LÖGREGLUNNI í Reykjavík var tilkynnt um 22 umferðaróhöpp um helgina en í tveimur tilfellum var um minniháttar meiðsl að ræða. 54 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur, einn þeirra var tekinn á 100 km hraða þar sem hámarkshraði er 50 km/klst.

LÖGREGLUNNI í Reykjavík var tilkynnt um 22 umferðaróhöpp um helgina en í tveimur tilfellum var um minniháttar meiðsl að ræða. 54 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur, einn þeirra var tekinn á 100 km hraða þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. Aðeins þrír voru kærðir vegna gruns um ölvun við akstur.

Nokkuð var um þjófnaði á veitingahúsum um helgina. Meðal annars var stolið myndbandsupptökuvél að verðmæti um 180.000. Þá var kona handtekin vegna gruns um að hafa stolið úr veski á veitingastað, m.a. farsíma. Er lögreglumenn voru að yfirheyra konuna kom þýfið upp um hana, þegar farsíminn sem hún hafði stolið fór að hringja en hún var með hann í vasanum. Þá var kona handtekin fyrir að hafa stolið peysu af annarri konu. Konan neitaði að fara úr peysunni og urðu lögreglumenn að færa hana úr og komu peysunni síðan til eigandans.

Óheiðarlegur blaðasali

Tilkynnt var um 12 innbrot og 33 skemmdarverk um helgina. Á föstudag var tilkynnt um mann sem hafði fallið í hálku inni í Vogum. Mun hann hafa ökklabrotnað.

Á laugardag var maður handtekinn í Lækjargötu grunaður um að hafa stolið blaðapakka frá verslun og vera að selja blöðin. Viðurkenndi maðurinn verknaðinn, skilaði því sem hann átti óselt og greiddi andvirði þeirra blaða sem hann hafði selt. Þá var á laugardag brotist inn í íbúð í Túnunum. Fór þjófurinn inn í svefnherbergi og stal fartölvu, farseðlum og vegabréfum. Á laugardagskvöld barst tilkynning frá íbúa í Breiðholti um að fjórir drengir hefðu sprengt upp ruslatunnu. Fékkst á þeim greinargóð lýsing og voru þeir handteknir skömmu síðar. Viðurkenndu þeir verknaðinn. Maður var handtekinn á laugardagskvöld í Austurstræti eftir að hafa sparkað í fimm bifreiðar. Dyraverðir sáu til mannsins og handsömuðu hann og héldu þar til lögreglan kom á staðinn.

Á sunnudagsmorgun tilkynnti leigubifreiðastjóri um mann sem hafði orðið fyrir árás tveggja manna á Miklubraut. Höfðu mennirnir barið manninn og stolið af honum 6-7 þúsund krónum og GSM-síma. Var maðurinn fluttur á slysadeild en hann var með áverka á augabrún og kvartaði undan eymslum við öndun.

Um hádegi á sunnudag varð laus eldur í kertaskreytingu í húsnæði við Þorragötu. Ekki varð af mikill eldur en eitthvað mun húsbúnaður hafa skemmst af völdum reyks. Á sunnudag var tilkynnt um innbrot í íbúð í Þingholtunum. Þarna hafði verið farið inn um glugga á lítilli kjallaraíbúð, þaðan farið upp á hæðina og stolið fartölvu og farsíma.