[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Átakamesta og oft dramatískasta viðskiptastríð sem háð hefur verið í íslensku viðskiptalífi í áratugi var að mestu leyti háð fyrir luktum dyrum og á bak við tjöldin.

Átakamesta og oft dramatískasta viðskiptastríð sem háð hefur verið í íslensku viðskiptalífi í áratugi var að mestu leyti háð fyrir luktum dyrum og á bak við tjöldin. Meira og minna fór það framhjá íslensku þjóðinni, undanfarin þrjú ár, að nokkrir menn gerðu ítrekaðar tilraunir til þess að ná á sitt vald Íslandsbanka, með kaupum í bankanum sjálfum og Tryggingamiðstöðinni og Fjárfestingarfélaginu Straumi. Það fór jafnmikið framhjá íslensku þjóðinni, að því var afstýrt, jafnan á elleftu stundu, að yfirtökuáformin yrðu að veruleika. Það voru áhrifamenn í banka- og viðskiptalífinu sem tóku höndum saman, með vitund og samþykki valdamikilla stjórnmálamanna, til þess að koma í veg fyrir að völd þau og áhrif, sem fylgja því að ráða yfir mörgum tugum milljarða króna í eigu sjóða, banka og almenningshlutafélaga, lentu í höndum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Þorsteins Más Baldvinssonar og samstarfsmanna þeirra. Saga þessara átaka verður rakin í fjögurra greina flokki, sem hefur göngu sína hér í blaðinu í dag.

ÁKVÖRÐUN um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins (FBA) var tekin af ríkisstjórn Íslands á haustmánuðum 1997, en hann varð til með því að Fiskveiðasjóði, Iðnlánasjóði, Iðnþróunarsjóði og Útflutningslánasjóði var steypt saman í einn fjárfestingarbanka, með eigið fé upp á um 8 milljarða króna.

Bjarni Ármannsson, sem hafði starfað hjá Kaupþingi, var ráðinn bankastjóri haustið 1997 og 1. janúar 1998 tók bankinn til starfa.

Þegar í upphafi var ljóst, að margt skorti á, til þess að bankinn væri í stakk búinn til að takast á við þau verkefni sem við blöstu. Því ákváðu stjórnvöld fljótlega að stefna að því að einkavæða bankann og renna styrkari stoðum undir starfsemi hans.

Sparisjóðirnir höfðu áður lýst áhuga sínum við stjórnvöld á að fá að kaupa FBA eða stóran hlut í bankanum. Í því skyni höfðu forsvarsmenn sparisjóðanna kynnt stjórnvöldum fjárhagslega getu sparisjóðanna, stöðu og stærð, ásamt því að kynna þeim Kaupþing, sem sparisjóðirnir áttu 100% á þessum tíma. Forsvarsmenn sparisjóðanna töldu á þessum tíma, þegar verið var að steypa fjárfestingarlánasjóðum atvinnulífsins saman í einn banka, FBA, að fyrst verið væri að setja á laggirnar fjárfestingarbanka og sparisjóðirnir ættu annan fjárfestingarbanka, Kaupþing, þá gæti sameining þessara tveggja banka verið góður kostur sem hefði í för með sér mikla hagræðingu. Þeir töldu m.a. að hagræðingin væri í því fólgin að styrkur FBA lægi í mjög sterkum efnahagsreikningi - FBA hafði tekið við miklu af lánum sem fylgdu gömlu fjárfestingarlánasjóðunum - en bankinn var hins vegar ekki sterkur í viðskiptum á verðbréfamarkaði; þar töldu þeir höfuðstyrk Kaupþings vera, en Kaupþing var aftur með frekar lítinn eða veikan efnahagsreikning. Forsvarsmönnum sparisjóðanna og Kaupþings fannst því sem fyrirtækin bættu hvort annað upp, ef þau væru sameinuð í eitt.

Vildu kaupa FBA á 8,5 milljarða

Sparisjóðirnir og Kaupþing höfðu látið vinna skýrslur, undir forystu Hreiðars Más Sigurðssonar, aðstoðarforstjóra Kaupþings, um hver áhrifin af sameiningu Kaupþings og FBA yrðu og hver samlegðaráhrif yrðu.

Eftir að þessi grunnvinna hafði verið unnin höfðu forsvarsmenn sparisjóðanna og Kaupþings samband við stjórnvöld og lýstu áhuga sínum og kynntu röksemdir sínar og skýrslur. Fram kom í máli talsmanna sparisjóðanna og Kaupþings að þeir væru reiðubúnir til þess að greiða 8,5 milljarða króna fyrir FBA. Þessar hugmyndir hlutu heldur dræmar undirtektir stjórnvalda, sem vildu eindregið að við einkavæðingu FBA væri farið í gegnum formlegt söluferli, sem reyndist svo hafa verið hárrétt ákvörðun aðeins rúmu ári síðar, þegar ríkissjóður var orðinn 15 milljörðum gildari, eftir að einkavæðingu FBA var lokið.

Eftir að hafa fengið þessar dræmu undirtektir stjórnvalda var sú ákvörðun tekin af forsvarsmönnum sparisjóðanna, að skipta sér ekki frekar af einkavæðingarferli FBA.

Með sama hætti var slík ákvörðun tekin í Kaupþingi.

Ríkisstjórn Íslands tekur svo ákvörðun um það haustið 1998 að hefja einkavæðingarferli FBA með því að selja í almennri sölu 49% hlut í bankanum, en halda eftir 51% hlut í fyrstu atrennu.

