3. desember 2002 | Myndlist | 957 orð | 1 mynd

MYNDLIST - Listasafn Reykjanesbæjar

Líflegur Gullpensill í Reykjanesbæ

MÁLVERK, GULLPENSILLINN, SAMSÝNING FJÓRTÁN LISTAMANNA

Verk Þorra Hringssonar, "Á Flesjunum", á sýningu Gullpensilsins.
Verk Þorra Hringssonar, "Á Flesjunum", á sýningu Gullpensilsins.
Til 8. desember. Sýningin er opin alla daga frá kl. 13-17.
ÁRIÐ 1999 komu saman fjórtán listamenn sem eiga það sameiginlegt að vinna verk sín innan ramma málaralistarinnar, markmið þeirra voru umræður innan hópsins, hvatning og sýningarhald. Fyrsta sýning þeirra var haldin í Gallerí Gangi sama ár, síðan hefur hópurinn sýnt á Kjarvalsstöðum, í Berlín, á Siglufirði og í Færeyjum. Nú hefur nýstofnað Listasafn Reykjanesbæjar boðið hópnum að sýna og er það sjötta sýning hans. Þetta er aðeins önnur sýning safnsins og er því hér með óskað velfarnaðar með starfsemi sína en það er gleðilegt þegar nýr boðssýningarsalur bætist við þá fáu sem þegar eru á landinu.

Félagar í Gullpenslinum hafa allir verið virkir á sínum vettvangi um árabil, sumir lengur en aðrir en allir eiga þeir það sameiginlegt að nálgast listina af mikilli alvöru og segja má að hver um sig fáist við rannsóknir og sköpun á sínu sviði. Hver sýning þeirra er því mjög áhugaverð fyrir almenning sem fær tækifæri til að kynna sér verk fjórtán málara á einu bretti. Ég velti því þó aðeins fyrir mér af hverju konurnar í hópnum séu aðeins þrjár?

Þau JBK Ransu, Sigtryggur Bjarni Baldvinsson og Inga Þórey Jóhannsdóttir sækja öll á einhvern hátt til fortíðar í myndum sínum, JBK Ransu notar tungumál op/poplistarinnar, Sigtryggur Bjarni sömuleiðis, en blandar verk sín einnig náttúrumótífum. Inga Þórey Jóhannsdóttir heldur áfram á sinni sérstæðu braut í rannsóknum sínum á litum og formum og áhugavert að fylgjast með hverju nýju verki hennar. Á öðrum slóðum er Sigríður Ólafsdóttir sem hefur fengið mjög lofsamlega dóma fyrir málverk sín af íslenskum fjölskyldum, þar er ríkur efniviður fyrir áhugaverða listsköpun. Jóhann Ludwig Torfason beitir tölvutækni við gerð mynda sinna og er sá í hópnum sem helst byggir myndir sínar á einhvers konar frásögn en að auki má nefna þar til Helga Þorgils Friðjónsson sem hér sækir efnivið sinn í Biblíuna.

Náttúran sem einhvers konar hugleiðsluástand birtist í verkum þriggja listamanna, undurfallegt verk Þorra Hringssonar vekur upp þrá eftir liðnum sólskinsdögum um leið og það kemur kyrrð á hugann. Líkt og þau JBK Ransu, Sigtryggur Bjarni og Inga Þórey sækja að nokkru leyti til fortíðar gerir Þorri það einnig með því að leita fanga í ævistarfi föður síns og halda áfram með starf hans ef svo má segja. Það er spennandi að sjá hvernig verk hans líkjast málverkum Hrings Jóhannessonar að hluta til en einhvers staðar skilur algjörlega á milli svo ný verk verða til. Þetta sýnir vel hversu miklir möguleikar eru enn óplægðir í íslenskri landslagsmálun. Málverk Þorra eru raunsæ að mestu leyti en búa einnig yfir annarri vídd, dreymni og rómantík, smáatriðin leysast upp í liti og birtu sem er annars heims. Málverk Georgs Guðna eru núorðið mörgum kunn, einnig hér er náttúran eins konar griðastaður eða ímyndað hugarástand. Kristín Gunnlaugsdóttir er í verkum sínum fjær raunveruleikanum eins og við þekkjum hann en þó finnst mér að megi finna svipað hugarástand í landslagsverki hennar af hvítu fjalli; eins og verk hinna tveggja býður það upp á kyrrð og ró, kallar fram hugleiðsluástand.

