"Að loknum vinnudegi vil ég geta sagt við sjálfa mig að ég hafi tekið þátt í að bæta samfélagið í þágu einstaklinganna."
"Að loknum vinnudegi vil ég geta sagt við sjálfa mig að ég hafi tekið þátt í að bæta samfélagið í þágu einstaklinganna."
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásdís Halla Bragadóttir, 34 ára bæjarstjóri Garðabæjar, segir að sig langi ekkert í landsmálapólitík. Hún ræddi við Ragnhildi Sverrisdóttur um pólitískan áhuga sinn frá barnsaldri, formann Sjálfstæðisflokksins, áform um mikla uppbyggingu Garðabæjar og tilfinningaþrungna umræðu um Evrópumál.

Aðrir geta velt framtíð minni fyrir sér, en ég nýt stundarinnar og leiði aldrei hugann að því hvað ég geri eftir að bæjarstjóratíð minni lýkur. Reyndar held ég að fólk eigi ekki að einblína á framtíðina, það getur komið í veg fyrir að það nái árangri. Ef ég ætlaði á þing eða í fyrirtækjarekstur, gæti það leitt til að ég hætti að taka af skarið í erfiðum málum hér; hætti að vinna af heilindum með hag Garðabæjar að leiðarljósi. Ég er svo lánsöm að ég velti þessu ekkert fyrir mér. Kannski er þessi afstaða mótuð af því að ég hef búið víða og gegnt ýmsum störfum. Mér hefur lærst að taka því sem að höndum ber og veit að skjótt skipast veður í lofti," segir Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri í Garðabæ.

Ásdís Halla er 34 ára, fædd í Reykjavík 6. júlí 1968. Foreldrar hennar eru Sigríður Sívertsdóttir Hjelm og Bragi Eyjólfsson. Fjölskyldan flutti til Ólafsvíkur þegar Ásdís Halla var nokkurra mánaða gömul og var þar næstu níu árin. "Þetta voru yndisleg ár í litlu sjávarþorpi og mér fannst alltaf jafn skrítið að koma til höfuðborgarinnar," segir hún.

Síðar bjó fjölskyldan í Svíþjóð í hálft annað ár, í Noregi í tæpt ár og settist svo að á Akranesi þegar Ásdís Halla var tólf ára. Þá var Bragi faðir hennar farinn að vinna hjá Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Á heimilinu voru tveir eldri bræður hennar og yngri systir, en að auki á hún tvær eldri hálfsystur, samfeðra. "Ég bjó á Skaganum þar til ég hafði lokið stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum á Akranesi 1987, en flutti þá til Reykjavíkur."

Áhuginn á stjórnmálum kviknaði snemma. "Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á umhverfi mínu og held að tíðir flutningar fjölskyldunnar hafi ýtt undir þann áhuga. Ég velti fyrir mér af hverju lífið í Ólafsvík væri svo frábrugðið lífinu í Gautaborg og hafði gaman af að velta fyrir mér ólíkri hugmyndafræði. Í Ólafsvík var skólakerfið rekið á samkeppni, en í Svíþjóð voru próf bönnuð. Þetta fannst mér mjögáhugavert, en var lítið hrifin af sænska kerfinu."

15 ára gömul var hún virk í starfi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi og á því 19 ár að baki í stjórnmálunum. "Ég var í stjórn félags ungra sjálfstæðismanna á Akranesi. Í mínum huga kom aldrei annar flokkur til greina en Sjálfstæðisflokkurinn; ég var sjálfstæðismaður frá barnsaldri. Á heimilinu var aldrei talað um pólitík, en ég vissi að pabbi kaus Sjálfstæðisflokkinn. Mér fannst réttast að kjósa þann flokk. Árið 1980 lenti ég í tilvistarkreppu í pólitíkinni. Þá langaði mig mjög að kjósa Vigdísi Finnbogadóttur í embætti forseta, en fannst ég ekki geta það, því hún var ekki sjálfstæðismaður. Þegar ég áttaði mig á að ég mætti ekki kjósa, enda bara 12 ára, létti mér stórum og ég var afskaplega ánægð þegar Vigdís náði kjöri. Á þessum árum ætlaði flokkshollustan mig lifandi að drepa."