Skilmálar voru skýrir og það var sett sem markmið að selja bankann þannig að hann yrði í dreifðri eign. Enginn einn mátti kaupa meira en fyrir 360 þúsund krónur að nafnverði, sem samsvaraði rétt hálfrar milljónar króna fjárfestingu, því gengið var ákveðið 1,4. Við upphaf sölunnar varð strax ljóst, að mikil umframeftirspurn var eftir bréfum í FBA.

Kennitölusöfnunin gagnrýnd

Kennitölusöfnun sem fór í gang á meðan á sölu bréfa ríkisins stóð var mjög umdeild og hún var harðlega gagnrýnd, ekki síst af stjórnvöldum og var mikið fjallað um hana, m.a. hér í Morgunblaðinu haustið 1998. Söfnunin fólst í því að Búnaðarbankinn og FBA og að lokum einnig Kaupþing föluðust eftir kennitölum viðskiptamanna sinna, sem ekki hugðust kaupa hlut í FBA, til þess að skrá hluti á þær kennitölur, og greiddu kennitölueigendum síðan ákveðna upphæð fyrir "kennitölulánið".

Því var ranglega haldið fram að sparisjóðirnir og Kaupþing hefðu strax í byrjun tekið meðvitaða ákvörðun um kennitölusöfnun vegna sölu ríkisins á 49% hlut í FBA haustið 1998.

Sparisjóðirnir tóku engan þátt í kennitölusöfnuninni, heldur var það Búnaðarbanki Íslands sem hóf söfnunina. FBA hóf einnig kennitölusöfnun og það var ástæða þess að í Kaupþingi var tekin ákvörðun um að ráðast einnig í kennitölusöfnun undir lok útboðsins, því þar á bæ var talið að aðgerðin hlyti að vera lögmæt fyrst FBA stæði sjálfur í slíkri söfnun.

Kennitölusöfnunin hleypti illu blóði í stjórnvöld, því dreifð eignaraðild hafði verið leiðarljós þeirra við einkavæðingarferlið. Fjármálaeftirlitið rannsakaði ofan í kjölinn hvernig staðið hafði verið að kennitölusöfnuninni illa þokkuðu og niðurstaða þess var sú, að ekki væri tilefni til þess að gera athugasemdir.

Forsvarsmenn sparisjóðanna og Kaupþings hafa allar götur síðan, eða í fjögur ár, verið þeirrar skoðunar, að Kaupþing hafi ranglega verið gert að blóraböggli í þessu máli og jafnan sakað um að hafa verið höfuðgerandinn í kennitölusöfnuninni og sá aðili sem hleypti einkavæðingaráformum ríkisstjórnarinnar í uppnám. Staðreynd málsins sé sú, að Kaupþing hafi beðið átekta, megnið af útboðstímanum, en á lokasprettinum hafi fyrirtækið gert það sama og tveir ríkisbankar (Búnaðarbankinn og FBA) höfðu gert um nokkra hríð. Enginn hafi á hinn bóginn gagnrýnt kennitölusöfnun þeirra með sama hætti og Kaupþing var gagnrýnt.

Hegðan þessara fjármálastofnana hleypti þegar í stað öllum áformum ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild að FBA í uppnám.

Skylt er að geta þess, að Búnaðarbankinn og Kaupþing telja sig ekki hafa gert nokkuð rangt með umræddri söfnun og segja að eðlileg viðskiptasjónarmið hafi ráðið för.

Hvor stofnun um sig safnaði svipuðum fjölda kennitalna, Kaupþing þó heldur fleiri og fljótlega flaggaði Kaupþing því að það ætti 11% hlut í FBA.Stjórnendur Kaupþings sáu í hendi sér, þegar fjárfesting þeirra í FBA var orðin um þrír milljarðar króna, að það var bara um tvennt að ræða fyrir þá, annaðhvort að halda áfram og reyna að eignast ráðandi hlut í FBA eða að selja í einu lagi þennan hlut.

Buðu þeir m.a. sparisjóðunum að kaupa hlutinn, en fyrir því var ekki áhugi.

Fóru þeir Hreiðar Már Sigurðsson frá Kaupþingi og Árni Oddur Þórðarson frá Búnaðarbankanum m.a. á fund Vals Valssonar bankastjóra Íslandsbanka og buðu honum hluti Búnaðarbanka og Kaupþings til kaups, en ekki varð af samningum við Val.

Við svo búið buðu þeir Jóni Ólafssyni, aðaleiganda Norðurljósa, hlutinn til kaups, en það var Árni Oddur sem átti frumkvæðið að því tilboði. Að íhuguðu máli hafnaði Jón Ólafsson tilboðinu, en fullyrt er í dag, að hann telji nú að það hafi verið röng ákvörðun hjá sér. Á þessum tíma (fyrir fjórum árum) taldi hann líklegt, að það yrði litið hornauga af áhrifamönnum í viðskiptalífinu og Sjálfstæðisflokknum, ekki síst af Davíð Oddssyni forsætisráðherra, ef hann einn eignaðist svo stóran hlut í bankanum.

Sparisjóðirnir og Kaupþing ákváðu við svo búið í árslok 1998 að setja á stofn dótturfélagið Scandinavian Holding og seldu félaginu öll bréf Kaupþings í FBA hinn 29. desember 1998. Um leið keypti Scandinavian Holding hlut Búnaðarbankans eins og hann lagði sig á genginu 1,9 og átti þar með orðið 22,1% í FBA.

Hreiðar Már Sigurðsson varð framkvæmdastjóri Scandinavian Holding og hefur verið það allar götur síðan, jafnframt því að vera aðstoðarforstjóri Kaupþings, sem er auðvitað og var hans aðalstarf.

