þeim vettvangi og erum að styrkja okkur verulega í innbyggingartækjum, ofnum og helluborðum. Nú eru AEG-þvottavélarnar orðnar alíslenskar, ef svo má segja, kominn íslenskur texti á þær og einnig þurrkari."

"Íslenskuna á þessum tækjum tengjum við 80 ára afmælinu. Við höfum lagt áherslu á gæði, viljum heldur "rífast" um verð en gæði," segir Skúli.

Þess má geta að tveir starfsmenn fyrirtækisins hafa á eigin ábyrgð um nokkurt skeið rekið viðgerðarþjónstu hér í húsinu fyrir þau tæki sem Bræðurnir Ormsson selja.

"Við hrósum okkur af allmyndarlegum varahlutalager," bætir Karl við.

Stríðið vegna Nesjavallavirkjunar

En þrátt fyrir að heimilistækin séu burðarás fyrirtækisins eru Bræðurnir Ormsson umsvifamiklir í hinum mjög svo umtöluðu framkvæmdum sem virkjanir og orkuveitur eru jafnan í þessu samfélagi.

"Við seldum tvær eins eins mw gufutúrbínur frá AEG í Svartsengi og síðar eina 16 mw og 30 mw frá Fuji Electric í Japan. Við lentum síðar sem frægt er orðið í stríði í sambandi við útboð í túrbínu í Nesjavallavirkjun," segir Skúli.

"Við vorum með lægsta tilboð og það besta að mínum dómi en fengum verkið ekki þrátt fyrir það," segir Karl.

"Það voru tvö japönsk fyrirtæki sem börðust þar, ef svo má segja, Sumitomo-Fuji Electric og Mitsubitsi. Við erum með umboð fyrir hið fyrrnefnda. Eftir að tilboð höfðu verið opnuð var öðrum aðilum gefinn kostur á að lækka sín, sem er ólöglegt. Við skutum þessu máli til kærunefndar útboðsmála sem úrskurðaði 29. mars 1997 með bréfi til fjármálaráðuneytisins að endurskoða yrði þessa ákvörðun. Með bréfi 1. apríl sama ár neitaði Ingibjörn Sólrún Gísladóttir borgarstjóri að endurskoða málið og var það afgreitt á næturfundi borgarráðs í framhaldi af því. Við skutum þá máli þessi til úrskurðar í Brussel og þar var það staðfest að slík vinnubrögð væru ólögleg. Við íhuguðum málsókn vegna þessa við stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og Innkaupastofnun Reykjavíkur, þar sem Alfreð Þorsteinsson er í fyrirsvari á báðum stöðum, en hættum við. Japanska fyrirtækið Sumitomo setti okkur þá kosti að standa ekki í málarekstri þar sem í hlut ætti annað japanskt fyrirtæki og við létum undan síga fyrir þeim tilmælum - sem við hefðum kannski alls ekki átt að gera," segir Karl.

"Mönnum er vafalaust mörgum í fersku minni allt umrótið sem þetta mál olli, næturfundir í borgarstjórn og misfagur málflutningur andstæðinga okkar þar," bætir hann við.

Þeim félögum kemur þó saman um að þessi reynsla sé dýrmæt.

"Við erum þegar farnir að huga að tilboðum í ákveðna þætti í væntanlegum virkjanaframkvæmdum," segir Karl og blaðamanni verður ljóst við þessar umræður að það er ekki tilviljun að fyrirtækið Bræðurnir Ormsson hefur blómstrað svo sem raun ber vitni á umliðnum árum.

Ef svo heldur fram sem horfir munum við sennilega um langan aldur geta notið lýsingar og krafts frá túrbínum og rafölum þar sem Bræðurnir Ormsson hafa komið við sögu og eldað matinn okkar og þvegið þvottinn með tilstyrk AEG-tækja.

gudrung@mbl.is