Opin fyrir annarri hugmyndafræði

Þegar Ásdís Halla hóf nám í Háskóla Íslands ákvað hún að innrita sig í lögfræði, en þar réð pólitískur áhugi hennar líklega meiru en sérstakur áhugi á lögum. "Ég hafði auðvitað tekið eftir að margir stjórnmálamenn voru lögfræðimenntaðir og taldi þetta því kjörið nám fyrir mig, sem hafði alltaf haft mikinn áhuga á pólitík. En ég náði engum tengslum við lögfræðina og ég ákvað að leggja frekar stund á eitthvað sem vekti áhuga minn. Ég færði mig því yfir í stjórnmálafræðina og lauk BA-prófi 1991."

Í laganáminu kynntist Ásdís Halla eiginmanni sínum, Aðalsteini E. Jónassyni lögmanni. Synir þeirra eru tveir, Jónas 12 ára og Bragi, sem er að verða 4 ára.

Hún hóf nám í stjórnmálafræði með opnum huga; segist hafa gert sér grein fyrir að hún hafi vitað lítið um stjórnmál. Reyndar var hún ekki viss um af hverju hún hefði alltaf fylgt Sjálfstæðisflokknum. "Ég ákvað að reyna að vera opin fyrir annarri hugmyndafræði, en þegar ég fór að kynna mér stefnu og sögu íslenskra stjórnmálaflokka komst ég fljótt að raun um að stefna Sjálfstæðisflokksins var sú eina sem höfðaði til mín. Frelsi einstaklingsins var þar grundvallaratriðið. Ég sætti mig ekki við kerfi miðstýringar, eins og í Svíþjóð, þar sem einstaklingar fengu ekki að njóta sín. Í stjórnmálafræðinni fann ég að tvær meginstoðir Sjálfstæðisflokksins, íhaldssemin og frjálslyndið, með einstaklingsframtaki og lágmarksafskiptum stjórnvalda, var sú stefna sem ég trúði að væri þjóðfélaginu til mestra hagsbóta."

-Þegar þú bauðst þig fram til embættis formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna 1997 sagðir þú að eitt mikilvægasta hlutverk SUS væri að halda frjálslyndum viðhorfum stöðugt á lofti, en þér hefði stundum þótt sá angi sjálfstæðistefnunnar sem kenndur væri við íhaldssemi vera of áberandi í störfum flokksins. Ertu enn þeirrar skoðunar?

"Já. Kannski tengist þetta því að telji ég breytinga þörf, vil ég að þær gerist hratt eins og gerðist þegar Sjálfstæðar konur, félagsskapur kvenna innan Sjálfstæðisflokksins, voru settar á laggirnar. Okkur fannst flokkurinn of mikill karlaflokkur og áherslu skorta á jafnréttismál og ýmis mál sem við höfðum áhuga á, til dæmis fæðingarorlof karla. Við ákváðum að vinna þessum málum brautargengi innan flokksins af krafti og þarna ruddist fram stór hópur kvenna með ákveðnar hugmyndir. Við vorum ósáttar við að ná ekki öllu fram á fyrsta landsfundi flokksins, en héldum áfram."

Ákváðu að ná formannsembættinu

-Þær raddir heyrðust, bæði innan flokks og utan, að Sjálfstæðar konur væru klíka kvenna, sem hefði það markmið að koma félögum sínum á framfæri innan flokksins.

"Við lágum ekkert á því að við vildum áhrif til að koma hugmyndafræði okkar á framfæri. Okkar fyrsta verk okkar var að móta stefnuskrá Sjálfstæðra kvenna, þar sem við lýstum okkur m.a. andvígar kynjakvótum, við vildum fæðingaorlof karla og jafnrétti í raun. Okkur fannst ekki nóg að semja þessa stefnuskrá, heldur vildum hrinda henni í framkvæmd. Því er ekki að leyna að þar treystum við engum betur en Sjálfstæðum konum. Okkur fannst strákarnir í SUS ekki vinna eftir þessari stefnu og ákváðum að einhver okkar yrði næsti formaður SUS. Á þeim forsendum leitaði ég eftir stjórnarsetu í SUS, með það í huga að styðja konu til formennsku í sambandinu. Á þeim tíma voru tvær ungar konur að búa sig undir það verkefni. Svo breyttust þeirra hagir og ég sat sjálf uppi með embættið."