Skömmu áður en útboðið fór fram var enginn vilji fyrir því innan Kaupþings að kaupa bréf í FBA, vegna þess að FBA átti svo stóran hlut í Baugi, eða jafnstóran hlut og Kaupþing, en þetta var samskonar áhætta og Kaupþing var með. FBA og Kaupþing höfðu þá verið að reyna að losna við hina miklu fjárfestingu sína í Baugi um nokkra hríð, en hvort félag um sig keypti 37,5% í Baugi fyrir rúmlega 5,5 milljarða króna samtals, af Sigurði Gísla Pálmasyni og fjölskyldu. Gaumur (fjárfestingarfélag í eigu Jóhannesar Jónssonar, 20%, barna hans, Jóns Ásgeirs, 45%, og Kristínar, 10%, og móður þeirra, Ásu Ásgeirsdóttur, 20%) átti við stofnun Baugs 25% í félaginu.

Það sem breytti afstöðu Kaupþings skyndilega var, að tveimur vikum fyrir útboðið kaupir norska fyrirtækið Reitan Group af Kaupþingi og FBA 20% hlut í Baugi. Gaumur á í dag 37% í Baugi, Stoðir eiga 7%, Reitan Group á 11%, Kaupþing á rúm 10% í Baugi og Íslandsbanki á 2,5%.

Þá strax var frekari fjárfesting í FBA orðin fýsilegri og áhættuminni kostur fyrir Kaupþing.

Í stjórn FBA í óþökk stjórnenda

Eftir að Scandinavian Holding, dótturfélag sparisjóðanna og Kaupþings, var orðið svo stór eigandi að FBA komu þeir Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri SPRON og stjórnarformaður Kaupþings, og Sigurður Einarsson, forstjóri Kaupþings, inn í stjórn FBA í ársbyrjun 1999, sem stjórnendur FBA töldu hreint óþolandi. Bentu þeir á, að með því að hafa í stjórn FBA tvo fulltrúa annarra fjármálastofnana, keppinauta, væri beinlínis verið að lama stjórnina.

Því var mótmælt harðlega að þeir Guðmundur Hauksson og Sigurður Einarsson tækju sæti í stjórninni og þess farið á leit við þá, að aðrir tækju þar sæti.

Því höfnuðu þeir Guðmundur Hauksson og Sigurður Einarsson, sem töldu það skyldu sína að setjast í stjórn FBA, þar sem sparisjóðirnir og Kaupþing ættu svo mikilla hagsmuna að gæta, eftir að hafa fjárfest fyrir þrjá milljarða í bankanum.

Jafnframt héldu þeir því fram, að Kaupþing væri ekki sá keppinautur FBA sem menn vildu vera láta og sparisjóðirnir alls ekki. Eðli starfsemi Kaupþings og FBA væri mjög ólíkt. Kaupþing hefði fyrst og fremst verið í fjárvörslu og miðlun, en FBA hefði verið langsterkastur á sviði útlána til stórra fyrirtækja. Jafnframt héldu þeir Guðmundur og Sigurður því fram að verulegur þrýstingur væri á þá af hálfu sparisjóðanna að taka sæti í stjórninni, en þeir í FBA lögðu ekki trúnað á slíkar frásagnir.

Gengi bréfanna í FBA hélt samt sem áður áfram að stíga jafnt og þétt fyrri hluta árs 1999 og um vorið var það komið í 2,4.

Í Morgunblaðinu 17. júní 1999 var frétt um kaup FBA, Landsbanka, Búnaðarbanka og Hofs á 17% hlut í Íslenskri erfðagreiningu, fyrir rúma sex milljarða króna. FBA keypti 50% þessa hlutar, eða fyrir þrjá milljarða króna á genginu 15 dollarar fyrir hlutinn. Búnaðarbankinn keypti 24% fyrir 1,44 milljarða króna, Landsbankinn 20% fyrir 1,2 milljarða króna og Hof 6% fyrir 360 milljónir króna.

Gengi bréfa í Íslenskri erfðagreiningu er í dag um 1,95 dollarar fyrir hlutinn, þannig að verð bréfanna á þessum rúmlega þremur árum hefur hrunið um 87%, miðað við gengi nú í janúarbyrjun 2003.

Við þessi tíðindi er forsvarsmönnum sparisjóðanna og Kaupþings verulega brugðið, því þeir töldu að um mikla áhættufjárfestingu væri að ræða í þessum efnum. Jafnframt mátu þeir Kaupþings- og sparisjóðamenn það svo, að það væri veruleg áhætta fólgin í því fyrir þá að eiga áfram svo stóran hlut í FBA, þar sem fullkomin óvissa ríkti þá um með hvaða hætti 51% hlutur ríkisins yrði seldur.

Var sú stefnumarkandi ákvörðun því tekin á miðju sumri 1999 að Kaupþing seldi sinn hlut í FBA. Að vísu voru það þeir Sigurður Einarsson, forstjóri Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, aðstoðarforstjóri, sem tóku þessa ákvörðun, en fyrir henni höfðu þeir enga stjórnarsamþykkt. Þeir höfðu þó ráðgast símleiðis við Guðmund Hauksson, stjórnarformann Kaupþings, sem var erlendis þegar þetta var.

Tveir hópar vildu kaupa

Hreiðar Már Sigurðsson, aðstoðarforstjóri Kaupþings, ræddi þetta sumar við nokkra aðila um möguleikana á því að þeir keyptu 22,1% hlut Scandinavian Holding í FBA.

Hann ræddi m.a. við Sigurð Gísla Pálmason og fjölskyldu um það hvort þau vildu kaupa þennan tæplega fjórðungs hlut í bankanum, en ekki varð af samningum.

