Salbjörg Hotz
Salbjörg Hotz
Salbjörg Hotz: Sýn af eldi - sönglagaflokkur. Ljóð: Eðvarð T. Jónsson. Söngur: Signý Sæmundsdóttir (sópran), Bergþór Pálsson (bariton). Píanómeðleikur: Salbjörg Hotz. Upptaka og hljóðvinnsla: Halldór Víkingsson. Upptökustaður: Víðistaðakirkja í Hafnarfirði í apríl 2001. Útgáfa: Fermata FM 019. Heildarlengd: 65'29.
STUNDUM gerist það að á fjörur manns rekur tónlist sem er manni allsendis ókunn. Það er oftast ánægjulegt að hlusta á slíkt efni, mynda sér skoðun á því og síðan að tjá hugsanir sínar um tónlistina og flutning hennar á blað. Ný rödd íslensks tónskálds, Salbjargar Hotz, heyrist nú í fyrsta sinn á geisladiski. Þessi diskur er sá fyrri af tveimur. Flest laganna í sönglagaflokknum Sýn af eldi voru frumflutt á tónleikum í Íslensku óperunni á sumarmánuðum árið 2000.

Salbjörg Sveinsdóttir Hotz er píanóleikari að mennt og var fyrsti kennari hennar Ragnar H. Ragnar á Ísafirði. Hún stundaði síðan framhaldsnám hjá Rögnvaldi Sigurjónssyni við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi 1979. Þaðan lá leiðin til náms í Vínarborg. Salbjörg er nú búsett í Sviss þar sem hún starfar sem píanókennari og píanóleikari. Einnig hefur hún "... gripið í við tónsmíðar" eins og segir í bæklingi disksins. Salbjörg Hotz virðist nokkuð liðtæk á því sviði.

Ljóðin sem lög Salbjargar eru samin við eru úr ljóðabókinni Aldahvörf eftir Eðvarð T. Jónsson sem mörgum er kunnur sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu. Þetta eru kraftmikil og innihaldsrík ljóð sem fjalla um sögulega atburði sem gerðust í Íran á 19. öld.

Þótt Salbjörg Hotz geri enga tilraun til þess að skapa "austræna" tónlist í þessum sönglögum má þar stundum greina andblæ fjarlægra landa í austri (t.d. Birtan tæra). Laglínurnar eru mjög lagrænar og flestar hefðbundnar að gerð, sléttar og felldar en sumar nokkuð grípandi (t.d. Brúðkaupið á torginu). Heildarsvipurinn er áferðarfallegur en fremur átakalítill þegar litið er til efnis ljóðanna sem mörg hver bjóða upp á mun meiri dramatík. Athygli vekur píanórödd laganna. Auðheyrilegt er að Salbjörg er píanóleikari sem þekkir hljóðfæri sitt. Píanóröddin en oft hugvitsamlega útfærð og í mörgum laganna litrík og snjöll. Þetta má glöggt heyra í lögum eins og Söngur fanganna, Hin aldna dýrð og Í hafdjúp orðsins. Ekki spillir fyrir ágætur píanómeðleikur tónskáldsins sjálfs.

Þau Bergþór Pálsson og Signý Sæmundsdóttir flytja lögin af sannfæringu og innileika. Samsöngur þeirra í Brúðkaupinu á torginu er prýðilegur. Björt baritonrödd Bergþórs er falleg, tónmyndun hans er ávallt með ágætum og túlkun smekkvís. Hlustið t.d. á Útlagann sem er sunginn með tilþrifum og dramatík. Signý Sæmundsdóttir gerir ýmislegt vel á þessum diski en er mistækari og hefur oft tekist betur upp. Það kemur t.d. á óvart hversu óörugg tónmyndun hennar er í laginu Ef veröld aðeins vissi.

Í heild er diskurinn Sýn af eldi áhugaverður. Sum laganna eru allrar athygli verð. Það er gott til þess að vita að flóra íslenskra sönglaga skuli stækka og að menn skuli gera þessi nýju lög aðgengileg í hljóðritunum.

Valdemar Pálsson