Hugborg Þuríður Benediktsdóttir fæddist á Kambsnesi í Laxárdal í Dalasýslu 27. febrúar 1922. Hún lést á Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi 23. október síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Selfosskirkju 2. nóvember.

Hugborg vinkona mín er dáin eftir stutt og strangt sjúkdómsstríð. Ég kynntist henni þegar ég var unglingur og vann hjá þeim hjónum, henni og Óla, og var þá einnig í fæði hjá þeim.

Kynni okkar Hugborgar endurnýjuðust svo í kvenfélaginu hérna, en þar vorum við í stjórn saman og einnig í fjáröflunarnefnd félagsins í nokkur ár, með nokkrum góðum konum. Við héldum basara, stóðum fyrir kvennahlaupi og síðast en ekki síst gáfum við út dagbókina Jóru. Oft var mikið að gera hjá okkur í þessu fjáröflunarstarfi, en þetta var skemmtilegt og gefandi samstarf, sem við höfðum gaman af að rifja upp.

Hugborg var áhugasöm, jákvæð, glaðlynd og hreinskiptin, hafði ákveðnar skoðanir en tróð þó ekki á skoðunum annarra. Kappsemi hennar var smitandi, svo og jákvæðnin og áhrif hennar í hópnum voru góð, sem skilaði sér í frjóum hugmyndum og góðum framkvæmdum.

Mér þótti vænt um hana og sakna hennar, samskiptanna við hana, heimsóknanna og spallsins hér og þar. Hún hafði svo mikið af hlýju og umhyggju, það var gott að eiga hana að vini.

Ég sendi Óla og fjölskyldunni allri mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Guð blessi Hugborgu og allar góðu minningarnar um hana.

Erna.

Hugborg amma mín er látin. Hún hafði um nokkurt skeið barist hetjulega við sjúkdóm sem að lokum hafði betur.

Þær eru margar minningarnar um hana ömmu sem leita upp í huga minn þessa dagana. Við barnabörnin þeirra ömmu og afa höfum alltaf verið aufúsugestir á Lækjartúni. Þegar við systkinin í Hlöðutúni vorum lítil vorum við mikið á Lækjartúni hjá afa og ömmu. Amma gaf sér alltaf tíma til þess að lesa fyrir okkur er við vorum yngri og kenndi hún okkur líka að spila og margt fleira Það var alltaf gaman á Lækjartúni og óteljandi minningar sem hægt er að rifja upp. Það er þó ein minning sem er mér efst í huga. Í minni fjölskyldu er hefð að hafa rjúpur í matinn á aðfangadagskvöld. Ég og amma höfðum það fyrir venju að hittast á Þorláksmessumorgun til þess að hamfletta og gera að rjúpunum. Hún kenndi mér öll nauðsynleg handtök sem þurfa þykir í þeim efnum og þá spjölluðum við um daginn og veginn og ýmis framtíðaráform. Ég mun aldrei gleyma þessum Þorláksmessumorgnum, þessar stundir mun ég varðveita og búa að um aldur og ævi.

Amma hafði mikinn karakter, hún var dugleg og greind kona. Fjölskyldan var henni mjög mikilvæg og ræktaði hún fjölskylduböndin af mikilli alúð. Amma var óeigingjörn og ætíð tilbúin að aðstoða þá sem á þurftu að halda. Það er með söknuði sem ég kveð ömmu í hinsta sinn en þó er það mér huggun að vita að nú er hún í góðum höndum Guðs. Ég bið Guð um að vaka yfir afa og veita honum styrk í sorg hans.

Þinn sonarsonur,

Hjalti Jón Kjartansson.

Erna.