Bjarni Ármannsson, forstjóri FBA, var líka á ferðinni að leita að fjárfestum, sem hann taldi ákjósanlegt að fá inn í FBA. Hann orðaði það m.a. við Jón Ásgeir Jóhannesson, hvort Baugur hefði áhuga á að kaupa hlut Scandinavian Holding á móti hópi starfsmanna FBA, en þær viðræður komust aldrei á neinn skrið, þótt einn fundur væri haldinn um málið með þeim Bjarna Ármannssyni, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Svanbirni Thoroddsen.

Bjarni Ármannsson var einnig í viðræðum við aðra mögulega fjárfesta, þá Sigurð Gísla Pálmason, Gunnar Björgvinsson (flugvélamiðlara í Liechtenstein) og Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, og Hannes Smárason, aðstoðarforstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, og það varð úr að þessir menn náðu saman og ákváðu að gera tilboð í hlut Scandinavian Holding, dótturfélags sparisjóðanna og Kaupþings.

Haft var samband við Sigurð Einarsson og honum greint frá þessum áhuga. Hann óskaði eftir formlegu tilboði, sem gert var í júlímánuði.

Tilboðið var á genginu 2,4. Gengið hafði því hækkað um einn heilan á réttum níu mánuðum, en Kaupþing hafnaði tilboðinu á þeim forsendum að það væri ekki nógu hátt.

Nokkru síðar mun Bjarni Ármannsson hafa látið einhver orð falla við Jón Ásgeir um hverju þeir hjá FBA væru að velta fyrir sér, varðandi hlut Kaupþings og að þeir Jón og Sigurður Gísli Pálmasynir, Gunnar Björgvinsson og Kári Stefánsson væru líklegir kaupendur að hlutnum. Jón Ásgeir hafði þá nokkru áður áttað sig á því, að Bjarni var búinn að missa áhugann á því að fá hann og fjárfesta á hans vegum til liðs við sig við kaupin á hlut Kaupþings í FBA.

Á þessum tíma, sumarið 1999, er Baugur til þess að gera nýr af nálinni í þeirri mynd sem félagið er í nú, eða rétt um árs gamall. Það var föstudaginn 17. júlí 1998 sem tilkynnt var um þá ákvörðun að nýtt sameinað félag Hagkaupa, Bónuss og Nýkaupa bæri nafnið Baugur hf. en fram til þess tíma hafði Baugur verið nafn á innkaupa- og dreifingarfyrirtæki í eigu sömu aðila, en varð við þessa breytingu nafn móðurfélagsins.

Stjórnarformaður félagsins varð Óskar Magnússon og Jón Ásgeir Jóhannesson varð forstjóri.

Barbabrella Jóns Ásgeirs

Jón Ásgeir taldi að nauðsynlegt væri fyrir Baug að hafa aðgang að fjármagni, til þess að geta fjármagnað sinn rekstur og þau viðskipti sem félagið átti í.

Hann fékk því viðskiptahugmynd, þegar hann heyrði um áform Bjarna Ármannssonar. Gárungarnir lýsa þessum hugdettum Jóns Ásgeirs gjarnan sem "Barbabrellu Jóns Ásgeirs"! Þegar Jón Ásgeir heyrði hver áform þeirra í FBA voru með að fá nýja fjárfesta að bankanum í stað Kaupþings, fannst honum sem sóknarfæri væru í því fólgin fyrir hann og hans fyrirtæki að ná ráðandi hlut í FBA og vinna svo síðar meir að sameiningu bankans við Kaupþing. Jón Ásgeir ákvað því að reyna að fá til liðs við sig fjárfesta til þess að kaupa hlut Kaupþings.

Hafði hann samband við Hreiðar Má Sigurðsson, aðstoðarforstjóra Kaupþings, sem var strax með á nótunum, enda Kaupþing búið að vinna náið með Jóni Ásgeiri og þeim Baugsmönnum og hafði komið mikið við sögu við fjármögnun á kaupum þeirra Bónusfeðga, þegar fjölskylda Pálma heitins Jónssonar í Hagkaupum var keypt út sumarið 1998.

Væntanlega hefur Kaupþing því einnig talið að með því að ganga til liðs við Jón Ásgeir Jóhannesson á þessu sviði og selja honum og fjárfestum, sem hann fengi til liðs við sig, væri félagið að tryggja hagsmuni sína.

Því næst hafði Jón Ásgeir samband við Jón Ólafsson og bauð honum að vera með og var hann reiðubúinn að vera með í tilboði í hlut Kaupþings í lok júlí 1999 og skömmu síðar hafði Kaupþing samband við Þorstein Má Baldvinsson í Samherja og bauð honum þátttöku. Samherji hafði á þessum tíma átt í hatrammri baráttu við Eimskip um kaup á bréfum í Skagstrendingi og yfirráð í félaginu, en Eimskip kom með kaupum sínum í Skagstrendingi í veg fyrir að Samherji næði meirihluta í félaginu.

Þorsteinn Már taldi sig því eiga harma að hefna og vildi leggja sitt af mörkum til þess að ná undirtökunum í FBA, auk þess sem hann taldi fjárfestinguna vera góða.

Þeir í FBA höfðu eitthvert veður af því að tilboð í bréf Kaupþings væri í uppsiglingu frá þessum aðilum og því fór Bjarni Ármannsson þess á leit við þá sem áður höfðu gert tilboð upp á 2,4 að þeir hækkuðu tilboð sitt í ríflega 2,8. Hann fór í þeirra umboði á fund Sigurðar Einarssonar og Hreiðars Más í Kaupþingi og bauð munnlega 2,82 í hlut Scandinavian Holding.