-Telur þú þá að stefnuskrá Sjálfstæðra kvenna hafi skilað sér inn í stefnu flokksins?

"Já, það er engin spurning og konur eru miklu sterkari í flokksstarfinu en áður. Í landsfundarályktunum og stefnu flokksins má víða sjá fingraför Sjálfstæðra kvenna. Sjálfstæðar konur tóku ýmis mál upp innan SUS, sem okkur þótti hafa einblínt um of á efnahagsmál, þótt mikilvæg væru. Við urðum fyrsti hópurinn innan Sjálfstæðisflokksins til að álykta um ættleiðingar samkynhneigðra og mótuðum víðtækari stefnu í mannréttindamálum en áður hafði komið fram. Enn er þó ýmislegt óunnið, en konur innan flokksins starfa áfram saman, þótt í óformlegum hópum sé. Einn hópur heldur úti vefsíðunni tikin.is og mér sýnist þeim hópi svipa töluvert til Sjálfstæðra kvenna. Ég bind miklar vonir við þessar stelpur en ein þeirra, Guðrún Inga Ingólfsdóttir, náði ágætum árangri í prófkjörinu í Reykjavík á dögunum."

Frelsinu fylgir ábyrgð

-Hvar stendur þú innan Sjálfstæðisflokksins? Tilheyrir þú svokölluðum frjálshyggjuarmi hans?

"Ég hef líklega farið hringi í hugmyndafræðinni. Á háskólaárunum var ég eins mikil frjálshyggjumanneskja og hægt er að vera. Ég var hlynnt frelsi á öllum sviðum. En fljótlega fór ég að sjá þetta í víðara samhengi og tengja hugmyndafræðina betur við þann veruleika sem við búum við. Frelsinu verður að fylgja ábyrgð og á sumum sviðum er óhjákvæmilegt að ríki og sveitarfélög komi til skjalanna. Við eigum að styðja og styrkja velferðarkerfið, ríki og sveitarfélög eiga að bera ábyrgð á að börn og unglingar fái bestu menntun sem völ er á og í gegnum skattkerfið eigum við að styðja mjög vel við menntakerfið og heilbrigðiskerfið. En þó að hið opinbera beri ábyrgð á fjármögnuninni, þá er það ekki svo að ríki og sveitarfélög eigi að reka alla skóla eða alla þjónustu. Sjálfsagt myndi ég skilgreina mig þannig að ég sé mjög hlynnt einkaframtakinu, en á sama tíma á hið opinbera að bera ábyrgð við fjármögnun ákveðinnar þjónustu. Ég hef til dæmis trú á því að fleiri einkaaðilar eigi eftir að reyna fyrir sér í rekstri skóla og fyrr í vikunni fékk Garðabær ósk frá Hjallastefnunni ehf. um að fá að reka grunnskóla í bæjarfélaginu fyrir 5-9 ára börn. Þetta fyrirtæki rekur nú þegar stærsta leikskólann í Garðabæ og ég veit að margir foreldrar eru áhugasamir um að börnin þeirra geti haldið áfram í skóla á vegum þessara aðila. Erindið verður tekið til umfjöllunar í næstu viku og mér finnst spennandi að sjá hvort ekki sé forsenda fyrir því að Garðabær taki þátt í að koma nýjum einkareknum grunnskóla á laggirnar."

-Hverjir eru þínir nánustu samherjar í pólitíkinni?

"Í gegnum tíðina hafa mínir nánustu samherjar verið samstarfsmenn í Valhöll og menntamálaráðuneytinu, félagar mínir í SUS og Sjálfstæðum konum og reglulega hitti ég marga þeirra. Nánustu samstarfsmenn í starfi mínu nú eru bæjarfulltrúarnir í Garðabæ. Ég var kjörin bæjarfulltrúi í sveitarstjórnarkosningunum í vor, en var áður ráðin bæjarstjóri án þess að sitja í bæjarstjórn. Ég er mjög ánægð með það samstarf ekki síst þar sem bæði Laufey Jóhannsdóttir, forseti bæjarstjórnar, og formaður bæjarráðs, Erling Ásgeirsson, búa yfir ómetanlegri reynslu. Ég kann vel að meta fólk sem býr yfir öðrum eiginleikum en ég. Við sem erum nýrri í starfi getum komið með ýmsar hugmyndir og það er gott að nýjar hugmyndir og reynsla haldist hönd í hönd."

