KRISTJÁN Halldórsson handknattleiksþjálfari, sem stýrir karlaliði Haslum í Noregi, er með þrjú tilboð í höndunum. Danska félagið Skovbakken/Brabrand vill fá hann til að taka við kvennaliði sínu fyrir næsta tímabil, Haslum vill halda honum og þá hefur honum verið boðið að taka við kunnasta kvennaliði Noregs, Bækkelaget.

Kristján sagði við Morgunblaðið í gær að hann hefði verið í miklu sambandi við Danina að undanförnu. "Það eru mjög spennandi hlutir að gerast í dönskum kvennahandbolta, félögin hafa góð fjárráð, áhuginn er mikill og margir leikir sýndir í sjónvarpi. Skovbakken/Brabrand ætlar sér stóra hluti næsta vetur, liðið er sem stendur í fallsæti en hefur styrkt sig mikið og kemst örugglega þaðan, og mun væntanlega leika undir nafni Århus í framtíðinni. Danirnir hafa þrýst mjög á mig um að svara tilboði þeirra en ég er fjölskyldumaður og þarf því að huga að ýmsu áður en ég tek endanlega ákvörðun. Ég ætla því að gefa mér lengri tíma," sagði Kristján. Haslum hefur vegnað mjög vel undir stjórn Kristjáns í vetur. Félagið lék í 1. deild fyrir áramót en vann sér sæti í "millispili B" og er þar í góðri stöðu. "Við eigum góða möguleika á öðru tveggja efstu sætanna og förum þá í úrslitakeppni með úrvalsdeildarliðunum um norska meistaratitilinn," sagði Kristján.

Bækkelaget er í basli um þessar mundir, situr á botni úrvalsdeildarinnar. "Félagið hefur bætt fjárhagsstöðu sína og er að fá til sín sterka leikmenn, en það er sísti kosturinn af þessum þremur að taka við Bækkelaget," sagði Kristján Halldórsson.