SVÆÐISSKRIFSTOFA málefna fatlaðra í Reykjavík hefur fallið frá áætlunum um 3% niðurskurð í rekstri sambýla fatlaðra á árinu.

SVÆÐISSKRIFSTOFA málefna fatlaðra í Reykjavík hefur fallið frá áætlunum um 3% niðurskurð í rekstri sambýla fatlaðra á árinu.

Í gær barst framkvæmdastjóra svæðisskrifstofunnar tilkynning frá félagsmálaráðuneyti um að hann ætti að draga til baka bréf sem hann sendi milli jóla og nýárs þar sem hann fór þess á leit við forstöðumenn sambýla að þeir leituðu leiða til að ná 3% niðurskurði í rekstrinum á þessu ári.

Björn Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri svæðisskrifstofunnar, segist ekki vita hvernig ráðuneytið ætli að ráða fram úr fjárhagsvanda svæðisskrifstofunnar en hann muni eiga fund með Páli Péturssyni félagsmálaráðherra síðar í dag.

"Ég veit ekki hvernig á að leysa þetta en ég sá a.m.k. ekki aðra leið á sínum tíma en að gera þetta svona. Nú er þetta kallað til baka og menn ætla að setjast yfir það hvernig við getum bæði rekið þá starfsemi sem er í dag og fjármagnað það sem á að gera, samkvæmt áætlunum Alþingis og hugmyndum ráðuneytisins varðandi ný úrræði," segir Björn. Á hann þar við nýtt sambýli sem á að taka til starfa í haust og úrræði hvað varðar skamtíma- og dagvistun.

Björn segir að áfram verði reksturinn þó endurskoðaður og hagrætt, eins og gengur og gerist hjá öllum fyrirtækjum og stofnunum. "Ég er mjög glaður, mér var enginn hlátur í hug þegar ég tilkynnti þetta enda hringdu forstöðumennirnir í mig 2. janúar og sögðu að þetta hefði verið heldur óskemmtilegur nýársglaðningur sem ég var að senda þeim," segir hann.

Ætlunin er að spara 40-50 milljónir króna

Ætlunin var að spara 40-50 milljónir króna með niðurskurðinum og átti að nota þá fjármuni til stofnunar nýs sambýlis og til að bæta aðstöðu í skammtímavistun. Þannig var ætlunin að hagræða til að geta þjónustað fleiri en alls eru rúmlega 100 manns á biðlista eftir ýmiss konar þjónustu hjá svæðisskrifstofunni. Alls heyra um 30 sambýli í Reykjavík undir svæðisskrifstofuna, tvær skammtímavistanir, tvær dagvistanir og ein vinnustofa.