Eggert Pétursson sýnir hér litla og fallega mynd í anda þeirra blómaverka sem hann hefur unnið á liðnum árum en verk hans eru frábært framlag til íslenskra landslagsmálverka.

Hjá Sigurði Árna kemur fram nostalgía þegar hann festir óefniskennt augnablik á strigann. Það er eftirtektarvert að í þessum skuggamyndum vitnar hann einnig í verk Hrings Jóhannessonar líkt og Þorri gerir. Mynd Sigurðar Árna sem sjá má í sýningarskrá og sýnir skugga manns er nánast nákvæm eftirlíking af málverki eftir Hring Jóhannesson. Sigurður Árni er þó enn innan þess ramma sem hann hefur gert um verk sín, þar sem hann rannsakar það sem er og það sem ekki er. Ætíð má lesa málverk hans á fleiri en einn veg.

Daði Guðbjörnsson er á svipuðum nótum og hann hefur verið lengi. Nú eru nýjungar ekki alltaf af hinu góða og alls óþarft að listamenn séu ávallt að koma með eitthvað nýtt nýjunganna vegna, eins og ljóslega kemur fram hér að ofan. En ég gæti þó ímyndað mér að Daði ætti eitthvað í pokahorninu sem hann og við höfum ekki enn séð.

Flest verkin á sýningunni eru ný af nálinni og því kemur á óvart að Hallgrímur Helgason kýs hér að sýna þrettán ára gamalt verk. Óneitanlega hefði verið áhugaverðara að fá að sjá hvað Hallgrímur er að fást við í dag.

Listamennirnir í Gullpenslinum eru mjög ólíkir sín á milli. Mér sýnist sem að á sínum tíma hafi verið hóað saman nokkrum sem voru að mála, sem eitthvað þekktust og héldu sig geta átt einhver samskipti og það er auðvitað gott og gilt. En nú hefur hópurinn haldið sex sýningar með þessu formi óbreyttu og það er spurning hvort ekki sé grundvöllur fyrir að vinna markvissara á einhvern hátt. Listamennirnir sjálfir eru bestu listfræðingarnir og kúratorarnir og mættu sýna það oftar í verki. Nú eru til dæmis nokkrir í hópnum sem leita á vissan hátt aftur til fortíðar í verkum sínum og kannski væri áhugavert að sjá verk þeirra við hlið þess sem á undan er gengið, hvort sem það væru verk lífs eða liðinna listamanna. Og kannski væri hægt að taka fleiri inn í hópinn, stofna hóp út frá hópnum eða hvað veit ég. Möguleikarnir eru óþrjótandi í þeim efnum sem öðrum.

Sýningin í heild er af þessum sökum óhjákvæmilega dálítið sundurlaus. Húsnæðið er ágætt en býður ekki upp á að hver listamaður sýni fleiri en eitt verk. Listamennirnir mættu því að ósekju leggja meiri áherslu á að hafa kynningarefni um önnur verk sín til hliðsjónar verkunum á sýningunni. Sumir gera það en langt frá allir. Ekki er ólíklegt að á sýningu sem þessa komi nokkuð margir sem ekki þekkja verk allra listamannanna fyrir, en vilji gjarnan kynna sér þau betur. Það er a.m.k. vonandi að sem flestir líti inn í nýja safnið í Duushúsum í Reykjanesbæ.

Ragna Sigurðardóttir

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.