Þetta var gert í ljósi þess, að þessi hópur fjárfesta á vegum Bjarna Ármannssonar hafði þá þegar tryggt sér stuðning stærsta eiganda FBA, ríkisins, sem átti 51%, við það, að þeir yrðu þetta stór eigandi að FBA.

Það næsta sem gerist er að Kaupþing tilkynnir á Verðbréfaþingi þriðjudaginn 3. ágúst 1999 að 22,1% hlutur sparisjóðanna og Kaupþings í FBA hafi verið seldur félaginu Orca S.A. - félagi sem var skráð í Lúxemborg og enginn vissi nein deili á og engar upplýsingar voru veittar um það hver eða hverjir stæðu að félaginu. Samningur hafði verið undirritaður á milli sparisjóðanna og Kaupþings annars vegar og Orca-hópsins hins vegar um kaup Orca á 22% hlut Kaupþings og sparisjóðanna (Scandinavian Holding) í FBA með fyrirvara um samþykki stjórna Scandinavian Holding og Kaupþings. Þegar þetta var, vissi enginn nema seljandinn, hver eða hverjir stóðu að Orca S.A. sem skráð var í Lúxemborg, rétt eins og seljandinn, dótturfélag sparisjóðanna og Kaupþings, Scandinavian Holding.

Orca keypti auk þess rúm 4% af öðrum eigendum í FBA og var þannig komið með 26,5% hlut í FBA nokkrum dögum eftir undirritun og fyrir lok ágústmánaðar var félagið komið með 28% hlut í FBA. Verðmæti hlutarins var um fimm milljarðar króna miðað við gengið 2,8 og fjármagnaði Orca-hópurinn kaupin að stórum hluta með láni upp á 3,25 milljarða króna frá Scandinavian Holding sem var í eigu Kaupþings, Sparisjóðabankans, SPRON, Sparisjóðs vélstjóra, Sparisjóðs Hafnarfjarðar og nokkurra annarra sparisjóða. Lánið var að stærstum hluta í erlendum myntum. Auk þess fékk Orca lán frá mismunandi sparisjóðum og Kaupþingi fyrir hluta þeirrar upphæðar sem Orca-hópurinn þurfti að reiða fram hinn 20. ágúst 1999, en það var mismunandi eftir því hverjir áttu í hlut. Jón Ólafsson greiddi þegar í stað af eigin fé þær 450 milljónir sem honum bar að greiða, þeir Þorsteinn Már Baldvinsson og Jón Ásgeir Jóhannesson settu ákveðnar eignir að veði og fengu þannig lán fyrir sínu hlutafjárframlagi í Orca og Eyjólfur Sveinsson fékk fjárfestana sem voru með honum í kaupunum til þess að greiða upphafshlutaféð í Orca. Umtalsverður meirihluti kaupa Orca á 28% hlut í FBA var því fjármagnaður með lánsfé.

Mikill söluhagnaður hjá Kaupþingi

Söluhagnaður sparisjóðanna og Kaupþings varð nettó um 1,3 milljarðar króna, sem gaf 43% ávöxtun á níu mánuðum, sem jafngildir 57% ávöxtun á ársgrundvelli og hlýtur að teljast dágóð ávöxtun! Innborgað eigið fé í Scandinavian Holding á sínum tíma var 400 milljónir króna, en í dag er eigið fé félagsins 2 milljarðar króna, þannig að hagnaður sparisjóðanna og Kaupþings af þessum viðskiptum er því samtals um 1,6 milljarðar króna.

Orca hélt áfram að kaupa bréf í FBA á markaði og um miðjan ágúst var hlutur félagsins orðinn 28% og hélst þannig fram eftir hausti.

Mikill átakafundur var svo haldinn í stjórn Scandinavian Holding fimmtudaginn 12. ágúst 1999, þar sem samningur Scandinavian Holding og Orca var til afgreiðslu. Stjórn Scandinavian Holding var á þessum tíma skipuð þeim Guðmundi Haukssyni, Sigurði Hafstein, Hallgrími Jónssyni, Þór Gunnarssyni og Sigurði Einarssyni. Fyrir þennan fund hafði verið beitt miklum þrýstingi á bak við tjöldin á einstaka stjórnarmenn í þá veru að þeir felldu samninginn á fundinum.

Matthías Á. Mathiesen, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi, sem er stjórnarformaður Sparisjóðs Hafnarfjarðar, mun til að mynda hafa lagt hart að Þór Gunnarssyni, sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Hafnarfjarðar, að fella samninginn.

Tekist var á um málið fram og til baka á fundinum, sem mun hafa staðið hátt í fimm klukkustundir. Þór Gunnarsson beitti sér um tíma fyrir því að samningurinn væri felldur, en niðurstaðan varð sú eftir miklar sviptingar, að samningurinn var samþykktur, en Þór Gunnarsson sat hjá.

Það var gagnrýnt á fundinum að þessi viðskipti hefðu farið svo langt, án þess að nokkurn tíma hefði verið leitað til stjórnar eftir stjórnarsamþykkt fyrir sölunni. Einungis hafði verið haft óformlegt samband við stjórnarmenn og þeir spurðir hvernig þeim litist á að kannað yrði með sölu á bréfunum.

