"Engin skynsamleg rök eru fyrir því að opinberir starfsmenn leggi stærri hluta launa sinna í lífeyrissjóð en aðrir."

HINN 13. desember 2002 birtist í Morgunblaðinu heilsíðuauglýsing frá Eflingu, stéttarfélagi, með glansmynd af fjármálaráðherra. Tilefnið var að ár var liðið frá því að "ráðherrann gaf fyrirheit um að jafna mismunandi réttindi og kjör starfsmanna í stéttarfélögum ríkisstarfsmanna og aðildarfélaga ASÍ", eins og segir í auglýsingunni.

"Geir H. Haarde lýsti því yfir að fullur vilji væri til að ná frambúðarlausn í þessum málum í samráði við Alþýðusamband Íslands."

Á bak við þessi orð liggja trúlega ýmis réttinda- og kjaraatriði. En lífeyrismálin munu vera þung á metunum.

Iðgjöld til almennra lífeyrissjóða hér á landi eru 10% heildarlauna og er það lágmark samkvæmt lögum frá 1997. Iðgjaldið skiptist yfirleitt þannig að sjóðfélaginn greiðir 4% og launagreiðandi 6%.

Í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er iðgjald til A-deildar 15,5%, þ.e. 4+11,5%. A-deildin var stofnuð árið 1997 og er fyrst og fremst fyrir þá sem koma til starfa hjá ríkinu 1997 og síðar. Eldri starfsmenn eru í B-deild með óbreyttum reglum frá því sem áður var.

Það mun vera þessi munur iðgjaldanna, annars vegar 10% og hins vegar 15,5% launa, sem Efling telur að þurfi að jafna. Réttindi í sjóðunum fylgja iðgjöldunum, þ.e. réttindi í LSR eru sem næst 55% verðmeiri en í öðrum sjóðum.

Ég geri ráð fyrir að málið snúist um þá starfsmenn aðildarfélaga ASÍ sem starfa hjá ríkinu. Varla hefur mönnum dottið í hug að ríkið greiði 5,5% ofan á öll laun í landinu.

Það kann í fljótu bragði að sýnast fundið fé að ríkið greiði 5,5% umfram það sem nú er til lífeyrissjóða starfsmanna. En hætt er við að það verði skammgóður vermir. Í næstu samningum munu samningamenn ríkisins segja: Herrar mínir. Nú hafið þið knúið fram 5,5% launa í lífeyrissjóð umfram það sem félagar ykkar fá frá öðrum vinnuveitendum.Þið verðið á móti að sætta ykkur við lægri laun. Þetta er eðlilegt viðhorf. Fallist ríkið á að greiða 15,5% í lífeyrissjóði þessa starfsfólks stendur Efling frammi fyrir því að þurfa næst að semja um lægri laun félagsmanna sinna sem vinna hjá ríkinu heldur en annarra. Spurning er hvort það verður nokkuð þægilegra misræmi en það sem nú er uppi.

Hafa verður í huga þegar þessi mál eru á döfinni að iðgjöld til lífeyrissjóða eru hluti af kjörum starfsmanna. Séu iðgjöld há verða útborguð laun þeim mun lægri. Eða á það ekki að vera svo? Féð kemur allt frá vinnuveitendum.

Líklega er það ætlun Eflingar að semja um hærri iðgjöld á almennum markaði eftir að ríkið hefur gefið eftir og jafna kjörin þannig að allir greiði að lokum 15,5% launa í lífeyrissjóð.

Það hefur lengi valdið ýfingum og tortryggni í þjóðfélaginu að ríkisstarfsmenn fá meiri lífeyri en aðrir. Það byggist reyndar á misskilningi ef rétt er sem sagt var hér framar að launin væru þeim mun lægri sem iðgjöld væru hærri. En því trúa ekki allir, enda getur verið erfitt að sanna slíkt. Mörgum finnst að landsmenn allir greiði hærri skatta en ella til þess að standa undir óhóflegum lífeyri ríkisstarfsmanna.

Engin skynsamleg rök eru fyrir því að opinberir starfsmenn leggi stærri hluta launa sinna í lífeyrissjóð en aðrir. Ef almennum launþegum dugar að fá 60% launa í eillilífeyri, af hverju ætti það ekki einnig að nægja opinberum starfsmönnum?

Mismunur lífeyrisréttindanna á sér sögulegar skýringar. Lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna er eldri en aðrir lífeyrissjóðir. Fyrstu lög um hann voru sett árið 1943. Rætur hans eru þó eldri. Iðgjöld til sjóðsins voru frá upphafi 10% fastra launa, fyrst allan starfstímann en síðar í 32 ár. Mun það hafa nægt til að standa undir réttindunum eins og þau voru í byrjun. Síðan gerðist aðallega tvennt. Í fyrst lagi lengdist meðalævi og lífleyrir varð dýrari af þeirri sök. Í öðru lagi var með árunum samið um aukin réttindi. Er nú svo komið að réttindin (í B-deild) kosta a.m.k. 25% af föstum launum. Mismunurinn hefur hlaðist upp í formi skuldbindinga sem ríkissjóður ber ábyrgð á.

En hvernig má það vera að samið skuli hafa verið um stóraukin réttindi sem iðgjöld stóðu ekki undir? Þá sögu leyfi ég mér að túlka þannig: Aukin lífeyrisréttindi voru lengst af ekki færð til skuldar hjá ríkinu og ekki einu sinni reiknuð út eða áætluð. Það kom þannig ekkert við bókhald ríkisins þó að réttindin hækkuðu. Þau komu ekki til gjalda fyrr en árum og áratugum síðar. Af þessari ástæðu freistuðust samningamenn ríkisins gjarnan til þess að slaka til á sviði lífeyrisréttindanna til að ná samningum heldur en að hækka launin. Lífeyrisréttindin voru þannig notuð sem skiptimynt í samningum. Það er velþekkt að gúmmíblaðra sem er veikari á einum bletti en annars staðar fær á sig gúl þegar hún er blásin upp. Á sama tíma þöndust lífeyrisréttindin út langt umfram launin vegna þess að þar var mótstaðan minni.

Þegar kerfið var stokkað upp og tekin upp A-deild árið 1997 varð iðgjaldið þar 15,5% af öllum launum í stað 25% fastra launa, sem þurft hefði til að mæta réttindunum, og var það talið jafngilt.

Eftir Jón Erling Þorláksson

Höfundur er tryggingafræðingur.