-Þrátt fyrir pólitískan áhuga frá barnsaldri virtist þú ætla að láta stjórnmálin eiga sig um tíma, þegar þú hættir störfum sem aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar, þáverandi menntamálaráðherra, og fórst til náms í Bandaríkjunum.

"Já, ég hef nokkrum sinnum hætt í pólitík. Ég man að þegar ég flutti frá Akranesi 18 ára var ég ákveðin í að finna mér önnur áhugamál samhliða námi en pólitík. Svo leiddist ég út í stúdentapólitíkina, en var lítið hrifin af henni. Mér fannst fólk vera að gera sér upp skoðanir og búa til ágreining út af ótrúlegustu málum. Ég hef ekki gaman af að deila og sækist ekki eftir þrasi. Ef ég hef djúpa sannfæringu fyrir einhverju hika ég ekki við að taka þann slag, en málfundaræfingar heilla mig ekki. Ég fékk leið á þessu og hugsaði með mér að ég ætti að nýta áhuga minn á pólitík í blaðamennsku. Ég varð blaðamaður á Morgunblaðinu og kom ekki nærri störfum í Sjálfstæðisflokknum í nokkur ár, þar til Geir Haarde bauð mér starf sem framkvæmdastjóri þingflokksins. Ég ákvað að prófa það um tíma, af því að ég taldi mig verða betri blaðamann ef ég fengi að kynnast störfum þingsins í návígi. Þetta átti að verða eins konar starfsnám, en mér fannst starfið svo skemmtilegt að ég gleymdi mér í pólitíkinni um hríð. Eftir kosningarnar 1995 varð ég aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar, sem var mjög lærdómsríkt. Undir hans forystu var stjórnsýslan í ráðuneytinu mjög öguð, fagleg og markviss. Hins vegar er alltaf töluverð togstreita í mér gagnvart pólitíkinni. Þetta hefur verið dálítið "haltu mér, slepptu mér"-samband. Mér finnst hún heillandi og skemmtileg, en stundum vil ég njóta hennar úr fjarlægð. Þess vegna ákvað ég að fara í meistaranám í opinberri stjórnsýslu og ég ætlaði að helga mig kennslu eða störfum í háskólaumhverfi."

Herramennirnir á baksíðu Morgunblaðsins

Eftir að Ásdís Halla lauk meistaraprófi í opinberri stjórnsýslu frá Harvard-háskóla réðst hún til Háskólans í Reykjavík. "Ég var ánægð hjá Háskólanum, enda er krafturinn þar með ólíkindum. En dag einn sá ég frétt á baksíðu Morgunblaðsins og með henni var mynd af tveimur ágætum herramönnum, Herði Sigurgestssyni, forstjóra Eimskips, og Ingimundi Sigurpálssyni, bæjarstjóra í Garðabæ. Hörður var þá að hætta sem forstjóri Eimskips og Ingimundur að taka við. Ég var að leggja lokahönd á bókina Í hlutverki leiðtogans og þegar ég sá fréttina flaug tvennt í gegnum hugann. Annað var, að nú þyrfti ég að endurskoða kaflann um Hörð, og hitt var, að þetta hlyti að vera spennandi starf sem Ingimundur var að fara úr. Ég sá svo að staðan var auglýst og þá ákvað ég að sækja um, til að kanna hvort ég ætti einhvern möguleika á að vera ráðin. Og það varð úr."

-Ráðning þín í stöðu bæjarstjóra gekk ekki alveg hljóðalaust fyrir sig. Fannst þér erfitt að taka við starfinu við þær aðstæður?

"Nei, það var alls ekki erfitt. Þótt minnihlutinn gagnrýndi ráðninguna var samstarfið í meirihlutanum mjög gott. Ingimundur var oddviti meirihlutans áfram og ómetanlegt að fá að starfa með honum næstu tvö árin. Þá er rétt að geta, að ég hef aldrei áður unnið á vinnustað, þar sem jafn margt hæft fólk með mikla reynslu er saman komið. Stundum þarf að byrja á að gera breytingar, þegar tekið er við nýju starfi, en forverar mínir hafa greinilega verið miklir mannþekkjarar, því hér í Garðabæ er valinn maður í hverju rúmi."