Ástæða þess að viðskiptin voru samþykkt, þótt aðferðafræði þeirra Sigurðar Einarssonar forstjóra Kaupþings og Hreiðars Más Sigurðssonar aðstoðarforstjóra væri harðlega gagnrýnd, var ekki síst sú, að ef samningurinn hefði verið felldur, hefði hann jafngilt vantrausti á forstjóra, aðstoðarforstjóra og jafnvel stjórnarformann, sem menn töldu að væri fjarri því að vera æskilegt eða til þess fallið að auka tiltrú manna og traust á Kaupþingi, en traust og tiltrú fjárfesta og almennings eru einmitt sá grundvöllur sem fjármálastofnanir byggja tilveru sína á.

Var gert sérstakt kauptilboð?

Mikil kergja, jafnvel heift, komst í samskipti manna eftir að kaup Orca höfðu verið samþykkt í Scandinavian Holding og Kaupþingi. Einkum mun Bjarni Ármannsson hafa verið reiður, talið sig hafa verið hlunnfarinn og kunnað því mjög illa.

Því er haldið fram í Kaupþingi að þeir hafi litið svo á, að ekki hafi verið um formlegt tilboð að ræða frá fjárfestunum sem Bjarni var fulltrúi fyrir - hann hafi einvörðungu farið fram á að fá leyfi til sölu á bréfum sparisjóðanna og Kaupþings, sem ekki hafi verið veitt.

Hinu gagnstæða er haldið fram í hópi þeirra sem telja sig hafa gert afdráttarlaust tilboð upp á 2,82, jafnvel þótt það hafi einungis verið munnlegt, þannig að hér stendur orð gegn orði.

Bjarni Ármannsson kunni Jóni Ásgeiri litlar þakkir fyrir að hafa beinlínis "stolið" viðskiptahugmynd sinni og voru samskipti þeirra tveggja stirð fyrst á eftir, enda taldi Bjarni að það hefði verið mun giftusamlegra fyrir framtíð hins unga banka, FBA, sem verið var að einkavæða, að kjölfestufjárfestar hans væru stjórnvöldum að skapi.

Enginn er annars bróðir í leik segir orðtakið og sannaðist það í þessum hlutabréfaleik. Sættir tókust þó með þeim Jóni Ásgeiri í ágústlok 1999, eða aðeins örfáum vikum síðar, eftir að þeir áttu fund saman og fóru yfir stöðuna. Komust þeir að þeirri sameiginlegu niðurstöðu, að þar sem Orca-hópurinn væri orðinn þetta stór eigandi að FBA, með 28% hlutdeild, væri mjög óskynsamlegt af þeim að halda áfram innbyrðis deilum. Menn yrðu að slíðra sverðin og vinna saman af heilindum.

Iðrast þess að hafa tekið Eyjólf inn

Eyjólfur Sveinsson kom sem fjórði maður inn í Orca-hópinn sama dag og Orca S.A. hélt blaðamannafund og kynnti hverjir stæðu á bak við hið dularfulla félag, Orca SA, skráð í Lúxemborg, hinn 13. ágúst 1999, en þá hafði ríkt þögn í tíu daga um hverjir raunverulegir kaupendur væru. Morgunblaðið birti að vísu frétt á baksíðu samkvæmt heimildum hinn 4. ágúst 1999, þar sem greint var frá því hverjir væru helstu eigendur hins nýja félags. Fyrirsögn fréttarinnar var Samherji, Jón Ólafsson og Bónusfeðgar meðal væntanlegra hluthafa.

Hið nýja félag, Orca S.A., hafði strax í upphafi kallað yfir sig óþarfa tortryggni bæði í viðskiptalífinu, meðal almennings og ekki síst hjá stjórnvöldum, fyrir að hafa keypt svo stóran hluta í FBA án þess að veita upplýsingar um það hverjir stæðu að félaginu.

Það var Eyjólfur Sveinsson, framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar, sem hafði frumkvæði að því að ganga til liðs við Orca-hópinn og hafði af því tilefni samband við Hreiðar Má Sigurðsson í Kaupþingi og óskaði eftir þátttöku. Það gerði hann 4. ágúst, þegar hann hafði lesið fréttina um Orca á baksíðu Morgunblaðsins og óskaði eftir því að fá að verða fjórði fjárfestirinn í Orca.

Jón Ásgeir Jóhannesson og Þorsteinn Már Baldvinsson voru ekki svo fráhverfir hugmyndinni um að fá Eyjólf Sveinsson til liðs við hópinn eftir að Hreiðar Már hafði reifað hugmyndina við þá. Þeir töldu jafnvel að með því að fá Eyjólf Sveinsson til liðs við sig, yrði hið pólitíska yfirbragð hópsins slétt og fellt og töldu jafnframt að það gæti átt eftir að greiða götu þeirra að hafa fyrrverandi aðstoðarmann forsætisráðherra í hópnum, þar sem ljóst þótti frá upphafi að forsætisráðherra myndi mislíka það mjög að Jón Ólafsson yrði stór eigandi að FBA.

Jón Ólafsson fékk ekki að vita af hugmyndinni um að Eyjólfur yrði fjórði maður í Orca fyrr en sama dag og Orca hélt blaðamannafundinn og upplýsti hverjir stæðu að félaginu, hinn 13. ágúst 1999. Jóni leist engan veginn á hugmyndina til að byrja með, en klukkutíma fyrir blaðamannafundinn gaf Jón sig og samþykkti Eyjólf sem fjórða mann.

