[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
... RONAN Keating hefur árangurslaust reynt að fá Oasis-bræðurna Liam og Noel til að samþykkja bón sína um að fá að syngja lag þeirra, "Cigarettes and Alcohol" á næstu plötu sinni. Svarið er þvert nei og Gallagher-bræður töldu þetta vera grín.

... RONAN Keating hefur árangurslaust reynt að fá Oasis-bræðurna Liam og Noel til að samþykkja bón sína um að fá að syngja lag þeirra, "Cigarettes and Alcohol" á næstu plötu sinni. Svarið er þvert nei og Gallagher-bræður töldu þetta vera grín. Er þetta tilraun til að grófpússa glansímynd þá sem Keating hefur en hann mun dvelja í Ástralíu næsta hálfa árið við upptökur á næstu plötu sinni og á nú að gera tilraun til að ráðast inn á Bandaríkjamarkað. Meðal annars hefur hann samið nokkur lög í félagi við Bryan Adams ... Svo virðist sem Christina Aguilera , sem eins og Keating vill rokkaðri ímynd, fari fullgeyst í þeim málum. Þannig hefur fjölskylda hennar lýst yfir þungum áhyggjum af áfengisneyslu og partílíferni Aguilera sem um þessar mundir er næsta stjórnlaus. Frændi hennar Johann hefur beðið hana opinberlega að hugsa sinn gang en lífið hefur ekki beinlínis leikið við söngkonuna undanfarið þrátt fyrir frægð og frama, m.a. fékk hún taugaáfall á dögunum. Aguilera er ekki nema 22 ára ... Elton John hefur boðið Eminem að gista hjá sér og kærasta sínum, David Furnish. Elton kom öllum að óvörum er hann söng dúett með rapparanum snemma árs 2001 á Grammy-verðlaunahátíðinni.

"Hann er algert yndi og ég dáist að honum," segir Elton. "Hann er afar hæfileikaríkur." ... Mynddiskaútgáfa af Hringadróttinssaga: Föruneyti hringsins , sem er fyrsti kafli þríleiksins, hefur slegið Bretlandsmet í sölu á þess háttar formum - og ryður þar með Titanic af toppnum. Tvær og hálf milljón eintaka seldist fyrstu vikuna.

Radiohead er búin að taka upp nýja plötu og það aðeins á átta vikum. Þetta var gert til að forðast sams konar tafir og urðu á vinnslu tveggja síðustu platna, Kid A og Amnesiac. Nú á bara eftir að hljóðblanda plötuna og verður það gert í vor ... Það eru gömul brýni sem eru að hala inn aura af tónleikahaldi vestur í Bandaríkjunum, ekki þeir ungu og fersku. Aðdáendur munar ekki um að punga út háum fjárhæðum til að sjá goðin sín en vinsælir listamenn eins og Paul McCartney , Rolling Stones og Cher settu tiltölulega hátt verð á miða sína og það dæmi virðist vera að ganga upp.