KAUPHÖLL Íslands hefur sagt upp aðildarsamningi verðbréfafyrirtækisins Fjárvernd-Verðbréf hf. að Kauphöllinni. Í tilkynningu frá Kauphöllinni í gær segir að ástæða uppsagnarinnar sé viðvarandi vanefndir á greiðslu aðildargjalda.

KAUPHÖLL Íslands hefur sagt upp aðildarsamningi verðbréfafyrirtækisins Fjárvernd-Verðbréf hf. að Kauphöllinni. Í tilkynningu frá Kauphöllinni í gær segir að ástæða uppsagnarinnar sé viðvarandi vanefndir á greiðslu aðildargjalda.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir að nokkrir mánuðir standi útaf hjá Fjárvernd-Verðbréfum. Ekki sé um að ræða mjög langan tíma. Hjá Kauphöllinni sé hins vegar litið svo á að fjármálafyrirtæki, sem sýsli með annarra fé, eigi að vera í stakk búið að standa skil á greiðslum. Annað sé ekki trúverðugt. Sú stefna sé mjög ákveðin hjá Kauphöllinni að fyrirtækjum sé ekki leyft að safna skuldum við hana.

Forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Páll Gunnar Pálsson, segir stofnunina hafa farið yfir stöðu Fjárverndar. "Við höfum haft málefni félagsins til athugunar að undanförnu vegna bágrar eiginfjár- og rekstrarstöðu. Þeir hafa fengið frest til að gera grein fyrir sínum málum," segir Páll Gunnar.

Arnór Arnórsson, framkvæmdastjóri Fjárverndar-Verðbréfa hf., segir það leitt að til þess hafi komið að Kauphöllin hafi sagt upp aðildarsamningi félagsins að Kauphöllinni. Tímabundið greiðsluvandamál hafi orsakað að félagið hafi ekki náð að halda greiðslum til Kauphallarinnar í skilum. Félagið sé hins vegar í fjárhagslegri endurskipulagningu, sem líti vel út. Verið sé að semja við kröfuhafa auk þess sem nýtt hlutafé muni koma inn í félagið á næstunni. Hann segir að stefnt sé að því að endurnýja aðildarsamning Fjárverndar-Verðbréfa að Kauphöllinni hið allra fyrsta.

Fjárvernd-Verðbréf fékk starfsleyfi í júní 2001 og annast jafnt útboð sem kaup og sölu á verðbréfum fyrir fyrirtæki, stærri fjárfesta og einstaklinga. Fyrirtækið hefur gert samstarfssamning við svissneska bankann UBS um sérhæfða fjármálaþjónustu fyrir einstaklinga og sölu verðbréfasjóða bankans á Íslandi.

Að sögn Þórðar Friðjónssonar er gjaldskrá Kauphallar Íslands gagnvart einstökum aðilum þríþætt. Í fyrsta lagi eru aðildargjöld og nema þau 1.200 þúsund krónum á ári. Í öðru lagi er um að ræða tengi- og hugbúnaðargjöld sem fara eftir fjölda notenda. Í þriðja lagi greiða aðilar ákveðið hlutfall af veltu, sem er í grundvallaratriðum 0,005%.