Íþróttaálfurinn
Íþróttaálfurinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Latibær er kominn með nýjan svip og hafa bæjarbúar fengið bandarísk nöfn og útlit. Inga Rún Sigurðardóttir ræddi við Ágúst Frey Ingason framkvæmdastjóra um útrásina.

LÍF og fjör er í kringum Latabæ þessa dagana og þurfa Bandaríkjamenn hugsanlega ekki að bíða lengi eftir tækifæri til að kynnast Íþróttaálfinum, Sollu stirðu, Gogga mega og Glanna glæp, eða Sportacus, Stephanie, Pixel og Robbie Rotten eins og þau heita á ensku.

Fyrirtækið Latibær hefur látið gera svokallaðan "pilot" eða kynningarþátt um þetta sköpunarverk Magnúsar Scheving þar sem blandað er saman brúðum, leikurum og þrívíðum teiknimyndaheimi.

Magnús er sjálfur í hlutverki Íþróttaálfsins, sem er nú meiri ofurhetja en álfur, og Stefán Karl Stefánsson leikur Glanna glæp í kynningarþættinum. Solla stirða er einnig úr holdi og blóði en aðrar persónur eru brúður.

Búið að gera kynningarþátt

Vonast er til þess að þáttaröð verði framleidd eftir hugmyndinni en Magnús hyggst þó ekki taka að sér hlutverk Íþróttaálfsins ef af verður.

"Næsta skref er að fara með þennan pakka á sjónvarpsstöðvar," segir Ágúst Freyr Ingason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Ennfremur hefur verið gerð sérstök bók, "show bible", þar sem hugmyndafræði Latabæjar er kynnt nánar.

Efnið verður kynnt helstu barnasjónvarpsstöðvum í Bandaríkjunum og Bretlandi. "Þetta ferli er að fara í gang núna," útskýrir Ágúst en segir að það geti þess vegna tekið hálft ár að fá niðurstöðu úr viðræðunum við sjónvarpsstöðvarnar.

"Við höfum mikla trú á því að þetta höfði til fólks," segir hann, enda virðist jákvæður boðskapur Latabæjar eiga vel við í umræðunni um offitu barna og litla hreyfingu, sem hefur farið hátt að undanförnu.

"Það er líka margt í gangi í Latabæ þótt þar sé ekkert ofbeldi. Boðskapurinn um að hreyfa sig og borða hollan mat er ráðandi," segir Ágúst, sem útskýrir að tekin séu fyrir margs konar atriði er varði uppeldi barna.

Langt á undan í heilsumálunum

"Það eru til sjónvarpsþættir, sem taka á einhverjum þessara uppeldisþátta en það sem við höfum umfram aðra er að taka á heilsumálunum. Þar erum við langt á undan öðrum," leggur Ágúst áherslu á og segir að sambærilegt efni sé ekki til í Bandaríkjunum.

Hann bætir við að boðskapurinn hjá Latabæ sé heldur ekki of augljós. "Hann kemur fram án þess að börnin geri sér grein fyrir því. Þau hafa valið. Þetta er engin prédikun eða öfgar."

Fyrstu bækurnar um Latabæ komu út árið 1995 og hafa því bæjarbúar fengið góðan tíma til að þroskast. "Þessi vinna núna hefur síðan verið í gangi í tæplega ár en frá febrúar hefur verið unnið að þessu af fullum þunga."

Breska fyrirtækið Artem bjó til brúður af Gogga mega, sem er nú dökkur á hörund, og Sigga sæta, sem er orðinn enn sætari. "Við höfum gert leirstyttur af hinum svo það sé hægt að gera sér grein fyrir því hvernig brúðurnar eigi eftir að líta út," segir Ágúst en brúðugerðin er dýr.

Höfundur frá Sesame Street

Hann segir að höfuðáhersla hafi verið lögð á að gera úrvalsefni og finna rétta samstarfsfólkið. Sem dæmi má nefna að Norman Stiles er aðalrithöfundur þáttanna. "Hann var aðalhöfundur hjá hinum þekktu Sesame Street-barnaþáttum í nærri tvo áratugi og fékk fyrir starf sitt 11 Emmy-verðlaun," segir Ágúst.

Íbúar Latabæjar hafa þó ekki gleymt íslenskum vinum sínum en Útvarp Latibær er í fullum gangi og komið í jólaskap. "Þetta er ein af fáum útvarpsstöðum fyrir börn í heiminum," segir Ágúst en þeir sem vilja kynnast Latabæjarbúum nánar geta stillt á FM 102,2.

ingarun@mbl.is