SVEITARFÉLÖGIN í landinu tapa nú útsvarstekjum vegna mikillar fjölgunar einkahlutafélaga, að sögn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga.

SVEITARFÉLÖGIN í landinu tapa nú útsvarstekjum vegna mikillar fjölgunar einkahlutafélaga, að sögn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann telur að tekjurnar muni á ári minnka um allt að einn milljarð króna, frá síðasta ári. Heimildir til að stofna einkahlutafélög voru rýmkaðar um síðustu áramót og tekjuskattur lækkaður úr 30% í 18%, auk þess sem hægt var að færa eigur sínar yfir í einkahlutafélög án þess að greiða af því skatta.

Vilhjálmur segir að það sé umhugsunarefni fyrir stjórnvöld ef upp sé komið ójafnræði milli skattgreiðenda. Svo virðist sem hinir hefðbundnu skattgreiðendur séu að taka á sig sífellt stærri hluta af kökunni. Áhrifin eru meiri á minni sveitarfélög þar sem margir einyrkjar eru að störfum, á borð við smábátasjómenn.

Minnka skattstofn sinn

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, bendir á að með stofnun einkahlutafélags séu einstaklingar að minnka skattstofn sinn og búa til kostnað sem ekki var hægt áður, eins og að leigja hluta af húsnæði sínu undir einkahlutafélagið. Kristinn kannaði á sínum tíma áhrif þessa á sveitarfélögin. Tók hann dæmi um smábátasjómann í Snæfellsbæ með um 3,5 milljónir króna í árstekjur. Áður hefði hann greitt 600-700 þúsund krónur í útsvar til sveitarfélagsins en með stofnun einkahlutafélags hefði hann áætlað sér lágmarkslaun og fór útsvarið þá niður í um 150 þúsund krónur. Kristinn tók fram að dæmið væri frá því áður en fjármálaráðherra hækkaði viðmið til að áætla sér tekjur um síðustu áramót en þetta gæfi engu að síður vísbendingu um þróunina.

"Enginn getur mótmælt því ef Jón Jónsson ehf. greiðir kostnað fyrir Jón Jónsson. En þetta er hrópandi óréttlæti gagnvart samborgurunum. Einn er kannski venjulegur launamaður á meðan nágranninn dregur allan sinn kostnað frá áður en hann fer að greiða til samfélagsins," segir Kristinn.