ÞAÐ verður bara áframhaldandi vinna við að bæta leik liðsins bæði í vörn og sókn. Á þeim stutta tíma sem við höfum til stefnu þá verður að nýta öll tækifæri sem gefast og nota þau vel," sagði Guðmundur Þ.

ÞAÐ verður bara áframhaldandi vinna við að bæta leik liðsins bæði í vörn og sókn. Á þeim stutta tíma sem við höfum til stefnu þá verður að nýta öll tækifæri sem gefast og nota þau vel," sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari aðspurður hvað hann hygðist leggja áherslu á í þriðja og síðasta vináttulandsleiknum við Slóvena í Laugardalshöll í kvöld kl. 20.

Guðmundur sagðist vera búinn að fara ítarlega yfir tvo fyrstu leikina gegn Slóveníu og ljóst væri að varnarleikurinn væri langt frá því að vera í því horfi sem hann óskaði. "Í þessum þriðja leik verður því höfuðáherslan lögð á varnarleikinn, að honum munum við einbeita okkur. Ég vonast til þess að Sigfús [Sigurðsson] komi inn í liðið að þessu sinni og þá kemur í ljós hvernig vörnin vinnur með honum. Þá reikna ég með að við reynum að taka kafla í leiknum þar sem við "keyrum" hratt á Slóvenana eftir að þeir missa boltann," sagði Guðmundur sem sagði að að mörgu væri að hyggja á þeim tíma sem til stefnu væri fram að HM

Símamál á Kúbu í ólestri

Ekki hefur enn náðst samband við Julian Róbert Duranona sem er á Kúbu í leyfi. Mikið ólag virðist vera á símasambandi við landið. Guðmundur landsliðsþjálfari sagði í gær að hann væri ekki enn af baki dottinn í tilraunum sínum við að ná sambandi við Duranona og vill því ekki afskrifa innkomu hans í landsliðið fyrir HM.