MÖRG dæmi eru um að dómkvaddir matsmenn hafi hrakið niðurstöður örorkumata Lífeyrissjóðsins Framsýnar og komist að þeirri niðurstöðu að lækkun örorkumatanna ætti ekki rétt á sér, en mið þýddi að viðskiptavinir sjóðsins töpuðu réttindum.

MÖRG dæmi eru um að dómkvaddir matsmenn hafi hrakið niðurstöður örorkumata Lífeyrissjóðsins Framsýnar og komist að þeirri niðurstöðu að lækkun örorkumatanna ætti ekki rétt á sér, en mið þýddi að viðskiptavinir sjóðsins töpuðu réttindum.

Að sögn Jóhannesar Alberts Sævarssonar hæstaréttarlögmanns sem rak tæpan tug mála á hendur Lífeyrissjóðnum Framsýn á árunum 1998 til 2000 fékkst leiðrétting á langflestum þeirra með því að lífeyrissjóðurinn féllst á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna. Til Jóhannesar leitaði fólk sem lífeyrissjóðurinn hafði lækkað niður fyrir 50% örorku, sem er lágmarksörorka fyrir greiðslu úr sjóðnum. Þegar dómkvaddir matsmenn voru fengnir til að endurskoða ákvörðun sjóðsins komust þeir oftast að því að ekki voru efni til lækkana niður fyrir þetta mark og gat fólkið því sótt rétt sinn á hendur sjóðnum á grundvelli niðurstöðu matsmannanna. Þar sem algengast var að sjóðurinn féllist á niðurstöðu matsmannanna fóru málin ekki svo langt að þeim lyki með dómsuppsögu.

Jóhannes segir að fróðlegt væri að vita hversu margir viðskiptavinir lífeyrissjóðsins hafi farið niður fyrir 50% orkutap eftir ákvörðun sjóðsins um lækkun örorkumatanna, en hann telur að flesta skorti beinlínis þrek til að standa á rétti sínum. Fólk skynji vissulega að það sé órétti beitt þegar það er svipt örorkulífeyri en sættir sig við þau svör sem fást hjá sjóðnum þegar eftir þeim er leitað. Þannig virðist margir gefast upp í stað þess að leita eftir leiðréttingu.