Það skipti líka máli í þessum efnum, að eindregið hafði verið mælt með því af lánardrottnunum (Kaupþingi, Sparisjóðabankanum, SPRON, Sparisjóði vélstjóra og nokkrum sparisjóðum, eigendum Scandinavian Holding), sem ætluðu að fjármagna kaup Orca-hópsins á þessum stóra hlut í FBA, að þeir samþykktu Eyjólf sem fjórða fjárfestinn. Þremenningarnir iðrast þessa samþykkis síns í dag og telja að Eyjólfur hafi í raun aldrei haft þá fjárhagslegu burði sem þurfti, til þess að ráðast í svo gífurlega fjárfestingu og að þeir hafi tapað umtalsverðum fjármunum á þátttöku Eyjólfs í Orca.

Hinn 20. ágúst greiddu svo fjórmenningarnir í Orca fyrir bréfin. Hver þeirra þurfti að reiða fram 450.750.000 króna, því hlutaféð í Orca var 1,803 milljarðar króna og 3,25 milljarða króna lánið frá Scandinavian Holding dugði svo fyrir því sem á vantaði við fjármögnunina.

Orca reyndi að róa stjórnvöld

Það var talsverður titringur í fjölmiðlum og almennri umræðu um þennan nýja hóp fjárfesta fram eftir hausti 1999. Þessu gerði Orca-hópurinn sér grein fyrir og því ákváðu þeir að reyna að lægja öldurnar með því að setja á hluthafafundinum 28. ágúst 1999 sem fulltrúa sína í stjórn FBA menn, sem þeir töldu að sátt gæti ríkt um, m.a. hjá stjórnvöldum, en taka ekki sæti í stjórninni sjálfir. Þetta voru þeir Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, sem var kjörinn í stjórnina að undirlagi Þorsteins Más Baldvinssonar, og Jón Ingvarsson, fyrrverandi stjórnarformaður SH (Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna), sem tók sæti í stjórninni fyrir tilmæli frænda síns, Jóns Ólafssonar. Enginn úr Orca-hópnum fór því í stjórn FBA á þessu stigi.

Haustið 1999 ákvað ríkisstjórnin að halda áfram einkavæðingu FBA, en til þess að svara kennitölusöfnun Kaupþings og Búnaðarbankans frá haustinu 1998, sem hafði eyðilagt markmið ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild eða að minnsta kosti sett þau áform í algjört uppnám, var ákveðið að 51% hlutur ríkisins, sem eftir var, yrði seldur í einu lagi á genginu 2,8, eða 100% hærra gengi en 49% hlutur ríkisins var seldur ári áður. Gengið 2,8 var sama gengi og Orca greiddi Scandinavian Holding í ágúst 1999.

Hinn 15. október 1999 fór fram útboð á bréfum ríkisins. Við ákvörðun ríkisstjórnarinnar fóru alls konar þreifingar fjárfesta í gang og um skeið könnuðu þrír ólíkir hópar fjárfesta möguleikann á því að gera í sameiningu tilboð í 51% hlut ríkisins. Bjarni Ármannsson reyndi að ná saman hópi fjárfesta úr röðum lífeyrissjóða til þess að bjóða í bréfin, en tókst það ekki.

Þá var kannaður sá möguleiki, sem flestir í forsvari fyrir sparisjóðina, Kaupþing og Orca-hópinn höfðu líklega mesta trú á í upphafi, en það var að fá ákveðna lífeyrissjóði til liðs við sig til kaupa á 51% hluta ríkisins, þannig að brautin væri rudd fyrir sameiningu Kaupþings og FBA. Orca-hópnum og fulltrúum lífeyrissjóðanna og FBA kom það hins vegar gjörsamlega í opna skjöldu, hversu hátt Kaupþingsmenn verðlögðu eigið fyrirtæki, eða á um átta milljarða króna. Af þeim sökum einum fóru frekari viðræður þessara aðila um kaup og samstarf út um þúfur.

Þeir Eyjólfur Sveinsson og Jón Ásgeir Jóhannesson komu þá að máli við Bjarna Ármannsson í þeim erindagjörðum að kanna hvort ekki væri hægt að koma á einhvers konar samstarfi við lífeyrissjóðina og fleiri fjárfesta um kaup á 51% hlut ríkisins. Þeir þrír fóru síðan á fund Þórarins Viðars Þórarinssonar, formanns lífeyrissjóðsins Framsýnar, og Þorgeirs Eyjólfssonar hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna.

Í sameiningu tókst þeim að finna aðra lífeyrissjóði, félög og fjárfesta og að koma sér saman um sameiginlegt tilboð í 51% hlut ríkisins á genginu 2,8 fyrir samtals 9,7 milljarða króna.Gert var ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir ættu stærstan hlut, að hámarki 6% hver, og aðrir fjárfestar minni hlut. Ríkisvaldið tók þessu tilboði sem Árni Hauksson skilaði inn á borð Ríkiskaupa einum þremur mínútum áður en tilboðsfresturinn rann út.

Samkvæmt skilyrðum Framkvæmdanefndar um einkavæðingu um sölu á eignarhlut ríkisins í FBA þurftu kaupendur að greiða hver um sig hlut sinn til ríkisféhirðis fyrir kl. 14 mánudaginn 15. nóvember 1999 og við þá greiðslu, sem samtals var 9.710 milljónir króna, taldist FBA vera orðinn einkavæddur að fullu.

Ríkið hafði því samtals fengið 15 milljarða króna í sinn hlut fyrir banka sem metinn var á 10 milljarða króna þegar einkavæðingarferlið hófst réttu ári áður.

Með ráðandi hlut í árslok 1999

Meðal fjárfestanna 26 voru fjögur félög, öll á snærum Orca-hópsins eins og fram kemur í töflu, hvert um sig skráð fyrir 3% hlut.