-En þú hafðir lítið komið að sveitarstjórnarmálum áður en þú settist í bæjarstjórastólinn.

"Þetta er reyndar ekki rétt. Sveitarstjórnarmál eru oft skilgreind mjög þröngt, út frá sorpi, skolpi, gatnagerð og gangstéttarbrúnum. En eftir að rekstur grunnskólans var fluttur frá ríki til sveitarfélaga breyttist eðli sveitarstjórnarmála mikið. Yfir 60% af rekstri sveitarfélaga tengjast mennta- og uppeldismálum, sem hafa verið mín helstu áhugamál í gegnum tíðina. Þegar ég starfaði í menntamálaráðuneytinu vann ég meðal annars að undirbúningi á flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna og bjó að þeirri reynslu þegar ég hóf störf hér. Öll þau störf sem ég hef áður gegnt nýttust bæði beint og óbeint fyrir starf bæjarstjóra. Svo hefur vissulega hjálpað töluvert að hafa lokið sérhæfðu námi í opinberri stjórnsýslu, sem er einhvers konar framhaldsnám í rekstri sveitarfélags."

Langar ekki í landsmálapólitík

-Sjálfstæðisflokkurinn er með hreinan meirihluta í Garðabæ. Þýðir það að þú ert laus við pólitískt þras og getur einbeitt þér að því að vera framkvæmdastjóri sveitarfélagsins?

"Stærsti hluti starfsins, um 90%, er framkvæmdastjórastarf. Það er þó erfitt að greina á milli, því bæjarstjórnin setur stefnuna og embættismenn framfylgja henni. Þar sem ég er bæjarfulltrúi og bæjarstjóri fæ ég bæði að taka þátt í stefnumótun og að ýta þeirri stefnu úr vör. Flesta daga fæ ég að vinna framkvæmdastjórastarfið í friði fyrir pólitísku dægurþrasi í góðri samvinnu við starfsfólk bæjarins og bæjarbúa. Nálægðin við grasrótina er mjög gefandi, við tökum ákvörðun í bæjarstjórn og sjáum hana komast í framkvæmd, jafnvel nokkrum dögum síðar. Hérna skynja ég að ég get haft áhrif. Ef þörf er á breytingum, þá er hægt að breyta. Það finnst mér ótrúlega skemmtilegt."

-Og koma þessi skemmtilegheit þá í veg fyrir að þú farir í landsmálapólitíkina, þar sem alltaf er verið að spá þér frama?

"Einu sinni sá ég viðtal við Steingrím Hermannsson, þar sem gömul ummæli voru hermd upp á hann, og hann sagðist hafa meint þau þegar hann sagði þau. Ég man að mér fannst þetta ábyrgðarlaust hjá honum þá, en það sama segi ég núna: Ég meina það þegar ég segi að mig langar ekki í landsmálapólitík. Ég vona að ég eigi eftir að vera lengi hér í Garðabæ, en hef ekki hugmynd um hvað gerist í lífi mínu að því loknu. Sveitarstjórnarmálin heilla mig mest, en ég ber virðingu fyrir hversu margir eru reiðubúnir að leggja sig fram um að taka þátt í landsmálunum. Það er feikilega mikilvægt að við eigum gott fólk á þingi. Ég hef aldrei séð mitt líf þannig að það sé einhver fyrirfram skilgreindur tröppugangur og ég endi um fimmtugt á Alþingi. Mig langar ekki að nálgast stjórnmál sem brauðstrit."

-Og vangaveltur annarra um hugsanlegan frama þinn í landsmálapólitík trufla þig ekkert?

