Trompeteria nefnist nýr geisladiskur þar sem trompetleikararnir Ásgeir H. Steingrímsson og Eiríkur Örn Pálsson og orgelleikarinn Hörður Áskelsson flytja hátíðatónlist.
Trompeteria nefnist nýr geisladiskur þar sem trompetleikararnir Ásgeir H. Steingrímsson og Eiríkur Örn Pálsson og orgelleikarinn Hörður Áskelsson flytja hátíðatónlist. Flutt eru ýmis verk sem þeir hafa verið að flytja á undanförnum árum og þá sérstaklega á tónleikum í Hallgrímskirkju, bæði við áramót og endranær.

Tónlistin er frá endurreisnar- og barokktímanum. Eftir Girolamo Frescobaldi leika þeir þrjár kansónur, Konsert fyrir tvo trompeta eftir Antonio Vivaldi og fimm sónatínur eftir Johann Pezel. Tvær tokkötur eru á diskinum, önnur fyrir tvo trompeta og orgel eftir Giovanni Battista Martini og hin er Tokkata og fúga í d-moll eftir Johann Sebastian Bach. Þá er Adagio eftir Remo Giazotto, sem hann vann upp úr stefi eftir Albinoni og er verkið oftast kennt við hann. Síðasta verkið á geisladiskinum er svo Forleikur að Te deum eftir Marc-Antoine Charpentier, betur þekkt sem Eurovision-lagið, en þessi forleikur er leikinn í upphafi allra útsendinga á vegum Sambands evrópskra útvarpsstöðva.

Félagarnir þrír eru löngu orðnir landsþekktir tónlistarmenn. Ásgeir og Eiríkur leika báðir með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hörður hefur verið organisti og kantor Hallgrímskirkju frá árinu 1982.

Útgefandi er Fús. Diskurinn er til sölu í Hallgrímskirkju og versluninni 12 tónum.