Fjórða myndin fyrir fimmtuga hetju: Pierce Brosnan ræðst gegn illþýðinu.
Fjórða myndin fyrir fimmtuga hetju: Pierce Brosnan ræðst gegn illþýðinu.
PIERCE Brosnan reyndi mjög að vera svalur en um leið djúpur. Mér fannst hann eiginlega vera enn að leika James Bond þegar ég átti við hann sjónvarpsviðtal í tilefni af frumrauninni GoldenEye fyrir sjö árum.

PIERCE Brosnan reyndi mjög að vera svalur en um leið djúpur. Mér fannst hann eiginlega vera enn að leika James Bond þegar ég átti við hann sjónvarpsviðtal í tilefni af frumrauninni GoldenEye fyrir sjö árum. Í viðtalinu lagði hann þunga áherslu á að í túlkun sinni á Bond kafaði hann ofan í sára reynslu og sálarangist sem mallaði undir hörkulegu yfirborði njósnarans. Hann vildi gera hann að manni en ekki bara töff hetju. Þetta heyrði ég Brosnan segja en sá þess hins vegar ekki stað í túlkun hans á tjaldinu.

Eftir þrjár myndir til viðbótar hefur Pierce Brosnan aðlagað sig hlutverkinu. Honum líður betur í því, er afslappaðri. Það sést á nýju myndinni, Die Another Day, hvað sem um hana má að öðru leyti segja. Það sést líka að Brosnan er ekkert unglamb lengur og spurning hvort hann getur þóst vera ofurmenni framyfir fimmtugsafmælið. Die Another Day er síðasta Bond-myndin sem hann er samningsbundinn til að leika í. En bæði hann og framleiðendur myndanna hafa lýst áhuga á að endurnýja samninginn.

Brosnan hefur hins vegar gætt sín á því að verða ekki innlyksa í hlutverkinu, öfugt við t.d. Roger Moore sem hélt hann gæti leikið alvarleg hlutverk með því einu að setja upp gleraugu. Brosnan gerði óbeint grín að Bond-ímynd sinni með því að leika enn viðsjárverðari og ófyrirleitnari njósnara í The Tailor Of Panama og hefur styrkt stöðu sína í kvikmyndaheiminum almennt með því að stofna eigið framleiðslufyrirtæki. Þriðja myndin sem Brosnan framleiðir heitir Evelyn og er að hans sögn sú metnaðarfyllsta og persónulegasta til þessa. Myndin gerist á Írlandi sama ár og hann fæddist, 1953, og segir sanna sögu af einstæðum föður, sem Brosnan leikur sjálfur, og baráttu hans fyrir börnum sínum eftir að ótrú eiginkona hefur yfirgefið fjölskylduna. Bruce Beresford leikstýrir en Evelyn verður frumsýnd í Bandaríkjunum síðar í mánuðinum og í Bretlandi næsta vor.

Fortíðin í farangrinum

Efni myndarinnar hefur verið tengt við æsku Brosnans sem ólst upp við fátækt og rótleysi. Eftir að faðir hans hvarf á braut þegar hann var aðeins tveggja ára og ári síðar móðirin einnig, sem fór til Englands að læra hjúkrun, var honum komið fyrir hjá afa og ömmu. Þegar þau féllu frá hraktist drengurinn milli fjarskyldari ættingja og fósturforeldra en erfiðasti tíminn var þó hjá Kristsmunkum sem fóru illa með hann. Þegar skóla þeirra var lokað vegna blaðaskrifa um ómannúðlega meðferð á nemendum fór Brosnan í humátt á eftir móður sinni til London. Þar fann hann fyrst undirstöðu fyrir líf sitt í leiklist.

Pierce Brosnan hefur sigrast á þessari fortíð og svo virðist sem hún hafi, þrátt fyrir allt, styrkt hann. Hann hefur ekki fallið í ofneyslu fíkniefna eða áfengis og einkalíf hans hefur verið tiltölulega friðsamt, miðað við stjörnur skemmtanaiðnaðarins. Hann á nú þrjú börn, þar af tvo syni með eiginkonu sinni, blaðakonunni Keely Shaye Smith, og býr í Los Angeles.

Þegar ég hitti Brosnan fyrir sjö árum fannst mér hann kurteis og fágaður, rétt eins og Bond er á yfirborðinu, en þörf hans fyrir að finna dýpt í hlutverkinu gerði sumt sem hann sagði dálítið tilgerðarlegt. En þegar ég dró upp úr vasanum litla flösku af íslensku brennivíni og spurði hvort hann gæti ekki hugsað sér að drekka það í staðinn fyrir Martini, hrærðan en ekki hristan, lifnaði yfir leikaranum. Hann datt út úr hlutverkinu, brosti út að eyrum og opnaði flöskuna. Klukkan var tíu að morgni en Pierce Brosnan fékk sér vænan sopa af svartadauða, horfði framan í myndavélina og sagði: "Þessu gæti ég vanist."