"Nafn Axels Andréssonar hefur því miður oft gleymst þegar frumherja knattspyrnunnar er getið; einnig handboltans."

Við biðum með óþreyju eftir þér hér því allir þig þráðu að vonum, og komu þess manns sem að álitinn er með Íslands djörfustu sonum. Og knattspyrnan upplífgar ungdómsins sál og auðgar að gleði og mætti. Og hún er sú íþrótt sem þörf er og þjál og þjóðir um aldir hún bætti. Og göfug er lund þín og göfug þín svör, af göfugri Íslendings tungu. Og hvar sem þú lifir er leikur og fjör, þú leiðir til gleði þá ungu. Þú stendur á velli sem óbrigðul eik og enginn á þróttinum tapar. Þú gerir oss taman þann göfuga leik, sem giftu og heilbrigði skapar. Sá æskunnar vin, sem við kveðjum í kvöld, og kærasta vinsemd við bárum. Hann minnir á fornkappans framfara öld og frægð, sem er liðin að árum. Sá jöfur er veitti þér þol móti þraut og þig lét ei mótlætið baga. Hann lýsi þér Axel, á lukkunnar braut, og landið mun auðga þín saga.

NÚ eru liðin 70 ár frá því að einn af frumkvöðlum knattspyrnunnar á Íslandi, Axel Andrésson, flutti til Akraness. Hann var búsettur hér frá 1933 til 1941 og markaði hann strax djúp spor í íþrótta- og æskulýðsstörfin. Axel átti eftir að hafa meiri áhrif á framgang knattspyrnunnar á Akranesi en nokkur annar á undan honum, bæði þau 8 ár sem hann var búsettur hér og einnig við sendikennslu allt fram á sjötta áratuginn.

Axel var fyrsti formaður Knattspyrnufélagsins Víkings, en hann átti stærstan þátt í því að félagið var stofnað, enda oft kallaður fyrsti Víkingurinn. Axel hefur lengst allra verið formaður Víkings og lengi aðalþjálfari félagsins auk þess sem hann tók dómarapróf. Hann þjálfaði úrvalslið úr félögunum í Reykjavík árið 1930, en það var fyrsti íslenski knattspyrnuflokkurinn sem fór til keppni á erlendri grund.

Íþróttaráð Akraness var stofnað 1934 og var Axel fyrsti formaður þess. Hann hóf að þjálfa keppnisflokka, bæði hjá K.A. og Kára, hélt námskeið í knattspyrnu og einnig námskeið fyrir dómara. Mikið líf færðist í alla íþróttastarfsemi á Akranesi við komu Axels, sem birtist m.a. í því að um svipað leyti var nýja vallarsvæðið byggt upp á Jaðarsbökkum og formlega tekið í notkun 1935. Sú framkvæmd varð reyndar byrjunin á þeirri miklu uppbyggingu íþróttamannvirkja, sem síðan hefur staðið yfir á Akranesi.

Axels-kerfið

Árið 1941 réðst Axel sem sendikennari Í.S.Í. í knattspyrnu og handknattleik. Fljótlega mótaði hann kerfi sem hann notaði við kennsluna, og sem talin voru taka mjög fram fyrri aðferðum í þessum efnum. Urðu kerfi þessi landskunn, kennd við Axel og kölluð Axelskerfin. Það er talið að Axel hafi kennt 15 þúsund ungmennum samkvæmt kerfunum á rúmlega 15 ára tímabili. Á sumrum starfaði hann fyrir íþróttafélögin vítt og breitt um landið, en á vetrum í hinum ýmsu skólum, til sjávar og sveita. Alls staðar var hann aufúsugestur og allir kepptust við að fá hann til sín. Má með sanni segja að Axel hafi átt hvað mestan þátt í hinum vaknandi áhuga æskunnar fyrir knattleikjum.

