Lárus Orri Sigurðsson, fjær á mynd, á hér í höggi við Mark Danks hjá Bradford í bikarleik sl. laugardag.
Lárus Orri Sigurðsson, fjær á mynd, á hér í höggi við Mark Danks hjá Bradford í bikarleik sl. laugardag.
SEX Íslendingalið voru í hattinum þegar dregið var til 4. umferðar ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í gær. Tvö þeirra mætast, Watford og WBA, en með liðunum leika þeir Heiðar Helguson og Lárus Orri Sigurðsson.

Þetta er alls ekki svo slæmur dráttur," sagði Heiðar Helguson, framherji Watford, þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gær og innti hann eftir viðbrögðum. "Ég er fyrst og fremst ánægður með að við skyldum fá heimaleik og ég held að við getum alveg velgt WBA-liðinu undir uggum. Það verður gaman að fá að glíma við Lárus Orra og mæta úrvalsdeildarliði. Það eitt ætti að kveikja í mönnum og ég held að á góðum degi þá gætum við alveg komist áfram. Bikarleikir eru þannig að allt getur í rauninni gerst og gott dæmi um það er sigur Shrewsbury á Everton. Það hefur verið tröppugangur á leik okkar í vetur en ég veit að það er hugur í mönnum að fara lengra í bikarkeppninni. Við vorum slegnir út snemma í fyrra af Arsenal en núna er ætlunin að fara lengra."

Hörkuleikur hjá Ipswich

Heiðar var spurður út í möguleika hinna Íslendingaliðanna í keppninni.

"Ég reikna með hörkuleik hjá Hermanni og félögum hans í Ipswich í leiknum við Sheffield United. Ipswich hefur verið að rétta sinn hlut upp á síðkastið og Sheffield United hefur gengið vel í deildinni svo ég býst fastlega við spennandi viðureign sem erfitt er að spá fyrir um."

Stoke mætir annaðhvort Crewe sem er í 5. sæti 2. deildarinnar eða Bournemouth sem situr í 5. sæti 3. deildarinnar.

"Miðað við formið á Stoke um þessar mundir þá held ég að liðið klári sig af þessu og komist áfram hvort sem það mætir Bournemouth eða Crewe. Stoke-liðið hefur rifið sig upp og það er greinilega komið gott sjálfstraust í liðið."

Chelsea hefur fengið viðvörun

Davíð og Golíat myndi einhver segja um viðureign Shrewsbury og Chelsea en Eiður Smári og félagar hans í úrvalsdeildarliðinu sækja 3. deildarliðið heim. Shrewsbury komst heldur betur í heimsfréttirnar um helgina með því að leggja Everton að velli.

"Ég get ekki ímyndað mér annað en að Chelsea vinni þennan leik. Eftir hrakfarir Everton gegn Shrewsbury hafa leikmenn Chelsea fengið viðvörun og þeir taka þetta lið örugglega alvarlega. Hinu má þó ekki gleyma að Chelsea hefur nokkrum sinnum misstigið sig á móti minni spámönnum og til að mynda í Evrópuleikjunum í vetur á móti ísraelska liðinu og eins á móti Viking frá Noregi. Ég yrði samt mjög hissa ef Chelsea yrði slegið út."

Guðni Bergsson og samherjar hans í Bolton verða að velta Sunderland úr sessi til að komast í 4. umferðina og takist þeim það verða andstæðingarnir lið Blackburn.

"Bolton á strembinn leik fyrir höndum fari svo að þeir komist í fjórðu umferðina. Blackburn hefur gengið vel upp á síðkastið og er sérlega erfitt heim að sækja. Ég mundi því ætla að Blackburn færi áfram," segir Heiðar.