"Nei, ég heyri að vísu ekki mikið af þessu, en hef séð svona vangaveltur í slúðurdálkum og einstaka maður nefnir þetta við mig. Ég hef stundum heyrt frambjóðendur vitna í það að "fjöldi fólks" hafi hvatt þá til að gefa kost á sér til þings. Ég hef aldrei orðið fyrir neinum óbærilegum þrýstingi í þá veru. Mér finnst auðvitað vænt um ef fólk treystir mér fyrir mikilvægum verkefnum, en slíkt tal hefur engin áhrif á mig. Þegar ég var í Bandaríkjunum var stundum hent gaman að orðatiltækinu: "Eftir því sem apinn klifrar hærra í trénu, þeim mun betur sést afturendinn á honum." Ég reyni að hafa báða fætur á jörðinni og veit að vinsældir manna í pólitík eru oft fljótar að hverfa."

Vonar að Davíð sitji áfram

-Hvern sérð þú sem arftaka formanns Sjálfstæðisflokksins, sem hefur setið manna lengst á forsætisráðherrastóli?

"Davíð Oddsson er enn ungur maður og margur maðurinn hefur fyrst sest í stól forsætisráðherra eldri en hann er núna. Hann hefur sterka sýn og hefur hrint mörgu í framkvæmd, en ég er nokkuð viss um að honum sjálfum finnst hann eiga ýmislegt ógert. Ég vona því að hann verði formaður flokksins enn um hríð og skil raunar ekki þetta tal um að hann fari að hætta. Ég hef enga trú á að svo verði í bráð. En Sjálfstæðisflokkurinn er með farsælan varaformann, Geir H. Haarde, sem nýtur hylli hjá þjóðinni og er vinsæll innan flokksins. Hann er staðgengill forsætisráðherra og eins og staðan er núna er líklegast að hann taki við."

-Stundum er sagt að mjög sterkur leiðtogi veiki innviði flokks síns.

"Leiðtogi, sem hefur verið jafn lengi og Davíð Oddsson forystumaður í stærsta stjórnmálaflokki landsins, verður óhjákvæmilega mjög afgerandi stjórnmálamaður. Hið sama átti við um Margaret Thatcher í Bretlandi, Ronald Reagan í Bandaríkjunum og nú Tony Blair í Bretlandi. Þegar svo sterkir leiðtogar hverfa frá myndast yfirleitt tómarúm á eftir. Það er ekki leiðtoganum að kenna, því þetta er nánast óumflýjanlegt lögmál. Hver þjóð hefur þörf fyrir sterka leiðtoga, sem eru trúir í störfum sínum og hafa sterka sýn. Hér, líkt og annars staðar, eru mun fleiri en forsætisráðherra í lykilhlutverkum í stjórnmálum, en fjölmiðlar persónugera pólitík mikið. Eftir störf með þingflokknum, í menntamálaráðuneytinu og á landsfundum flokksins veit ég að Davíð ræður ekki öllu í flokknum, eins og stundum er haldið fram. Hann kynnir stefnuna og er í forsvari. Hann er mjög næmur fyrir samfélaginu og stærsti hæfileiki hans er næmi fyrir tímasetningum. Það stafar af því að hann hlustar á fólk og skynjar púlsinn í samfélaginu."

Evrópumál og tilfinningar

-Ert þú alltaf sammála stefnu Sjálfstæðisflokksins í landsmálum?

"Oftast er ég það. Stærsti árangurinn er sá að hér hefur mönnum tekist að renna styrkum stoðum undir efnahagslífið sem áður einkenndist af miklum sveiflum, óvissu og sjóðasukki. Jákvæðar afleiðingar breytinganna eru góður hagvöxtur, lág verðbólga og lítið atvinnuleysi. Ég er mjög ánægð með skattalækkanir, minni miðstýringu og einkavæðingu, aukin framlög til aldraðra og öryrkja, sem var mjög tímabær aðgerð og er mjög sátt við þá kúvendingu sem hefur orðið í menntakerfinu á undanförnum árum undir forystu Björns Bjarnasonar. Ríkið getur nú einbeitt sér að framhalds- og háskólastiginu, samkeppnin og aginn eru að aukast og ég er viss um að það bætir menntun þjóðarinnar verulega. Mér finnst heilbrigðiskerfið hins vegar of veikt og ég myndi vilja sjá heildstæðari sýn í þjónustu við eldri borgara. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er ekki nægilega skýr, sveitarfélögin annast heimaþjónustu og ýmsa aðra þjónustu við aldraða, en ríkið er með heilsugæsluna og hjúkrunarheimilin. Afleiðingin er sú, að fjármagnið nýtist ekki nógu vel í þágu eldri borgara.

