Helga Dís Árnadóttir og Brynjar Sigurðsson með dótturina sem lá svona á að koma í heiminn.
Helga Dís Árnadóttir og Brynjar Sigurðsson með dótturina sem lá svona á að koma í heiminn.
HEIMSÓKN Brynjars Sigurðssonar og Helgu Dísar Árnadóttur til foreldra Brynjars endaði með nokkuð óvenjulegum hætti því Helga eignaðist barn heima hjá tengdaforeldrum sínum. Og ekki nóg með það heldur tóku sjúkraflutningamenn á móti barninu.

HEIMSÓKN Brynjars Sigurðssonar og Helgu Dísar Árnadóttur til foreldra Brynjars endaði með nokkuð óvenjulegum hætti því Helga eignaðist barn heima hjá tengdaforeldrum sínum. Og ekki nóg með það heldur tóku sjúkraflutningamenn á móti barninu.

"Þetta er þriðja fæðingin sem ég aðstoða við í heimahúsi en sú fyrsta þar sem ég tek á móti og fæ barnið bókstaflega í fangið. Og þetta er alltaf jafn gaman, ef vel gengur. Svona fæðing er uppbót í starfi," sagði Gestur Ó. Pétursson, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem tók á móti stúlku í forstofu heimilis ömmu hennar í Skerjafirði á sunnudagskvöld.

"Þetta er annað barn þessara ungu hjóna. Konan var víst búin að segja sínum nánustu að hún byggist við að sú stutta fæddist heima. Þegar við Ragnar Guðmundsson komum á vettvang var hún með miklum verkjum en er dró úr þeim komum við henni fyrir á sjúkraflutningabörum. Þá sáum við fljótt hvert stefndi og sóttum í bílinn fæðingarböggul en í honum er sótthreinsaður búnaður sem notaður er við fæðingar. Hjalti Már Björnsson læknir, sem kom á vettvang um þessar mundir með Eyþóri Leifssyni á neyðarbílnum, var tæpast búinn að taka böggulinn í sundur og að gera hann kláran er grillti í kollinn á stúlkunni og þá var ekki um annað að ræða en taka til hendi," sagði Gestur.

"Þetta var mjög kostulegt allt saman, við vorum eiginlega lafhrædd yfir að þurfa sjálf að taka á móti. En sem betur fer birtust sjúkraflutningamennirnir í tæka tíð, það skeikaði aðeins nokkrum mínútum," sagði Brynjar, en hann og Helgu voru í matarboði í Skerjafirðinum þegar stúlkan fæddist.