Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri.
FRÁ því fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor hefur sú umræða skotið upp kollinum af og til hvort Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri gæfi kost á sér í þingframboð fyrir Samfylkinguna. Í byrjun september sl.

FRÁ því fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor hefur sú umræða skotið upp kollinum af og til hvort Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri gæfi kost á sér í þingframboð fyrir Samfylkinguna. Í byrjun september sl. sendi hún frá sér yfirlýsingu um að hún hygði ekki á þingframboð en í umræðum í borgarstjórn fyrir hálfum mánuði sagði hún óbeinum orðum ekki útséð með að hún færi í slíkt framboð.

Í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 19. maí sl. var Ingibjörg spurð hvort það væri tryggt að hún yrði borgarstjóri næstu fjögur árin ef hún næði kjöri. "Nei, það er ekki tryggt," sagði hún og bætti við: "Ég gæti náttúrlega hrokkið upp af!" Síðan fór viðtalið þannig fram um þetta atriði:

- Spurt er vegna þess að oft er talað um að Samfylkinguna vanti nýjan leiðtoga og þú nefnd til sögunnar.

"Það er ekki mitt viðfangsefni. Ég er að bjóða mig fram til næstu fjögurra ára en ætla mér hins vegar ekki að verða ellidauð hérna í Ráðhúsinu."

- En þú ætlar að vera þar næstu fjögur ár?

"Já, ég er ekki á leið í þingframboð að ári ef það er spurningin sem undir liggur."

Þegar úrslit borgarstjórnarkosninganna í lok maí lágu fyrir sagði Ingibjörg við Morgunblaðið, aðspurð hvort hún ætlaði að sitja næstu fjögur árin sem borgarstjóri, að hún sæi ekkert í spilunum sem breytti því.

Í viðtali við Ríkisútvarpið á kosningavöku Reykjavíkurlistans á kosninganótt, eftir að sigurinn var í höfn, sagði Ingibjörg Sólrún: "Já, ég fullyrði algerlega að ég er ekki að fara í þingframboð að ári. Það er alveg ljóst."

Í byrjun september voru kynntar niðurstöður könnunar sem Gallup gerði fyrir vefritið Kreml.is. Þar kom fram að færi Ingibjörg fyrir lista Samfylkingarinnar í næstu alþingiskosningum myndi flokkurinn auka fylgi sitt um tæplega þriðjung.

Sá ekkert í spilunum sem breytti afstöðu hennar

Í Morgunblaðinu 4. september sagði Ingibjörg könnunina ekki hafa breytt afstöðu sinni varðandi þingframboð. "Ég var búin að segja það býsna skýrt fyrir kosningar að ég hygði ekki á þingframboð og fyrir því voru bæði persónulegar og pólitískar ástæður. Hugur minn hefur ekki staðið til þess síðan, þótt borgarstjórnarkosningum sé lokið, og ég sé ekkert það í spilunum sem breytir þeirri afstöðu," sagði Ingibjörg Sólrún.

Viku síðar sendi hún frá sér yfirlýsingu þar sem hún sagðist ekki ætla að bjóða sig fram til Alþingis í vor. "Niðurstaða mín er sú að ekkert það hafi gerst á vettvangi stjórnmálanna sem knýi á um að ég breyti þeirri afstöðu sem ég tók í vor og söðli um," sagði hún m.a. í yfirlýsingunni. Við Morgunblaðið sagði hún af þessu tilefni: "Ég sagði í vor að ég stefndi ekki að þingframboði og ég endurtek það núna. Ég hef í sjálfu sér engu við þetta að bæta. Og að halda áfram endalausum vangaveltum um einhverja óræða framtíð er eins og hver önnur langavitleysa."

Eftir yfirlýsinguna lá umræða um þingframboð hennar niðri um nokkurn tíma eða þar til í byrjun þessa mánaðar að með ummælum sínum í borgarstjórn gaf hún orðrómi um framboð byr undir báða vængi. Fram fóru heitar umræður um fjárhagsáætlun borgarinnar og undanfari ummælanna voru þau orð Björns Bjarnasonar, oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn, að Ingibjörg sæi eftir því að hafa ekki boðið sig fram til Alþingis, hún vildi greinilega frekar ræða við sig sem þingmann en borgarfulltrúa. Sagði Ingibjörg þá að svo virtist sem Björn saknaði þess að hún sæti ekki á Alþingi. Hún sagðist verða að segja það við borgarfulltrúann að ekki væri öll nótt úti með það ennþá. Í samtali við blaðamann Morgunblaðsins að borgarstjórnarfundi loknum sagðist Ingibjörg hafa meira sagt þetta í gríni en alvöru, hún yrði "ekki í leiðtogasæti" á neinum framboðslistanna til Alþingis.

Síðan segir í frétt Morgunblaðsins: "Hún sagði að það hlyti þó að vera umhugsunarefni að útlit væri fyrir að tveir borgarfulltrúar minnihlutans sitji á þingi á næsta kjörtímabili, en bæði Björn Bjarnason og Guðlaugur Þór Þórðarson eru taldir eiga öruggt sæti á framboðslistum Sjálfstæðisflokks í Reykjavík. Ekki hafi komið fram annað en þeir ætli að sitja bæði þar og í borgarstjórn. Of mikið hafi verið um að þingmenn hafi ruglast á pólitískri stöðu og hagsmunum borgarinnar. Hún óttist að það geti gerst í ríkari mæli við þessar aðstæður að menn hugsi of mikið um stöðu minnihlutans í borgarstjórn í störfum sínum á þingi."