[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BJÖRN Bjarnason foringi sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur segir á vefsíðu sinni: "Þegar Ingibjörg Sólrún var spurð, hvers vegna hún hefði að lokum tekið ákvörðun um að segja af sér, gaf hún ýmsar ólíkar skýringar."

OG ÁFRAM heldur Björn: Ingibjörg "vill auðvitað draga athyglina frá sjálfskaparvítinu.

Ein helsta ástæðan, sem Ingibjörg Sólrún nefnir fyrir afsögn sinni, er, að hún hafi óttast, að ella mundu sjálfstæðismenn setjast í meirihlutastjórn með einhverjum innan R-listans. Beindist athyglin einkum að því, hvort samstarf milli okkar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna væri að mótast.

Ég ítreka hér ummæli mín við fjölmiðlamenn, þegar þeir spyrja um þennan þátt, að engar viðræður hafi verið að frumkvæði okkar sjálfstæðismanna. Hitt liggur í augum uppi, að við aðstæður sem þessar ræða stjórnmálamenn saman og velta fyrir sér álitaefnum."

Ábyrgð

OG ENN segir: "Ábyrgð okkar, sem sitjum í borgarstjórn Reykjavíkur, felst í því að tryggja meirihluta um ákvarðanir til að gæta hagsmuna borgarinnar og borgarbúa. Ef frumkvæði að því að mynda meirihluta, hefði farið úr höndum R-listans til okkar sjálfstæðismanna, hefði ég ekki rætt við eina fylkingu innan R-listans heldur fyrst kynnt mér afstöðu framsóknarmanna og vinstri/grænna, helst á sameiginlegum fundi. Miðað við hug Stefáns Jóns Hafsteins í garð okkar sjálfstæðismanna og heitstrengingar Ingibjargar Sólrúnar um að gera hlut okkar sem minnstan er líklega síst að vænta áhuga á þeim bæ á að starfa með okkur. Málum er hins vegar þannig háttað, að við getum myndað meirihluta með hverjum, sem hefur yfir tveimur atkvæðum að ráða, en R-listanum hefur einmitt verið skipt í fjögur tveggja manna hólf. Við upplausn listans verður sú breyting, að Ingibjörg Sólrún flyst væntanlega í hólf Samfylkingarinnar og situr þá Dagur B. Eggertsson einn eftir í "ópólitíska" hólfinu.

Í samtali við Morgunblaðið komst ég þannig að orði um hræðslu Ingibjargar Sólrúnar við okkur sjálfstæðismenn, að besta herstjórnarlistin fælist í því að ná markmiðum sínum án þess að þurfa að grípa til vopna. Við sjálfstæðismenn þurftum ekki annað en að vera til taks, svo að Ingibjörg Sólrún ákvæði að hætta sem borgarstjóri, að hennar eigin sögn."

Átök um forystuna

LOKS segir Björn: "Í lok ársins birtist Gallup-könnun um fylgi stjórnmálaflokkanna. Þar heldur Samfylkingin því fylgi, sem hún hafði náð í nóvember og framboðsbrölt Ingibjargar Sólrúnar sýnir ekki neina breytingu á fylgi flokksins í desember. Össur Skarphéðinsson hefur þær tölur sér til stuðnings í átökum um forystuna innan Samfylkingarinnar."