PÁLL Halldórsson, formaður uppstillingarnefndar Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir að uppstillingarnefnd muni ekki hafa frumkvæði að því að færa til þá átta einstaklinga sem lentu í efstu sætum prófkjörs Samfylkingarinnar í Reykjavík.

PÁLL Halldórsson, formaður uppstillingarnefndar Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir að uppstillingarnefnd muni ekki hafa frumkvæði að því að færa til þá átta einstaklinga sem lentu í efstu sætum prófkjörs Samfylkingarinnar í Reykjavík. Ef hliðrað verður til á listanum vegna innkomu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fráfarandi borgarstjóra, verði frumkvæðið að koma frá þeim sem hlutu kosningu í prófkjörinu. Þeir hafi áunnið sér valrétt til að taka sæti á listanum.

Páll segir að ekki sé búið að ákveða hvenær fundur í fulltrúaráðinu verði boðaður til að samþykkja framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur.

"Mér sýnist að það geti orðið fljótlega og dragist ekki lengi. Við tökum okkur þann tíma sem við þurfum," sagði Páll, spurður um hvenær hann reiknaði með að boða fulltrúaráðið saman. Hann segir hræringar sem urðu í pólitíkinni í Reykjavík fyrir áramót hafa tafið þetta ferli. "Ég ætla að gefa þessu þann tíma sem þarf."