Hvað sem áformum ríkisvaldsins um dreifða eignaraðild leið, þá fór það aldrei á milli mála að Orca-hópurinn var strax eftir þessi kaup kominn með um 40% eignarhlut í FBA, ráðandi hlut, og undir áramót var hann í kringum 45%, því á Þorláksmessu 1999 hafði Orca keypt hlut Gunnars Björgvinssonar, flugvélasala í Liechtenstein.

Orca-hjópurinn gekkst inn á það í samningum sínum við aðra fjárfesta í FBA, einkum fulltrúa lífeyrissjóðanna, að hópurinn yrði leystur upp og hver fjárfestir færi einungis með eigin atkvæði. Ákvæðið í samningnum við lífeyrissjóðina og aðra fjárfesta var svohljóðandi: "Svo fljótt sem auðið er, þó ekki seinna en 20. ágúst 2002, skal færa atkvæði FBA Holding (100% dótturfélag Orca SA) til hluthafahópanna fjögurra..."

Orca-menn segja að það hafi einfaldlega aldrei verið framkvæmanlegt að leysa Orca S.A. upp og að hver fjárfestanna fjögurra færi einvörðungu með sinn hlut, því skilmálar Kaupþings og annarra lánardrottna, sem fjármögnuðu kaup þeirra á hlutnum í FBA, hefðu verið með þeim hætti, að þeim væri óheimilt að leysa hópinn upp. Lánveitendur hafi talið mun öruggara fyrir sig, að eitt félag, Orca S.A., væri ábyrgt fyrir því liðlega þriggja milljarða króna láni sem var veitt til kaupanna og þar hefðu þeir eitt stórt veð, í stað fjögurra smærri og misjafnlega traustra veða.

Ný stjórn FBA tók við í nóvember og hana skipuðu Magnús Gunnarsson, formaður, Eyjólfur Sveinsson, varaformaður, Bogi Pálsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Jón Ingvarsson, sem Jón Ólafsson tilnefndi í stjórnina.

Markmið Orca-hópsins frá upphafi var að eignast ráðandi hlut í FBA, ná undirtökum í stjórninni og sameina bankann svo Kaupþingi. Þetta markmið, sem var að sönnu sameiginlegt markmið sparisjóðanna, Kaupþings og Orca, þótt á mismunandi forsendum væri, varð ekki að veruleika, þar sem lífeyrissjóðirnir, Orca og FBA töldu að Kaupþing væri alls ekki jafnverðmætt og stjórnendur og eigendur Kaupþings töldu fyrirtækið vera.

Þegar 51% hlutur ríkisins var seldur í nóvember 1999, þá var það alveg ljóst að það var markmið ríkisstjórnarinnar, ekki síst Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, að koma í veg fyrir það að Orca-hópurinn næði FBA undir sig.

Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði í utandagskrárumræðu á Alþingi 15. nóvember 1999, daginn sem einkavæðingarferli FBA lauk, að vel hefði tekist til við einkavæðinguna. Kaupendur 51% hluta ríkissjóðs væru m.a. sumir af stærstu og öflugustu lífeyrissjóðum landsins, fjársterkir einstaklingar og lögaðilar, stjórnendur bankans og einnig aðilar tengdir Orca-hópnum svonefnda. Fyrir lægi að öll markmið ríkisstjórnarinnar með sölunni myndu nást fram. Þannig ættu tveir stærstu einstöku hluthafar bankans um 7% hlut í honum en aðrir minna. Hluthafar væru talsvert á fjórða þúsund og Orca-hópurinn yrði leystur upp.

"Hluthafarnir munu því vinna saman að sameiginlegum hagsmunum sínum, þ.e.a.s. að auka veg bankans. Þegar upp er staðið hefur þessari vel heppnuðu einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins lokið með þeim hætti að ríkissjóður hefur fengið um það bil 14,4 milljarða króna fyrir hlutabréf sín í bankanum, sem er rúmum sex milljörðum króna hærri fjárhæð en sparisjóðirnir voru reiðubúnir að borga fyrir bankann fyrir aðeins rúmu ári. Einkavæðingin hefur því heppnast að þessu leyti til fullkomlega þó að illa hafi litið út um málið á tímabili," sagði Davíð.

Forsætisráðherra svaraði í sömu þingræðu fyrirspurn frá Sverri Hermannssyni, formanni Frjálslynda flokksins, um hvort hann teldi nauðsynlegt að fjármálastofnanir í fámennu landi væru í dreifðri eignaraðild, játandi: "Ég tel að þetta hafi heppnast hvað þetta mál varðar. Ég er enn þeirrar skoðunar að menn eigi að skoða rækilega hér í þinginu möguleika á að setja slíkar reglur (reglur um dreifða eignaraðild - innskot blaðamanns) og reyna að ná um það sæmilegri sátt."

Því var ákveðið að selja hlutinn í einu lagi. Stjórnvöld náðu reyndar ekki þessu markmiði sínu um dreifða eignaraðild að FBA, þar sem Orca var komið með 45% eignarhlut í FBA á Þorláksmessu 1999 eftir að hafa keypt hlut Gunnars Björgvinssonar í Liechtenstein og Orca-hópurinn var ekki heldur leystur upp vegna skilmálanna í lánasamningnum sem Orca gerði við Scandinavian Holding, eins og áður hefur verið lýst.

Því fóru ýmis hjól að snúast fljótlega eftir söluna á 51% hlut ríkisins og raunar má segja að mál hafi tekið óvænta stefnu, þegar undirbúningur hófst að sameiningu FBA og Íslandsbanka. Um það og átökin innan Íslandsbanka í kjölfar sameiningar bankanna á árinu 2000 verður fjallað í næstu grein á morgun.

agnes@mbl.is