Í stuttu máli má segja að hann hafi gert æfingarnar að leik sem hann felldi svo í kerfi. Hann lagði rækt við að kenna réttar leikreglur og drengilega framkomu í leik auk þess að kenna ýmsa tækni í knattmeðferð. Sjálfur sagði Axel: "Ég setti aðalkerfið saman strax 1941 og handknattleikskerfið árið eftir. Vöggukerfið svokallaða handa yngstu nemendunum setti ég saman 1947. Því kerfi mætti líkja við það þegar börnin eru að læra að stafa, allt undirstöðuatriði. Börnin læra að hlýða og koma vel fram, feimnin hverfur og sjálfstraustið eykst. Keppni kemur fram á öllum stigum kerfisins, en hún er þó ekki markmiðið, heldur drengilegur leikur. Keppendur eru fyrst og fremst allir vinir og félagar" sagði Axel.

Axel hylltur af Þorsteini frá Hamri

Þann 4. febrúar 1954 var Axel haldið samsæti í Reykholtsskóla og voru þar margar ræður haldnar. Einn nemandinn, Þorsteinn Jónsson, 15 ára gamall, las þar frumort kvæði, sem sennilega hefur ekki birst á prenti áður:

Við biðum með óþreyju eftir þér hér

því allir þig þráðu að vonum,

og komu þess manns sem að álitinn er

með Íslands djörfustu sonum.

Og knattspyrnan upplífgar ungdómsins sál

og auðgar að gleði og mætti.

Og hún er sú íþrótt sem þörf er og þjál

og þjóðir um aldir hún bætti.

Og göfug er lund þín og göfug þín svör,

af göfugri Íslendings tungu.

Og hvar sem þú lifir er leikur og fjör,

þú leiðir til gleði þá ungu.

Þú stendur á velli sem óbrigðul eik

og enginn á þróttinum tapar.

Þú gerir oss taman þann göfuga leik,

sem giftu og heilbrigði skapar.

Sá æskunnar vin, sem við kveðjum í kvöld,

og kærasta vinsemd við bárum.

Hann minnir á fornkappans framfara öld

og frægð, sem er liðin að árum.

Sá jöfur er veitti þér þol móti þraut

og þig lét ei mótlætið baga.

Hann lýsi þér Axel, á lukkunnar braut,

og landið mun auðga þín saga.

"Ekki á færi annars en Axels"

Nafn Axels Andréssonar hefur því miður oft gleymst þegar frumherja knattspyrnunnar er getið; einnig handboltans. Hans er t.d. hvergi getið í Alfræðisafni Menningarsjóðs um íþróttir, þar sem margir minni spámenn fá vandlega umfjöllun. Axel var sérstæður persónuleiki, skemmtilegur og í raun ógleymanlegur þeim sem kynntust honum. Einn nemandi Axels í Reykholti, Anton Örn Kjærnested, síðar formaður Víkings, minnist Axels svo í bókinni Áfram Víkingur eftir Ágúst Inga Jónsson: "Axel hafði lag á að gæða alla leiki lífi og draga fram í mönnum keppnisgleðina og veður og aðrar ytri aðstæður hömluðu ekki æfingum og útileikjum þegar Axel var annars vegar. Einn laugardagseftirmiðdag átti að vera kappleikur milli bekkja, en um nóttina kyngdi niður snjó, svo að hnéfallinn snjór huldi allan völlinn. En Axel var nú ekki aldeilis á því að fella niður leikinn, heldur var öllum nemendum safnað saman, rúmlega hundrað manns, og öll hersingin látin marsera fram og aftur um völlinn þar til hann var keppnisfær, nokkuð sem ég held að hafi ekki verið á færi nokkurs annars en Axels að fá liðlega hundrað unglinga til að gera og sennilega alla með gleði". Á svipaðan hátt og öðrum æskulýðsleiðtoga, sr. Friðrik Friðrikssyni, tókst Axel að virkja unglingana á jákvæðan hátt við að taka þátt í drengilegum leik, leik sem stuðlaði að heilbrigðri sál í hraustum líkama. Axel lést 13. júní 1961.

Eftir Ásmund Ólafsson

Höfundur er framkvæmdastjóri Dvalarheimilisins Höfða, Akranesi.