STEFÁN Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar, segir að þær forsendur sem Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi gefi sér um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar séu alrangar og niðurstaða hans um milljarðatap af virkjuninni eftir því.

STEFÁN Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar, segir að þær forsendur sem Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi gefi sér um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar séu alrangar og niðurstaða hans um milljarðatap af virkjuninni eftir því. Ljóst sé að Landsvirkjun gangi ekki til samninga við Alcoa öðruvísi en að hafa það markmið og væntingar að hagnast af orkusölu frá virkjuninni.

Ólafur, sem er borgarfulltrúi F- lista frjálslyndra og óháðra, kvaddi sér hljóðs utan dagskrár á borgarstjórnarfundi sl. fimmtudag um Kárahnjúkavirkjun. Taldi hann sterkar líkur vera á því að ein króna yrði greidd með hverri kílóvattstund sem seld yrði frá virkjuninni og tapið yrði árlega 4,4 milljarðar króna miðað við 4.400 gígavattastunda raforkusölu á ári. Sagði hann orkuverðið vera á bilinu 50-60% af því sem það þyrfti að vera til að virkjunin bæri sig. Óskaði Ólafur jafnframt eftir því að borgarstjóri kæmi í veg fyrir afgreiðslu málsins innan stjórnar Landsvirkjunar á meðan það hefði ekki verið afgreitt frá svonefndri eigendanefnd fyrirtækisins, en Reykjavíkurborg er sem kunnugt er eigandi að 45% hlut í Landsvirkjun.

Leikur sér með sjónarmið

Stefán Pétursson segir að Ólafur leiki sér með skammtímasjónarmið annars vegar og langtímasjónarmið hins vegar. Villandi sé að taka eingöngu mið af heimsmarkaðsverði á áli í dag án þess að líta til stöðunnar á fjármálamörkuðum. Ólafur miði við ríflega 8-9% raunarðsemiskröfu, sem Stefán segir að sé alltof há miðað við Kárahnjúkaverkefnið og stöðu markaða í dag. Hann segir að þar sem fljótandi vextir á Bandaríkjadollar séu 1,4% í dag þurfi ávöxtunarkrafa á eigið fé að vera yfir 35% til að ná þeirri meðalkröfu sem Ólafur miðar við. Þetta sé augsýnilega úr öllum takti.

Stefán minnir jafnframt á að veruleg fylgni sé á milli álverðs og vaxta. Því sé óvarlegt að gera á sama tíma ráð fyrir lágu álverði og háum vöxtum. Þetta megi m.a. sjá í ársreikningum Norðuráls á Grundartanga, sem sé að skila góðri afkomu þrátt fyrir lágt álverð.

"Við erum algjörlega ósammála fullyrðingum Ólafs og teljum að hann slíti úr samhengi ýmsar staðreyndir og upplýsingar sem fyrir liggja," segir Stefán og bætir því við að honum þætti fróðlegt að vita afstöðu Ólafs til verkefnisins ef hann sjálfur teldi allar líkur á að virkjunin væri arðsöm.