Þuríður (Dúa) Elíasdóttir Mountain var fædd á Fossi í Mýrdal 5. mars 1919. Hún lést í Edinborg í Skotlandi 20. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Sigríður Vigfúsdóttir, f. 1893, d. 1972, og Elías Einarsson, f. 1893, d. 1922. Bræður Dúu eru Ragnar f. 1917, og Einar, f. 1921. Elías faðir þeirra dó þegar Dúa var þriggja ára og leystist þá heimilið upp og syskinahópurinn tvístraðist. Dúa fluttist með ömmu sinni og afa til Vestmannaeyja og ólst þar upp. Hún fluttist 14 ára til Reykjavíkur, bjó hjá föðursystur sinni Höllu Einarsdóttur og Þorleifi manni hennar þar til hún flytur til útlanda. Hún gekk í Verslunarskólann og lauk þaðan námi. Vann nokkur ár í Laugavegsapóteki.

Á stríðsárunum gekk Dúa í hjónaband með Raymond Mountain, f. 1915. Hann er látinn. Raymond var yfirforingi í breska hernum og lögfræðingur að mennt. Hún fluttist til Englands 1944. Börn þeirra Raymonds urðu fjögur: Robert, f. 18. apríl 1944, Þorey Erla, f. 5. feb. 1946, Linda Alison, f. 25. ágúst 1950, d. 1998, og Karen, f. 3. júní 1959. Eftir að börnin voru uppkomin vann hún í verslun í London í nokkur ár. Dúa og Ray slitu samvistum og fluttist hún þá til Edinborgar í Skotlandi árið 1984, þar sem dætur hennar búa.

Útför Þuríðar fór fram í Edinborg 26. nóvember.

Okkur langar að minnast vinkonu okkar Dúu Montain með þakklæti og virðingu. Oft er gildi hins lifaða lífs hugleitt, þegar aflvakinn sem knúði huga og hönd er hættur að starfa. Því vekja hugleiðingar okkar nú við lát hennar margar minningar enda spannar vinátta okkar og fjölskyldu hennar áratugi. Við kynntumst Dúu fyrst árið 1953. Hún bjó þá í Bromley í Kent ásamt eiginmanni sínum Ray og börnunum sem voru þá þrjú. Robert, Þorey og Linda.

Við vorum nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar og fórum til Englands til náms og starfa. Byrjuðum að vinna á Bromley Hospital sem er sunnan við London. Það varð okkur til mikillar gæfu að kynnast fljótlega Dúu og fjölskyldu hennar. Þau reyndust okkur afar vel. Dúa kynnti okkur fyrir íslenskum konum, sem bjuggu í London og nágrenni. Þau hjónin voru óþreytandi að upplýsa okkur og benda á marga merka staði. Ógleymanleg er ferð með þeim um Kent vorið ´54. Kent er kallaður aldingarður Englands vegna mikillar ávaxtaræktar og blómaskrúðs. Eins eru minnisstæðar fallegu rósirnar í garðinum þeirra í Bromley.

Dúa var falleg kona og þau hjónin voru glæsilegt par. Hún var góð kona, vel að sér og skemmtileg. Heimilisbragurinn er okkur minnisstæður. Dúu tókst á einstakan hátt að blanda saman íslenskum og enskum siðum. Börnin voru frjálsleg, en kurteis og háttvís. Aldrei heyrðum við Dúu hækka róminn við þau. Samskiptin gengu eitthvað svo ljúflega og átakalaust fyrir sig. Seinna eignuðust Dúa og Ray fjórða barnið, Karen.

Við fluttumst eftir árið í Bromley til Edinborgar og unnum þar annað ár, en fórum í fríum til Bromley og bjuggum þá hjá Dúu og Ray.

Þau áttu miklu barnaláni að fagna og eru þau öll vel gerð og menntað fólk.

Fyrir fjórum árum varð hún fyrir þungu áfalli, þá dó dóttursonur hennar af slysförum og Linda dóttir hennar dó þremur vikum seinna, úr illkynja sjúkdómi. Dúa var óvenju sterk kona. Börn hennar og tengdabörn voru henni mikill styrkur og stóðu þau öll þétt saman í þessari miklu raun og einnig í hinu daglega lífi. Studdu þau hana með ráðum og dáð, til hinstu stundar. Dúa var stolt af þeim og þeirra fjölskyldum. Barnabörnin voru henni mikill gleðigjafi og talaði hún oft um þau.

Hún var mikill Íslendingur alla tíð en það heyrðist aldrei á mæli hennar, að hún hefði búið mikinn hluta ævi sinnar í útlöndum. Hún og börnin heimsóttu oft Ísland og styrktu vináttuböndin við ættingja og vini.

Að endingu þökkum við Dúu fyrir alla vináttuna og tryggðina sem hún sýndi okkur og biðjum guð að blessa börn hennar, tengdabörn og afkomendur alla.

Sigurlín Gunnarsdóttir,

Þorgerður Brynjólfsdóttir.

Sigurlín Gunnarsdóttir, Þorgerður Brynjólfsdóttir.