ÞEIR sem greiddu afnotagjald Ríkisútvarpsins með gíróseðli á síðasta ári fengu endurgreitt gjald, sem lagt var á þá vegna kostnaðar, nú í janúar.

ÞEIR sem greiddu afnotagjald Ríkisútvarpsins með gíróseðli á síðasta ári fengu endurgreitt gjald, sem lagt var á þá vegna kostnaðar, nú í janúar. Þorsteinn Þorsteinsson, forstöðumaður markaðssviðs RÚV, segir að afnotagjald hvers og eins hafi verið lækkað til samræmis við gírógjald, sem lagt var á hvern gíróseðil, sem sendur var út.

Í áliti umboðsmanns frá því í mars á síðasta ári segir að útsending gíróseðla til greiðenda afnotagjalda sé liður í því að innheimta lögbundin gjöld. Ef almenningur eigi að standa undir kostnaði vegna þáttar, sem teljist til almenns rekstrar opinberrar stofnunar, þurfi að mæla fyrir slíkri skyldu með sérstakri lagaheimild.

Álit frá umboðsmanni

Að sögn Þorsteins var hætt að innheimta þetta gírógjald í haust eftir að umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki heimilt samkvæmt lögum. Þeir sem greiði með gíróseðli í dag fái sendan greiðsluseðil fjórum sinnum á ári og greiði afnotagjald fyrir þrjá mánuði í senn. Greiðsluseðlarnir séu sendir út í upphafi hvers tímabils en frestur til að greiða gjaldið sé einn og hálfur mánuður. Þannig reyni RÚV að mæta þeim, sem kjósa þennan greiðslumáta, á miðri leið. Ekkert aukagjald er innheimt. Eftir sem áður er afnotagjald þeirra, sem greiða með beingreiðslum eða greiðslukorti, gjaldfært mánaðarlega.

Þorsteinn segir að áður hafi greiðsluseðlar verið sendir út á tveggja mánaða fresti. Með þessu nýja fyrirkomulagi dragi úr kostnaði þar sem seðlarnir séu sendir sjaldnar út.