Stella Stefánsdóttir og Gunnar Konráðsson við  húsið sitt í Lækjargötu.
Stella Stefánsdóttir og Gunnar Konráðsson við húsið sitt í Lækjargötu.
"HÁLFNAÐ er verk þá hafið er," segir Gunnar Konráðsson, Nunni Konn, sem býr ásamt konu sinni, Stellu Stefánsdóttur, í húsinu númer 22 við Lækjargötu á Akureyri en bæði fögnuðu mjög þegar gatan var malbikuð í sumar, að líkindum ein sú síðasta...

"HÁLFNAÐ er verk þá hafið er," segir Gunnar Konráðsson, Nunni Konn, sem býr ásamt konu sinni, Stellu Stefánsdóttur, í húsinu númer 22 við Lækjargötu á Akureyri en bæði fögnuðu mjög þegar gatan var malbikuð í sumar, að líkindum ein sú síðasta sem lögð er malbiki innan bæjarmarka. Þó ekki nema til hálfs, malbikið nær rétt upp fyrir hús þeirra sem er efsta húsið í Skammagili sem svo heitir. Þau hjón hafa búið við Lækjargötu í 54 ár, "og maður hefur beðið eftir úrbótum hér á götunni allan þann tíma", segir Gunnar. Efst í gilinu eru nokkur hesthús og stendur til að fjarlægja þau í vor. "En það er nú búið að ljúga því að okkur svo oft áður," segir Gunnar og efast mjög um að af verkinu verði, "þannig að ég spái því að efri hluti Lækjargötunnar verði ekki malbikaður fyrr en eftir 100 ár." Stella kveðst ekki svo svartsýn: "Þeir klára þetta í vor, ég er viss um það," segir hún og tínir til smákökur á disk, "sem börnin hafa fært okkur, maður gerir ekki mikið sjálfur orðið", segir hún, móðir 14 barna með kojur upp um alla veggi hér í eina tíð. "Það var nú oft býsna þröngt, en alltaf líflegt."

Meiriháttar viðburður ef heyrðist í bíl

Gunnar og Stella segja umferð bifreiða um Lækjargötu hafa aukist mjög á síðustu misserum, enda íbúðarbyggð að vaxa á holtinu ofan við gilið. "Það er nú samt ekki nema einn og einn vitleysingur sem keyrir hratt hér um, flestir fara varlega, en það væri þó ekki úr vegi að setja upp hraðahindrun þar sem malbikið endar," segir Gunnar. Stella segir að á fyrstu árum þeirra hjóna við Lækjargötuna hafði það þótt meiriháttar viðburður ef bíll fór um gilið. "Við þustum bara beint út í glugga ef heyrðist í bíl, það var sama stemningin og í sveitinni, enda flestir gangandi á þessum tíma. Það voru líka bara dýr hér um allt, kindur, kýr, hestar, eiginlega allt nema asnar - nema þeir hafi einhverjir verið á tveimur fótum," segir hún og hlær.

Sótti kolin og dró þau heim á hlað

Gunnar sagði snjóþunga mikinn í gilinu og mokstur hefði ekki alltaf verið til fyrirmyndar, en þó batnað mikið hin síðari ár. "Þetta var til skammar hér áður fyrr, maður þurfti sjálfur að moka heilmikið, því þeir komu svo seint, þessi gata var greinilega afgangsstærð," segir hann og bætir við að hann hafi oft þurft að bera kol til húshitunar upp götuna þegar ekki var mokað. "Stella segir það, ég man það nú ekki svo glöggt sjálfur," segir hann og eiginkonan staðfestir söguna. "Ojú, þannig var þetta," segir hún. "Þú fórst hér niður að Geirshúsi, sóttir kolin og dróst þau hingað uppeftir."

Þau hjón muna marga snjóþunga vetur þar sem allt var á kafi og himinháir ruðningar byrgðu sýn. Tíðarfarið nú í vetur segja þau einstakt. "Ég bara man ekki eftir svona tíðarfari svona lengi," segir Gunnar, en minnist þess þó að hafa tvívegis leikið golf á nýársdagsmorgun. Fyrra sinnið var 1959, "hitt var eitthvað seinna, man ekki nákvæmlega hvenær", segir hann, en man mæta vel að hann byrjaði í golfi fyrir hálfri öld, árið 1953 "og var býsna seigur á tímabili", eins og hann orðar það. Hætti að keppa '85, en lék sér eftir það allt þar til hann fékk fyrir hjartað fyrir tveimur árum, "og hætti þá alveg bæði að hjóla og í golfinu, en hefði ég verið heill heilsu geri ég ráð fyrir að hafa verið á golfvellinum á hverjum degi nú að undanförnu, þetta er slík einmuna tíð".