Bandaríkin 2002. Skífan VHS. (104 mín.) Bönnuð innan 12 ára. Leikstjórn Mira Nair. Aðalhlutverk Uma Thurman, Gena Rowlands, Juliette Lewis.

Í ÞESSU "konudrama" - vafasöm skilgreining það reyndar, hvernig er "karladrama"? - leika Uma Thurman og Juliette Lewis tvær vinkonur komnar vel á þrítugsaldurinn. Margir myndu skilgreina þær sem "hvítt rusl", þ.e. þær eru hvítar, þröngsýnar og ómenntaðar konur sem eiga í mesta basli með að láta enda ná saman og eyða kvöldinu á hverfisbarnum, í leit að hinum eina rétta eða þá bara einhverjum öðrum. En gengur hvorki né rekur í þeim efnum, bæði vegna þess að Lewis er einstæð móðir og báðar svo örvæntingarfullar og yfirþyrmandi að áberandi er lengstu leiðir. En þær láta sig stöðugt dreyma um að draumaprinsinn birtist á hvíta hestinum og virðast gjörsamlega grandalausar um að slíkur maður muni aldrei stíga fæti inn á aðra eins búllu, og allra síst í þeim tilgangi að finna sér lífsförunaut. Þannig eru þær verulega brjóstumkennanlegar þessar ungu og ólánsömu konur, ekki síst vegna þess að þær eru hreint yfirgengilega leiðinlegar, sér í lagi persóna Thurman, sem er svo óþolandi sjálfhverf og frek í óöryggi sínu að maður fær vel skilið að menn forðist hana sem eldinn heita.

Þetta er um margt athyglisvert hversdagsdrama, svolítið langdregið reyndar, en þannig er nú bara raunveruleikinn oftast. Stærsti gallinn er Thurman. Hún virkar engan veginn í hlutverki sínu og ofleikur óhóflega, ólíkt Lewis og Rowland, sem leikur móður Thurmans, þær eru fremur lágstemmdar og glerfínar í sínum rullum. Leikstjórn Miru Nair (Monsoon Wedding) er látlaus og næm en hún hefði að ósekju mátt tóna niður ýkjurnar til að gera annars raunsæja mynd raunsærri.**½

Skarphéðinn Guðmundsson