ORCA-hópurinn var mjög nálægt því markmiði sínu síðastliðinn vetur að ná yfirráðum yfir Íslandsbanka. Ráðandi meirihluta tókst á síðustu stundu að koma í veg fyrir það.

ORCA-hópurinn var mjög nálægt því markmiði sínu síðastliðinn vetur að ná yfirráðum yfir Íslandsbanka. Ráðandi meirihluta tókst á síðustu stundu að koma í veg fyrir það. Þetta kemur fram í annarri grein af fjórum í greinaflokki Agnesar Bragadóttur, Baráttan um Íslandsbanka, í blaðinu í dag.

Var yfirtökutilraun Orca-hópsins úr sögunni þegar Hreggviður Jónsson, fyrrv. forstjóri Norðurljósa, dró framboð sitt til bankaráðs Íslandsbanka til baka 6. mars, skömmu fyrir aðalfund bankans. "Þar með máttu þeir Jón Ásgeir [Jóhannesson] og félagar sjá á bak mögulegum 5% stuðningi atkvæða Hannesar Smárasonar [aðstoðarforstjóra Íslenskrar erfðagreiningar] og mögulegum 4,31% stuðningi TM [Tryggingamiðstöðvarinnar] á einum og sama sólarhringnum, sem í einu vetfangi gerði vonir þeirra um að ná undirtökunum í Íslandsbanka að engu," segir í greininni.

Í greininni segir að hálfum mánuði fyrir aðalfund Íslandsbanka sem haldinn var 11. mars sl. hafi ákveðnir fulltrúar eigenda bankans vaknað upp við vondan draum, einkum fulltrúar lífeyrissjóðanna, þegar þeir sáu að Orca-hópurinn réði líklega yfir um 30% eignarhlut í bankanum, að meðtöldum tæplega 5% eignarhlut Hannesar Smárasonar í bankanum. Þeir sem stóðu að meirihlutanum í bankaráði Íslandsbanka réðu yfir öðrum 30%, þannig að við blasti að úrslitin í kosningu bankaráðs og hvernig meirihlutinn yrði skipaður myndi ráðast af hinum almenna hluthafa, yrði ekkert að gert.

Fram kemur að Hannes Smárason fékk, að höfðu samráði við Bjarna Ármannsson, bankastjóra Íslandsbanka, Hreggvið til að bjóða sig fram sem málsvara hins almenna hluthafa. Síðar frétti Hreggviður að Jón Ásgeir hafði merkt Orca-hópnum framboð hans. Auk þess fékk Hreggviður mjög afdráttarlaus skilaboð fyrir milligöngu fjölda manns um að það félli ekki í pólitískt kram stjórnarráðsins, ef hann yrði til þess að fella sitjandi meirihluta bankaráðsins.