Af öðrum málum er helst að nefna að mér finnst umræðan um Evrópumálin stundum einkennast um of af miklum tilfinningum, sem ég held að skaði hana. Það skýrist hins vegar áreiðanlega að hluta af því hve stutt er síðan við fögnuðum að vera laus undan dönskum yfirráðum. Þeir sem nú eru við völd muna jafnvel þegar við fengum sjálfstæði og foreldrar þeirra, afar og ömmur, tóku virkan þátt í sjálfstæðisbaráttunni. Sjálfstæði Íslands er feikilega mikilvægt og okkur ber að varðveita það. Ég er algjörlega sammála þeirri niðurstöðu forsætisráðherra að við getum ekki gengið í Evrópusambandið eins og sjávarútvegsstefnu sambandsins er háttað. Sú stefna verður hins vegar ekki endilega uppi um aldur og ævi og við eigum nú að fara að velta fyrir okkur stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu til lengri tíma litið."

Uppbygging Garðabæjar

-Á síðustu árum hefur verið mikil uppbygging í Kópavogi og Hafnarfirði. Hvað með Garðabæ?

"Garðabær verður stór. Núna er þetta 8.500 manna sveitarfélag. Samkvæmt spám er gert ráð fyrir að Garðabær verði 20 þúsund manna bær eftir hálfan annan áratug. Í allri þessari uppbyggingu verður að gæta þess að sveitarfélagið veiti áfram góða þjónustu. Í náinni framtíð verður töluverð uppbygging, sem breytir ásýnd bæjarins. Hér verða til dæmis byggð töluvert mörg fjölbýlishús."

-Þú nefnir gott byggingarland. Hvað með land Vífilsstaða, sem liggur að Garðabæ en er í eigu ríkisins?

"Garðabær hefur óskað eftir að kaupa landið af ríkinu og viðræður við fjármálaráðuneyti eru nýhafnar. Þetta er glæsilegt land, sem bærinn vill nýta að stórum hluta sem útivistarsvæði, en einnig til uppbyggingar. Ríkið hefur hugmyndir um að nýta Vífilsstaðaspítalann sjálfan sem hjúkrunarheimili, en landið er stórt og býður upp á mikla möguleika."

-Hver er stefnan í uppbyggingu miðbæjar Garðabæjar?

"Miðbærinn hefur átt í erfiðleikum, hér eins og víða annars staðar. Með því að þétta byggðina í kring og fjölga íbúum trúum við að hann geti náð sér á strik. Að vísu hefur stemmningin í miðbænum í haust verið miklu betri en oft áður. Hér hefur verið meira líf og fjör. Við höfum ekki hug á að byggja upp nýjan miðbæ eða stórar verslunarmiðstöðvar. Við héldum íbúaþing nýlega. Þar kom skýrt fram hvernig bæ íbúarnir vilja; lágreistan, fjölskylduvænan bæ í góðri sátt við náttúruna. Þingið er náið samráð bæjarstjórnarinnar við íbúana og gaf okkur gott veganesti. Í raun tel ég íbúaþingið mikilvægan þátt í að skapa virkt lýðræði. Síðasta öld einkenndist af rýmkun kosningaréttar, konur og hjú fengu hann í byrjun aldarinnar og við lok hennar voru allir, 18 ára og eldri, með kosningarétt. Á nýrri öld vill fólk eðlilega hafa áhrif oftar en á fjögurra ára fresti og það er hægt á íbúaþingi. Íbúarnir tókust á flug við að móta framtíðarsýn, sem við getum svo unnið eftir."

-Hvaða þjónustu þarf bærinn að byggja upp þegar íbúatalan ríflega tvöfaldast á fimmtán árum?

"Fjögur verkefni hafa forgang. Í fyrsta lagi þjónusta við börn og unglinga í gegnum leikskóla, grunnskóla og íþrótta- og æskulýðsstarf. Við höfum sett þessi mál í forgang. Í haust voru börn, 15 mánaða og eldri, tekin inn í leikskólana og ekkert sveitarfélag hefur staðið þar eins myndarlega að verki og Garðabær. Afleiðingin er m.a. sú að grunnskólarnir hér eru eftirsóttir og hvergi annars staðar eru menntaðir kennarar jafn hátt hlutfall starfsmanna skólanna. Með þessari áherslu náum við góðum árangri í skólunum.

