Glerhýsi hafa verið reist aftan og framan við verslunarmiðstöðina.
Glerhýsi hafa verið reist aftan og framan við verslunarmiðstöðina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NÝR Glæsibær verður opnaður með viðhöfn í dag. Gagngerar breytingar hafa staðið yfir á húsnæði þessarar yfir þriggja áratuga verslunarmiðstöðvar í Heimahverfinu undanfarna mánuði.

NÝR Glæsibær verður opnaður með viðhöfn í dag. Gagngerar breytingar hafa staðið yfir á húsnæði þessarar yfir þriggja áratuga verslunarmiðstöðvar í Heimahverfinu undanfarna mánuði. Hefur verslunarhæðin verið endurhönnuð og stækkuð um 650 m² og glerhýsi verið reist framan og aftan við húsið. Um er að ræða fyrsta áfanga í enn frekari uppbyggingu.

Nú er orðið víðara til veggja í húsinu, bjartara um að litast, fleiri verslanir og allt yfirbragð miðstöðvarinnar er breytt. Það ríkja þó sömu rólegheitin innandyra og sama afslappaða andrúmsloftið ræður þar enn ríkjum að sögn þeirra sem rekið hafa verslanir í húsinu undanfarin ár.

"Höfum trú á staðsetningunni"

Meðal nýjunga í Nýja Glæsibæ, en það verður miðstöðin kölluð í framtíðinni, er kaffihús og bakarí Bakarameistarans, sem rekur sambærilegt kaffihús í Mjódd og verslar einnig með bakkelsi í Suðurveri.

"Við höfum trú á Glæsibæ og staðsetningunni," segir Vigfús Hjartarson, framkvæmdastjóri Bakarameistarans. "Okkur finnst þetta vel heppnuð breyting á húsinu og það verður gaman að taka þátt í því að byggja upp gamalgróna verslunarmiðstöð. Glæsibær var nú eitt sinn glæsilegur og nú er hann orðinn það aftur og ber því nafn með rentu á nýjan leik. Þetta er sannarlega nýr Glæsibær."

Tryggð snyrtivöruverslunar

Snyrtivöruverslunin Glæsibæ er eina sérvöruverslunin í verslunarmiðstöðinni sem hefur verið á sama stað frá upphafi. "Við erum mjög ánægð með breytingarnar á húsinu og finnst þær hafa tekist sérstaklega vel," segir Unnur Magnúsdóttir, eigandi Snyrtivöruverslunarinnar. "Við höfum stækkað og breytt versluninni meðfram þessum breytingum á húsinu og gert hana glæsilegri."

Unnur segir aldrei hafa staðið til að flytja verslunina í stærri verslunarmiðstöð. "Okkur finnst við líka þurfa lítinn verslunarkjarna og miðum okkur ekkert endilega við Kringluna eða Smáralind. Við þurfum lítinn kjarna sem er notalegur og fjölbreyttur."

Núna eru 23 verslunar- og þjónustufyrirtæki í húsinu og fimm til viðbótar bætast við á næstunni.

Þó að framkvæmdum sé ekki að fullu lokið mun Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri opna Nýja Glæsibæ formlega í dag kl. 9.40. Síðan munu verða ýmsar uppákomur og veitingar allan daginn og verslanir bjóða sérstök opnunartilboð.