VIÐSKIPTI í Kauphöll Íslands námu 1.133 milljörðum króna á árinu 2002, sem er 51% veltuaukning frá fyrra ári. Veltan jókst bæði með hlutabréf og skuldabréf og hefur hún aldrei verið meiri.

VIÐSKIPTI í Kauphöll Íslands námu 1.133 milljörðum króna á árinu 2002, sem er 51% veltuaukning frá fyrra ári. Veltan jókst bæði með hlutabréf og skuldabréf og hefur hún aldrei verið meiri. Heildarvelta hlutabréfa nam 321 milljarði og er það um 132% aukning frá fyrra ári. Velta hlutabréfa á árinu 2001 var reyndar minni en árið 2000, eða 138 milljarðar seinna árið en 199 milljarðar á árinu 2000. Velta skuldabréfa á síðasta ári nam 812 milljörðum króna, sem er 33% aukning frá fyrra ári.

Velta hlutabréfa var tæpu einu prósenti minni á seinni hluta ársins 2002 en á fyrstu sex mánuðunum. Velta skuldabréfa og víxla var rúmum 44% meiri á seinni hlutanum en á þeim fyrri.

Septembermánuður á síðasta ári var veltumesti mánuður með hlutabréf frá upphafi en veltan nam þá tæpum 39 milljörðum króna.

Frá þessu er greint í viðskiptayfirliti frá Kauphöll Íslands.

Mest viðskipti með Íslandsbanka

Mest velta á árinu 2002 var með hlutabréf Íslandsbanka, um 34 milljarðar króna. Næstmest velta var með bréf Kaupþings banka, um 27 milljarðar. Þar á eftir komu Pharmaco með 25 milljarða, Delta með 21 milljarð og Baugur Group með um 20 milljarða.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 16,7% á árinu 2002 og var 1.352,03 í árslok. Vísitala Aðallista hækkaði um 21,6% en vísitala Vaxtarlista lækkaði um 5,8%.

Kauphallaraðilar voru 19 í árslok 2002 og var þar af einn erlendur. Hlutdeild Kaupþings banka í magni hlutabréfaviðskipta á markaðsvirði var mest meðal kauphallaraðila, eða 29,2% af heildinni. Næst kom Íslandsbanki með 20,1% hlutdeild, Landsbankinn með 19,5%, Búnaðarbankinn með 19,0% og Verðbréfastofan með 6,0%.

Kaupþing banki var einnig með mesta hlutdeild í magni hlutabréfaviðskipta innan Kauphallarinnr, eða 29,7%. Íslandsbanki var þar einnig í öðru sæti með 22,5% hlutdeild, en Búnaðarbankinn fór þar hins vegar yfir Landsbankann og var með 19,4% hlutdeild en Landsbankinn með 16,4%. Þá var Sparisjóður Hafnarfjarðar í fimmta sæti yfir hlutdeild í magni hlutabréfa á markaðsvirði innan kauphallarinnar með 2,4% hlutdeild.

10 félög afskráð á árinu

Þrjú félög voru skráð í Kauphöll Íslands á árinu 2002 en tíu voru afskráð. Þau félög sem voru skráð í Kauphöllinni voru Vátryggingafélags Íslands og Tækifæri, en þau voru bæði skráð á Tilboðsmarkaði, og Kaldbakur fjárfestingarfélag, sem var skráð á Aðallista.

Af þeim tíu félögum sem voru afskráð í Kauphöll Íslands á árinu 2002 voru sjö á Aðallista, tvö á Vaxtalista og eitt á Tilboðsmarkaði. Félögin sem voru afskráð voru Keflavíkurverktakar, Loðnuvinnslan, Útgerðarfélag Akureyringa, Talenta Hátækni, Skagstrendingur, Húsasmiðjan, Delta, Þróunarfélag Íslands, Auðlind og Haraldur Böðvarsson.

Þrjú þessara félaga voru að rúmlega 90% komin í eigu Eimskipafélags Íslands þegar þau voru afskráð, þ.e. Útgerðarfélag Akureyringa, Skagstrendingur og Haraldur Böðvarsson. Hin félögin, að Keflavíkurverktökum undanskildum, voru öll afskráð eftir samruna við önnur félög.

Í árslok 2002 voru 64 hlutafélög skráð í Kauphöll Íslands. Á Aðallista voru skráð 50 félög og þar af voru 5 hlutabréfasjóðir. Á Vaxtalista voru 9 félög, þar af einn hlutabréfasjóður, og 5 félög voru skráð á Tilboðsmarkaði.

Heildarmarkaðsvirði skráðra hlutabréfa í Kauphöll Íslands í lok ársins 2002 var 530 milljarðar króna, en var 428 milljarðar í lok árs 2001.

Mikil veltuaukning með húsbréf

Veltan með skuldabréf og víxla í Kauphöllinni á árinu 2002 var mest með húsbréf og stóðu þau fyrir um 39,3% af heildarveltunni. Veltan með ríkisbréf var fyrir um 16,4% af heildinni, húsnæðisbréf um 13,6% og spariskírteini um 12,7%. Bankavíxlar, ríkisvíxlar og önnur langtíma skuldabréf voru samtals um 18% af heildarveltu skuldabréfa og víxla á árinu.

Eins og með hlutabréf var hlutdeild Kaupþings banka mest í viðskiptum með skuldabréf og víxla mælt í magni á markaðsvirði, 25,1%. Íslandsbanki var í öðru sæti, þá Landsbankinn, Búnaðarbankinn og Sparisjóðabankinn, hvort sem um vær að ræða viðskiptin alls eða viðskiptin innan kauphallarinnar.