Annað verkefni, sem sveitarfélög eiga að setja í forgang, er þjónusta við eldri borgara. Tryggja þarf nægt framboð íbúða fyrir eldri borgara og ýmsa félagsþjónustu og tómstundir. Eldri borgurum fjölgar ört í Garðabæ, svo þessi málaflokkur stækkar ört. Við höfum, líkt og önnur sveitarfélög, veitt sérstakan afslátt af fasteignagjöldum. Nú vinnum við að fjárhagsáætlun næsta árs og höfum rætt verulega hækkun þessa afsláttar. Hugsanlega verður fyrirkomulaginu einnig breytt, þannig að fleiri njóti afsláttarins.

Í þriðja lagi verða sveitarfélög að sinna félagsþjónustu. Gott velferðarkerfi í bænum er mikilvægt og við höfum skilgreint betur ýmsar reglur um hvenær einstaklingar eiga rétt á þjónustunni, svo það fari ekkert milli mála.

Í fjórða lagi eiga sveitarfélög að annast skipulags- og umhverfismál.

Sveitarfélög sinna svo auðvitað ýmsu öðru, eins og menningarmálum. Í mínum huga eiga sveitarfélög fyrst og fremst að einbeita sér að því að vera þjónustustofnanir fyrir íbúana, en ekki vera í ýmiss konar fjárfestingum og þátttöku í fyrirtækjarekstri. Því geta aðrir sinnt jafn vel og jafnvel miklu betur."

Þolinmæði og skipulag

-Í bók þinni Í hlutverki leiðtogans fjallaðir þú um ólíkan stjórnunarstíl ýmissa íslenskra leiðtoga, styrkleika þeirra og veikleika. Hvernig lýsir þú sjálfri þér sem leiðtoga?

"Ég hef ákveðnar grundvallarreglur í stjórnun. Mér finnst mikilvægast að ég sem bæjarstjóri tryggi að samstarfsfólk og stofnanir bæjarins skynji ábyrgð sína gagnvart bæjarbúum og veiti góða þjónustu, en fái frelsi og svigrúm til sjálfstæðis í ákvarðanatöku. Ég vil að samstarfsmenn mínir njóti sín í starfi. Ég þarf að hafa góða yfirsýn, en hef enga þörf fyrir að vera með puttana í öllu. Varðandi gallana, þá hef ég í gegnum tíðina reynt að beisla óþolinmæðina, sem einkenndi mig áður fyrr. Á Morgunblaðinu var ágætt að vera óþolinmóð, þar fékk ég verkefni að morgni sem ég skilaði af mér að kvöldi. Þegar ég fór að vinna á Alþingi og síðar í menntamálaráðuneytinu átti ég dálítið erfitt með að hemja óþolinmæðina, þar eru mörg verkefni þess eðlis að þau taka drjúgan tíma. Sjálfsagt kvarta sumir enn undan því að ég vilji að hlutirnir gerist of hratt, en ég tel mig hafa náð ágætum tökum á óþolinmæðinni."

-Sumir halda því fram að þú sért svo metnaðargjörn að þú munir ekki standast frýjunarorðin, verðir þú kölluð í landsmálapólitíkina.

"Hvað er að vera metnaðargjörn? Ég viðurkenni að ég vil ná árangri. Að loknum vinnudegi vil ég geta sagt við sjálfa mig að ég hafi tekið þátt í að bæta samfélagið í þágu einstaklinganna. Ég mæli ekki árangur í starfstitlum og embættum og kannski á ég eftir að fara að starfa við eitthvað allt annað en ég hef áður gert. Ég verð eflaust sátt, svo framarlega sem ég get lagt eitthvað af mörkum á nýjum vettvangi. Þetta hljómar kannski klisjukennt, en ég hef áttað mig á að ég hef leitað í stjórnmálin af því að mig langar til að bæta umhverfið, ég vil leggja mitt af mörkum til að fleiri fái tækifæri og það er hægt að gera í gegnum margs konar störf."

rsv@mbl.is